„Björgunarsveitarmenn eiga ekki að standa í því að betla peninga“

Vilhjálmur Pálsson eða Villi Páls eins hann er oftast kallaður er frumkvöðull og hvatamaður að svo mörgu hér í Þingeyjarsýslum; að nokkrar Guðbrandsbiflíur þyrfti til að skrásetja öll hans afrek. Skrásetjari Skarps settist niður með Villa á dögunum, þáði af honum kaffi og hlýddi á frásögn hans af aðdraganda þess að stofnuð var Björgunarsveitin Garðar. Villi gegndi þar formennsku fyrstu 23 árin.

Villi Páls fer vel yfir tíma sinn með Björgunarsveitinni Garðari, hvernig það kom til að sveitin var stofnuð, tæknibreytingar í fjarskiptamálum og öðrum tækjabúnaði sem og áhuga samfélagsins á því að sveitin sé sem best útbúin. Viðtalið í heild sinni má lesa í prentútgáfu Skarps sem kom út s.l. fimmtudag. Við gípum niður í kaflann þar sem Villi útskýrir mikilvægi þess að samfélagið styðji við bakið á Björgunarsveitinni:

Villi talar um að samfélagið hafi alla tíð stutt vel við bakið á Björgunarsveitinni fjáhagslega, bæði einstaklingar og fyrirtæki. „Það voru alltaf einhverjir að standa í söfnun fyrir okkur,” segir Villi og rifjar upp að hann hafi verið að fletta einhverjum blöðum um það að einu sinni sem oftar hafi útgerðarmenn í bænum tekið sig saman og safnað fyrir sveitina og þá hafi fjöldi útgerðarmanna verið 57, allt frá trillum og upp í stórútgerðir. „Þannig að þetta var stórfé sem safnaðist. Munurinn nú er sá að það eru líklega ekki nema sjö útgerðiðr í dag.

Eftir Hvassafellsstrandið ’75 þá sendir tryggingafélagið sem tryggði þessa 19 menn sem voru um borð, björgunarsveitinni þakkarskeyti fyrir unninn afrek og góða upphæð 50.000 krónur sem var heilmikill peningur. Í sömu viku þá mæti ég konu á gangi hér í bænum sem sagði: „Ég ætlaði nú alltaf að rekast á þig. Ég er hérna með umslag. Ég vildi ekki fara heim til þín því ég vildi ekki láta bera á mér og þú mátt ekki láta nokkurn mann vita hver gaf þér þetta.” Þegar ég opna umslagið þá var þetta 100 þúsund kall. Tvöfalt meira en tryggingafélagið hafði sent okkur,” segir hann og finnst greinilega mikið til koma.

„Síðar fara strákar í hópnum að tala um það hvort við ættum ekki að halda samkomu til að þakka íbúum bæjarins velviljann og hafa frítt inn. Við fengum matinn gefins, sal Félagsheimilisins frítt og þetta var kallað Stjörnumessa. Þegar upp var staðið þá varð þetta rosaleg fjáröflun því það borguðu sig allir inn og sumir mjög mikið. Þetta var svo tekið upp sem fastur liður nokkur haust. Þetta átti upphaflega ekki að vera fjáröflun en það má segja að þetta hafi verið eina fjáröflun sem sveitinn stóð þá sjálf fyrir og það óvart. Síðar komu til dósasafnanir og ýmislegt en þetta er enn byggt upp af velvilja samfélagsins og á að vera þannig. Meðlimir eiga ekki að vera standa í því að betla peninga. Það er nóg að standa í því að þjálfa sig og sinna útköllum.” Villi segir Kiwanismenn hafa verið kjölfesta fyrir Björgunarsveitina Garðar í gegnum tíðina. „Það var samið um það á sínum tíma að þeir tækju að sér flugeldasöluna og það yrði engin samkeppni um það. Á móti myndu þeir styrkja sveitina og hafa gert það mjög myndarlega. Nú síðast keyptu þeir heilan bíl.”

- Skarpur 14. júní

 

Nýjast