Allir fara glaðir frá borði

Krakkarnir fóru allir glaðir frá borði. Myndir: Sigfús Ólafur Helgason
Krakkarnir fóru allir glaðir frá borði. Myndir: Sigfús Ólafur Helgason

mth@vikubladid.id

Hollvinafélag Húna ll hefur undanfarin fimmtán ár boðið börnum sem eru að hefja nám í  sjötta bekk grunnskóla upp á siglingu með skipinu. Krakkarnir renna fyrir fisk úti á Eyjafirði, gert er að og aflanum og fylgjast þeir yfirleitt spenntir með, en einnig fræðast þau um sjómennsku almennt. Iðnaðarsafnið á Akureyri á Húna ll.

„Þetta glæsifley sem rekið er af miklum myndarskap af Hollvinafélagi Húna ll og verður ekki gert betur, hefur nú í 15 ár haft það hlutverk á hverju hausti þegar grunnskólar bæjarins byrja að bjóða börnum sem eru að hefja nám í sjötta bekk að sigla með skipinu. Þetta er og hefur verið ákaflega vinsælt,“ segir Sigfús Ólafur Helgason hjá Iðnaðarsafninu.

Skemmtilegasta verkefnið

áhöfn

Hann segir Þorstein Pétursson, Steina Pje sem hafi verið vakinn og sofinn yfir þessu verkefni alla tíð sem og yfir skipinu sjálfu segi þetta verkefni það allra skemmtilegasta sem Húnamenn fáist við. „Þetta er það skemmtilegasta sem þeir gera, að bjóða börnunum um borð, sigla í tvo til þrjá tíma um Eyjafjörð og fræða þá um ýmislegt sem viðkemur sjómennskunni. Það hefur aldrei komið upp að krakkarnir fari ekki glaðir frá borði eftir siglinguna.“

Þorsteinn Pétursson segir að nú hin síðari ári fari á bilinu 3 til 400 nemendur með í siglingu, en til að byrja með þegar þær voru einungis í boði fyrir grunnskóla á Akureyri var fjöldinn um 200 krakkar. Siglingin hefur verið í boði frá árinu 2007 eða í 15 ára og því skipta þau þúsundum börnin sem notið hafa ferðanna um árin.

Viljugri að borða fisk

Skólum sem þiggja siglingu með Húna er alltaf að fjölga. Allir grunnskólar Akureyrarbæjar nýta sér ferðina, en til viðbótar hafa grunnskólar við Eyjafjörð bæst í hópinn. Þar má nefna Hrafnagilsskóla, Valsárskóla, Þelamerkurskóla og grunnskólana á Grenivík, í Hrísey og á Dalvík. Stefnt er að því að grunnskólinn í Fjallabyggð muni einnig vera með. Akureyrarbær, Auðlindadeild Háskólans á Akureyri og Samherji styrkja siglinguna.

„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi. Við fáum mjög góð viðbrögð frá öllum, börnunum sjálfum, kennurum og skólastjórnendum, það eru allir ánægðir með þetta,“ segir Þorsteinn. „Það er margt gott sem kemur út úr þessu, eitt er að krakkarnir eru viljugri að borða fisk eftir að hafa farið í siglingu með okkur og það er svo sannarlega jákvætt.“ 

Lofsvert framtak

„Ég fór eina ferð um daginn og var hún mjög eftirminnileg, þegar við sigldum inn á Poll rákumst við á þrjár andanefjur sem höfðu hreiðrað þar um sig og krakkarnir sáu þær í mikilli nálæg við skipið,“ segir Sigfús. Í siglingunni voru krakkar úr Brekkuskóla, einni kennaranna sem með var í för hafði verið í fyrsta nemendahópnum sem fór í Húnasiglingu árið 2007. „Þetta framtak Húnamanna er lofsvert, ég dáist að þeim fyrir að bjóða upp á þetta verkefni, skipið sjálft er alveg frábært og viðhald þess einstakt enda má segja að í áhöfn skipsins sé einvala lið manna sem lagt hafa líf og sál í að varðveita bátinn,“ segir Sigfús.

Húni

Nýjast