Átti mér draum að skrifa bók og hann hefur ræst

Hrund segist hafa fengið gott fólk í lið með sér við útgáfuna, Guðjón Inga Eiríksson útgefenda í bók…
Hrund segist hafa fengið gott fólk í lið með sér við útgáfuna, Guðjón Inga Eiríksson útgefenda í bókaútgáfunni Hólum og hans fólk. Íris Auður Jónsdóttir listamaður málaði mynd á bókakápu og hún ásamt börnum sínum, Emil Loga og Agnesi Lóu Heimisbörnum teiknuðu myndir í bókina.

„Ég hef lengi átt mér þann draum að skrifa bók og nú hefur sá draumur ræst,“ segir Hrund Hlöðversdóttir starfandi skólastjóri Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit en hún hefur sent frá sér spennu- og ævintýrabókina ÓGN, ráðgátan um Dísar-Svan. Hrund er frá Akureyri en hefur búið í Hrafnagilshverfi með fjölskyldu sinni.  Hún á tvö börn, 17 ára og 23 ára. Tómstundir sínar notar hún til að skrifa, syngja í kór, spila á harmoniku og nýtir umhverfið í sveitinni til að stunda útivist, hlaupa, fara í sund og ganga á fjöll.

Hún segist hafa setið við skrifin með hléum síðastliðin tvö ár, tekið bókina upp margoft og endurskrifað, lagfært og endurbætt eftir ábendingum sem hún fékk frá „fólki sem var svo elskulegt að lesa bókina og gefa mér góð ráð,“ segir hún. „Ég er afskaplega þakklát fyrir það og svo er ég ótrúlega spennt að þetta ævintýri mitt sé nú að verða að veruleika; Bókin mín fær að öðlast eigið líf meðal lesenda.“

Tignarlegir Hraundrangar

Hrund segir að töluvert sé um liðið frá því  hugmyndin kviknaði eða sjö ár. „Ég gekk þá ásamt nemendum og starfsfólki Hrafnagilsskóla upp að Hraunsvatni í Öxnadal. Við vatnið er heill ævintýraheimur og mikil náttúrufegurð þar sem Hraundrangar tróna yfir manni, tignarlegir og ægifagrir,“ segir hún. „Ég var uppnumin af staðnum, en á þessum tíma hafði ég verið að kynna mér þjóðsögur og lesið um álfa, huldufólk, skrímsli og aðrar kynjaverur.“

Eftir ferðina að Hraunsvatni fékk Hrund þá hugmynd að skrifa ungmennabók sem gerist í þessu ævintýralega umhverfi. Hún vildi nýta þjóðsagnaarfinn, ævintýraheiminn sem gengið hefur mann fram af manni og tengja hann við nútímann.

Tengir saman raun- og hulduheima

Bókin fjallar um Svandísi, fjórtán ára stelpu sem flytur úr borginni norður í land. Þar eignast hún vinina Brján og Sylvíu en saknar vinkonu sinnar, Láru og getur ekki beðið eftir að hún komi í heimsókn í jólafríinu. Margt er einkennilegt á kreiki í kringum Svandísi.  Köttur með rauð augu, dularfullir hestar og fólk sem ef til vill er annað en það sýnist vera. Svandís flækist inn í baráttu góðs og ills, kynnist ástinni og þarf ásamt vinum sínum að glíma við ógurlegar kynjaskepnur. Hrund segir söguna byggða á þjóðsagnaarfi Íslendinga og tengja saman tvo heima, raunheima sem við þekkjum öll og hulduheima sem færri þekkja.

Hrund segist hafa fengið gott fólk í lið með sér við útgáfuna, Guðjón Inga Eiríksson útgefenda í bókaútgáfunni Hólum og hans fólk. Íris Auður Jónsdóttir listamaður málaði mynd á bókakápu og hún ásamt börnum sínum, Emil Loga og Agnesi Lóu Heimisbörnum teiknuðu myndir í bókina.

/MÞÞ

Nýjast