„Allt sem ég hef lært, hef ég lært af pabba,“

Halla Marín við myndir eftir sig og föður sinn, Haffa. Mynd:epe
Halla Marín við myndir eftir sig og föður sinn, Haffa. Mynd:epe

„Allt sem ég hef lært, hef ég lært af pabba,“ segir Halla Marín Hafþórsdóttir í samtali við Vikudag. Þau feðginin Halla Marín og Hafþór Hreiðarsson (Haffi) opna sameiginlega ljósmyndasýningu í dag klukkan 18:00 í Verbúðunum við Hafnarstétt. Sýningin ber nafnið Heima og að heiman.

Á sýningunni eru mannlífs-, náttúru- og portrettmyndir frá Norðurþingi og Indónesíu. „Þetta eru svona klassískar myndir eftir pabba af náttúru og mannlífi af svæðinu hérna heima. Svo er ég með mannlífs- og portrettmyndir frá Indónesíu,“ segir Halla Marín en hún er rétt komin heim eftir að hafa dvalið í tæpt ár í Indónesíu. Þar var hún að læra Indónesísku í skiptinámi frá Kaupmannahafnar háskóla og lenti að sjálfsögðu í fullt af ævintýrum sem máské hafa ratað á mynd.  „Það er gaman að búa einhversstaðar þar sem menningin er allt öðruvísi en maður á að venjast.“

Haffa þarf vart að kynna fyrir Þingeyingum, hann hefur í áratugi skrásett sögu Þingeyinga með ljósmyndavélinni en þetta er í fyrsta sinn sem feðginin halda sýningu saman. „Okkur pabba hefur alltaf langað til að halda sýningu saman en einhvern veginn aldrei komið því í verk. Svo Þegar ég var í Indónesíu þá fór ég að taka nokkurn veginn eins myndir og pabbi hefur verið að taka hérna heima. Mannlífsmyndir af fólki í sínu daglega amstri,“ segir Halla Marín og bætir við: „Það er svo gaman að bera þessar myndir saman, frá sitt hvorri heimsálfunni,- sitt hvorum menningarheiminum; að sjá hvað þetta eru í rauninni svipaðar myndir, hvernig daglegt líf á Húsavík og Indónesíu er í rauninni eins, en samt svo ólíkt.“

Sýningin opnar sem fyrr segir klukkan 18:00 í dag og verður opin eitthvað fram á kvöld. 
Föstudag og laugardag verður opið frá hádegi til kl 18, sunnudag til kl 16.

Í sömu verbúð er Katrín Kristjánsdóttir með myndlistarsýninguna Hugarró. Katrín er ný útskrifuð frá Listaháskóla Íslands.

Heima og að heiman

Nýjast