20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Arnar Már tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna
Arnar Már Arngrímsson er tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2018 fyrir bók sína Sölvasaga Daníelssonar en tilnefningarnar voru kynntar við hátíðlega athöfn sl. helgi. Tilnefnt er í flokki barna- og ungmennabóka, fræðibóka og rita almenns efnis og fagurbókmennta, en fimm bækur eru tilnefndar í hverjum flokki.
Bók Arnars Más er tilnefnd í flokki barna-og ungmennabóka. Sölvasaga Daníelssonar er sjálfstætt framhald Sölvasögu unglings sem kom út árið 2015 og vakti mikla athygli. Sama ár var Arnar tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og árið 2016 hlaut hann Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
Aðrar bækur sem tilnefndar eru í flokki barna-og ungmennabóka í ár eru Sagan um Skarphéðin Dungal eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring, Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur, Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur og Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn.
Verðlaunin verða afhent á Bessastöðum um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári og verðlaunaupphæðin ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk.