Aðgegni fyrir alla í hjarta bæjarins

Húsavíkurkirkja ber fallega við himininn og enn fallegra verður um að litast í sumar þegar framkvæmd…
Húsavíkurkirkja ber fallega við himininn og enn fallegra verður um að litast í sumar þegar framkvæmdum líkur. Mynd/epe

Mánudaginn 27. mars s.l. hófst vinna við uppgröft og jarðvegsskipti við Húsavíkurkirkju og Bjarnahús.

Helga Kristinsdóttir, formaður sóknarnefndar Húsavíkur segir að lóðin muni tengja Húsavíkurkirkju og Bjarnahús og bæta aðgengi fyrir alla. Hún segir jafnframt að framkvæmdirnar hafi gengið vel hingað til og lóðin verði sannkölluð bæjarprýði í hjarta bæarins. Faglegur stjórnandi framkvæmdanna er  Benedikt Björnsson skrúðgarðyrkjumeistari.

Hóll ehf. með Þórð Sigurðsson í broddi fylkingar hefur séð um jarðvegsskiptin. „Haldnir eru verkfundir vikulega í umsjón og stjórn Egils Olgeirssonar. Hann og Frímann Sveinson f.h. sóknarnefndar hafa haldið utan um verkplanið og fylgst vel með, ásamt því að vera í stöðugu sambandi við þá sem að verki koma,“ segir Helga og bætir við að verkið sé í góðum stíganda eins og hún orðar það í samtali við blaðamann í byrjun vikunnar.

„Komið er að uppsetningu fyrstu forsteyptu eininganna sem unnið hefur verið að í vetur hjá Trésmiðjunni Rein ehf.“ segir hún.

Gott samstarf um verkið

Kirkja framkvæmditr

Helga segir að öll samvinna hafi gengið ótrúlega vel, verkið er hannað af arkítektastofunni Landslag og eru fjölmargir verktakar í heimabyggð sem koma að framkvæmdunum undir styrkri stjórn Benedikts Skrúðgarðyrkjumeistara. „Ekki hvað síst samvinna við kirkjunnar fólk og embættismenn Norðurþings,“ segir Helga.

Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdirnar muni kosta 42 milljónir króna og segir Helga að verkið sé á áætlun.  „Enda vel haldið utan um kostnaðarliði,“ segir hún og bætir við að áætluð verklok séu í júní.

„Það er stefnan að lóðin skarti sínu fegursta á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga  17. júní n.k. Með öðrum orðum, þá styttist í fullnaðarfrágang,“ segir Helga glöð í bragði.

 Leituðu til lögfræðings

Þá greinir Helga frá því að nýverið hafi sóknarnefnd borist vinsamleg tilmæli vegna framkvæmdanna. Hún segist hafa fengið tilkynningu um að verkið sé  útboðsskylt, þar sem Þjóðkirkjan er aðili að Ríkiskaupum og þar með að Rammasamningum  Ríkiskaupa RG 17-09 sem er rammasamningur  um Skrúðgarðyrkju.

„Við leituðum til lögfræðings, sem hefur skoðað málið og telur ljóst að Húsavíkursókn sé ekki aðili að rammasamningnum, enda ekki tilgreindur á lista yfir slíka aðila,“ segir Helga og bætir við að áhugasamir geti flett upp lista yfir aðila að rammasamningnum á heimasíðu Ríkiskaupa.

„Það liggur því fyrir álit þess efnis að verkið falli ekki undir ofangreindan rammasamning Ríkiskaupa, auk þess sem fjárhæð þess er undir viðmiðunarfjárhæð um útboðsskyldu sem er í dag ríflega  58, 5 milljónir króna,“ útskýrir Helga.

Þá segir Helga jafnframt að nokkur umræða hafi skapast í bænum frá því lóðaframkvæmdir hófust, hvort ekki þyrfti að fara fram grenndarkynning á verkinu. „Því skal til haga haldið að auglýstur var opinn kynningarfundur s.l. haust um komandi framkvæmdir. Að auki voru teikningar birtar á Netinu. Töldum við þetta uppfylla skyldur okkar hvað grenndar kynningu varðaði og fengum engar athugasemdir frá góðum grönnum eða yfirvöldum,“ útskýrir hún.

