Á vaktinni um jólin
Að vera heima í faðmi fjölskyldunnar um jólin er notaleg tilhugsun sem flest okkar tökum sem sjálfsögðum hlut. Ekki eru allir sem fá að njóta þess að halda jólin heima en sumum vinnustöðum er aldrei lokað. Við fórum á stúfana og spjölluðum við fólk sem stendur vaktina yfir hátíðirnar. Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem var í umsjón nemenda í Háskólanum á Akureyri.
Haraldur Logi Hringsson, lögreglumaður
Hefur þú oft verið á vakt á aðfangadagskvöld?
Já, ég hef verið frekar oft á vaktinni á aðfangadag. Fyrir nokkrum árum hitti það þannig á að mín vakt átti jólin alveg fjögur, fimm ár í röð. Í ár hittir það einmitt þannig á en við erum á vakt á Þorláksmessu, aðfangadag og jóladag. Ég hef verið á vöktum á aðfangadag í Reykjavík og Keflavík líka svo að maður þekkir þetta ágætlega. Konunni og börnunum finnst þetta auðvitað leiðinlegt en þetta venst. Stundum þarf aðeins að hliðra til, fresta matnum aðeins og svona.
Hvernig er að fá ekki frí í vinnunni yfir hátíðirnar?
Það er auðvitað leiðinlegt og sérstaklega þegar maður er með krakka. Jólin 2013 bjuggum við fjölskyldan í Reykjavík og ég vann í Keflavík. Ég átti dagvakt á aðfangadag og jóladag. Þær mæðgur fóru norður fyrir jól því að hér er öll okkar fjölskylda. Ég var kominn heim til Reykjavíkur um sjöleytið en dagvaktin klárast kl. 18:00. Mig minnir að ég hafi endað á því að fá mér skyr í jólamatinn og var svo bara í símasambandi við fjölskylduna allt kvöldið. Það var mjög leiðinlegt.
Af öllum dögum hátíðanna, hvaða dag langar þig helst að vera heima með fjölskyldunni?
Það er alveg pottþétt aðfangadagskvöld. Við höfum reyndar haft þann hátt á að þeir sem eru á næturvakt á aðfangadag, sem er sem sagt frá 18:00-06:00, skiptast á að skreppa heim að borða. Þá förum við bara á lögreglubílunum heim, erum í búningnum og með talstöðina í eyranu. Þeir sem búa nálægt hver öðrum eru þá saman á bíl og hoppa út ef eitthvað gerist. Sem betur fer er þetta kvöld og nóttin yfirleitt róleg. Ef ég næ að borða heima og opna nokkra pakka með krökkunum þá er ég mjög sáttur.
Er reynt að skapa jólalega stemmingu í vinnunni?
Það er skreytt hérna og sett upp jólatré og svo er konfekt, kökur og jólamatur í boði. Um kvöldið og nóttina horfum við svo yfirleitt á einhverjar skemmtilegar myndir eða spilum saman.
Manstu eftir einhverju eftirminnilegu sem gerðist í vinnunni á aðfangadagskvöld?
Ég man eftir einu útkalli sem kom stuttu eftir matinn en þá var tilkynnt um bíla sem höfðu fest sig á Öxnadalsheiðinni. Á leiðinni í útkallið hittum við bónda í Hörgárdalnum sem var úti að djöflast á jeppanum sínum. Hann var á stórum og vel búnum jeppa og slóst í för með okkur og sagðist myndi keyra á undan okkur. Þegar við komum upp á heiðina voru tveir bílar þar pikkfastir og blindbylur. Við þurftum að kalla út björgunarsveitina en þetta fór vel að lokum. Síðan voru það ein jólin að strákurinn minn fékk rosalega mikið af Lego í jólagjöf, þetta var fullt af húsum og dóti sem þurfti að setja saman. Ég hugsaði með mér að ég yrði örugglega vakinn snemma daginn eftir næturvaktina til að koma þessu saman. Síðan fór ég á stöðina og sagði strákunum frá þessu. Þeir sögðu mér bara að koma með Lego-ið og kubba þessu saman um nóttina. Ég fór og sótti Legoið og það endaði með því að öll vaktin var sest við borðið að kubba saman!
Helga Þóra Helgadóttir –