20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Alltaf þrifist best í lifandi umhverfi“
Rakel Hinriksdóttir er grafískur hönnuður, búsett á Akureyri og starfar við dagskrárgerð og verkefnastjórn hjá N4. Hún er frá Laugum í Reykjadal og bjó þar til 11 ára aldurs en ólst upp að hluta til á Akureyri. Rakel er Norðlendingur vikunnar og situr hér fyrir svörum. -Hvernig lá leiðin í fjölmiðlabransann Rakel? "Það var ekki alveg bein leið. Eg var spennt fyrir fjölmiðlum þegar ég var yngri, fór í fjölmiðlavalgrein í 10. bekk og fannst það mjög gaman. Í Menntaskólanum missti ég af starfskynningarferð til Reykjavíkur vegna fótbolta og þurfti sjálf að skipuleggja starfskynningu í staðinn á Akureyri. Ég heimsótti fjölmiðlana á svæðinu og sérstaklega var heimsóknin í RÚV eftirminnileg. Það byrjaði allt svona frekar rólega en þróaðist svo út í það að ég fékk að fara með Karli Eskil að sækja glænýja frétt út á Dalvík, þar sem við hentumst í það að fjalla um mikið hitamál sem tengdist grunnskólunum. Spennan og tilfinningarnar sem streymdu frá viðmælendum Kalla hrifu mig algjörlega með, en ég fékk að halda á hljóðnema og fannst ég algjörlega með þarna í fréttaliðinu. Löngu seinna, eftir framhaldsnám í USA í grafískri hönnun, varð röð atvika til þess að ég fékk vinnu á N4 og hef verið þar í þrjú ár, tvö í dagskrárgerð. Það er svo bara skemmtilegur bónus að fá að vinna með Kalla aftur eftir öll þessi ár!