 Safnaðarheimilið Bjarnahús

Einnig stendur fyrir þrifum að ráðast í frekari viðhaldsframkvæmdir á Bjarnahúsi sem deilir lóðinni með Húsavíkurkirkju. „Ákveðið var að kaupa glugga frá Danmörku með samþykki Minjastofnunar, enda er húsið friðað. Stefnt er að því að hefja gluggaskiptin um eða upp úr miðjum maí næst komandi,“ segir Helga og bætir við að samhliða jarðvegsskiptum hafi verið ákveðið að grafa meðfram Bjarnahúsi og drena. Einnig að koma á flótta leið úr húsinu sem verði niðurganga og útgöngudyr úr kjallara að norðan. Flótta eða brunastigi hafi nú verið fjárlægður með leyfi þar til gerðra aðila.

Sýni tekin fyrir myglu

„Fyrr í vetur keyptum við af verkfræðistofunni Eflu, skoðun á Bjarnahúsi með tilliti til sýnatöku vegna myglumyndunar, en lengi hefur verið grunur um að mygla væri í kjallara hússins.  Við skoðun, lýstu skoðunarmenn ánægju sinni með ástand hússins, en tóku sýni úr kjallara þess.  Einnig úr vesturvegg sem snýr að gangstétt við Garðarsbraut en undir henni er snjóbræðsla þétt upp að grunninum.  Síðan í suðaustur horni kjallara sem er timburklædd geymsla og hefur verið geymslurými Kvenfélags Húsavíkur. Þarna  greindist myglusveppur og þegar timbrið var rifið og grafið frá voru menn ekki hissa á að þarna væri greið leið.  Rennandi blaut mold lá upp að grunnhleðslunni og fór sem fór.  Nú verður svæðið þurrkað og þvegið, drenað og dúkur sem verndar lagður að og myglan úr sögunni.  Engin mygla reyndist í vesturvegg og gott til þess að vita að ekki þurfi að hrófla við gangstéttarhlið,“ útskýrir Helga og bætir við að nú sé verið að ganga frá lausum endum hvað varði alla umsýslu um byggingaleyfi fyrir nýjan inngang með aðgengi fyrir alla að Bjarnahúsi. „Við erum vongóð um að framkvæmdir við nýbyggingu og endurbætur haldi áfram að vori 2024.“

Óvænt heimsókn

Sóknarnefnd fékk heimsókn í febrúar s.l. en þar voru á ferð frændsystkin foreldra sem ólust upp í  Bjarnahúsi, Þau Bjarni Arthúrsson og Ásdís Rósa Baldursdóttir. „Með þeim í för var Þórdís frænka þeirra frá Akureyri. Erindið var að kynna fyrir okkur gjöf til safnaðarheimilisins Bjarnahúss sem er koparskjöldur með nokkrum orðum um sögu hússins. Verkið er unnið í sátt við Minjastofnun,“ segir Helga en afkomendur stefna á að afhenda skjöldinn góða í júní n.k.  „Honum verður fundinn staður á suðurenda vesturhliðar Bjarnahúss í sátt við gefendur. Koparskjöldurinn verður settur upp þegar framkvæmdum við vesturhlið verður lokið,“ segir Helga og vill koma á framfæri kæru þakklæti til hollvina Húsavíkurkirkju fyrir stuðningin við allt ferlið.

„Við þurfum að blása enn frekar til sóknar þegar líður að hausti. Við í sóknarnefndinni erum með allar klær úti til að afla fjárstuðnings, en verkið allt er rándýrt enda um rúmlega aldagömul friðuð hús að ræða,“ segir Helga og lætur fylgja með að lokum, að ekkert sé gert án vitneskju og þátttöku Minjastofnunar og Húsafriðunarnefndar.  

 

Nýjast