Allt frá einföldum málum upp í flókinn og fjölþættan vanda
mth@vikubladid.is
Fyrir hendi er mikil uppsöfnuð þreyta meðal starfsfólks innan heilbrigðis- og menntakerfa sem meðal annars má rekja til mikils álags í starfi meðan á kórónuveiru faraldrinum stóð. Mikil þörf er á að taka á málum áður en illa fer. Sigrún V. Heimisdóttir sálfræðingur og Katrín Ösp Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni á Akureyri hafa mikla reynslu af því að taka á þeim málum.
Sigrún stofnaði Heilsu- og sálfræðiþjónustuna í mars árið 2021 og er framkvæmdastjóri. Katrín hefur starfað hjá fyrirtækinu frá upphafi og gegnir stöðu verkefnastjóra greininga- og meðferðarúrræða. Á rúmlega einu og hálfu ári hefur vöxturinn verið umtalsverður, verkefnum fjölgað og tæplega 20 manns komnir til starfa hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni. Mannauðurinn er mikill segja þær Sigrún og Katrín og þær nefna að faghópurinn hafi fjölbreytta menntun en þar starfa sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, ljósmóðir, iðjuþjálfar, fjölskyldufræðingur, uppeldis og foreldraráðgjafi, kennarar og ráðgjafar. Heilsu og sálfræðiþjónustan bíður upp á þjónustu á Akureyri og fjarþjónustu.
„Þetta hefur verið ævintýralegur tími og mikil eftirspurn eftir fjölbreyttum úrræðum s.s. fyrirlestrum og einstaklingsþjónustu” segir Sigrún. Hún var annar eigandi Sálfræðiþjónustu Norðurlands um 10 ára skeið og vildi efla þjónustu á svæðinu enn frekar og veita vandaða sálfræðiþjónustu og vinna að heilsueflingu, allt frá forvörnum til sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu.
„Ég hafði löngun til að svara þörf skjólstæðinga minna og efla möguleika fólks almennt, á að fá víðtæka þjónustu á einum stað. Það er þekkt að mikilvægt er að teymi mismunandi fagstétta komi að þyngri málum og þannig starfsemi skorti hér á svæðinu“ bætir Sigrún við. „Við erum mörg og störfum í teymum og það gerir okkur kleift að taka að okkur margs konar viðfangsefni, allt frá einföldum málum og upp í mjög flókinn og fjölþættan vanda sem fólk glímir við,“ segir Sigrún.
ADHD greiningar
Heilsu og sálfræðiþjónustan sinnir m.a. ADHD greiningum og á því rúma eina og hálfa ári sem hún hefur verið starfandi hafa um 100 fullorðnir einstaklingar farið í gegnum greiningarferli vegna ADHD og talsverður hópur barna að auki. Sérstakt ADHD teymi er að störfum á stofunni og sinnir það greiningum. Þær segja mikilvægt að upplýsa fólk með ADHD um verkfæri til að efla færni í daglegu lífi og draga úr hamlandi einkennum. „Við erum með öflugt teymi á bak við hverja greiningu og eftirfylgni. Því höfum við tök á að vinna að málum nokkuð hratt. Það er ánægjulegt að geta boðið þessa þjónustu því það er mikilvægt fyrir fólk að fá niðurstöðu sem fyrst svo hægt sé að bregðast við.“
Sem dæmi um verkfæri þá eru námskeiðin vel sótt og þátttakendur duglegir að senda jákvæð ummæli um þau. Tvö vinsælustu námskeiðin eru Leiðin áfram, streitustjórnun og uppbygging og Áfram og upp, sem byggir á ACT og núvitund en auk þeirra eru fjöldi annarra námskeiða á stofunni.
Mikilvægi góðrar andlegrar heilsu
Þær segja að vissulega séu biðlistar í ákveðin úrræði en heilt yfir gangi ferlið hratt fyrir sig eftir að beiðni um þjónustu hefur borist. Til að mynda getur fólk fengið að hitta fagaðila úr heilsuteymi innan þriggja vikna frá því að beiðni um viðtal berst. Sigrún og Katrín segja fólk vant því að langir biðlistar séu nánast hvarvetna þegar leitað er aðstoðar og því verði margir undrandi þegar það pantar tíma á stofunni og þarf ekki að bíða. „Við höfum á að skipa mjög breiðum og öflugum faghópi og því höfum við náð að sinna flestum sem til okkar leita. Við fáum fólk í viðtal, metum hver vandinn er og ráðleggjum um meðferð eða leiðir til heilsueflingar. Ekki sé síður mikilvægt að vinna úr andlegri heilsu en bregðast við líkamlegum einkennum. Það hefur sem betur fer orðið mikil vakning hjá almenningi þegar kemur að mikilvægi góðrar andlegrar heilsu, fólk er ekki í sama mæli og áður að veigra sér við að leita aðstoðar.“
Tökum vel á móti öllum
Heilsu- og sálfræðiþjónustan hefur mikið gert af því að efna til viðburða úti í bæ, fyrirlestra eða námskeiða sem hafa átt vinsældum að fagna. „Við köllum það að fella niður veggi, þegar við reynum að forðast myndun biðlista, skrifa opinbera pistla til heilsueflingar og birtum reglulega á heimasíðu okkar og samfélagsmiðlum hugmyndir að bjargráðum. Einnig buðum við ókeypis opna fundi nú í vor fyrir alla skóla- og heilbrigðisstarfsmenn á Akureyri vegna álags og streitu í kjölfar Covid. Við berum samfélagslega ábyrgð og erum stöðugt að leita leiða til þess að þjónustan geti nýst sem flestum,“ segja þær.
Algengt er að fólki leiti til stofunnar til að fá aðstoð vegna kvíða, þunglyndis, sorgar, streitu, áfalla, ýmissa heilsufarsvandamála og veikinda. Einnig sækir fólk sér í auknum mæli stuðning, ráðgjöf og handleiðslu t.d. tengt starfstengdu álagi.
Þreytan að koma upp á yfirborðið
Fólk í ýmsum starfsstéttum getur fundið fyrir örmögnun og sér í lagi stéttir sem voru undir miklu álagi undanfarin ár. „Þessi þreyta er mikið að koma upp á yfirborðið núna og það er mjög mikilvægt að bregðast við í tíma, láta hlutina ekki ganga of langt. Úrvinnsla skiptir miklu máli, að ræða hlutina, taka á þeim og finna nýjar leiðir til að koma sér á réttan kjöl” segja þær Sigrún og Katrín.