20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Akureyringar slógu í gegn á festivali í Danmörku
Fimm manna hljómsveit frá Akureyri spilaði nýverið á árlegri hátíð í Óðinsvéum í Danmörku, sem nefnist Havnekultur Festival, og lék þar íslensk lög. Um þriggja daga hátíð er að ræða en Akureyringarnir spiluðu á laugardeginum.
Rafn Sveinsson tónlistarmaður er einn meðlima hljómsveitinnar, sem nefnist Hekla, og segir það hafa verið fyrir tilviljun að sveitin kom þarna fram. „Sonur minn býr í Óðinsvéum og er formaður Íslendingafélagsins þar. Ætli megi ekki segja að ég hafi nýtt mín sambönd,“ segir Rafn og hlær.
Auk hans skipa hljómsveitina þeir Sigurður Albertsson, Árni Ketill Friðriksson, Friðrik Bjarnason og Ingólfur Jóhannsson, sem kom í stað Pálma Stefánssonar, sem ekki gat farið.
„Þetta atvikaðist þannig að ég var staddur í Óðinsvéum þar sem barnabarn okkar hjónanna var að fermast. Þar hitti ég konu sem kemur að hátíðinni og það barst í tal að ég væri með hljómsveit á Akureyri. Ég sagði við gætum nú alveg komið og spilað. Svo þróaðist þetta áfram og áður en ég fór heim var ég búinn að skrifa undir samning um að við myndum koma,“ segir Rafn. Laugardagurinn var sérstakur íslenskur dagur og spiluðu Rafn og félagar samtals í fjóra tíma. „Þetta var mjög erfitt en rosalega gaman,“ segir hann. Hann segir þá félaga hafa vakið mikla lukku með al gesta.
„Ég var spurður eftir hátíðina hvort við værum ekki pottþéttir á næsta ári en ég sagðist ætla skoða hvort við yrðum lausir,“ segir Rafn og hlær. „Þetta var mjög ánægjulegt og það voru svo margir Íslendingar sem komu til okkar eftir tónleikana að við ætluðum aldrei að komast í burtu. Þannig að það er aldrei að vita nemum við endurtökum leikinn að ári."