20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
100 bleikar slaufur prýða miðbæ Akureyrar
Dömulegir dekurdagar fara fram á Akureyri um helgina, dagana 5.-8. október en viðburðurinn var fyrst haldinn í október árið 2008 og hefur vaxið og dafnað frá þeim tíma. Í október prýða stórar bleikar slaufur ljósastaura í miðbæ Akureyrar en í tilkynningu segir að undirbúningsnefndin eigi heiðurinn að því að handbinda slaufur um allan bæ en nefndina skipa þær Vilborg Jóhannsdóttir í Centro og Inga Vestmann í Pedromyndum og er markmiðið tvíþætt; að lífga upp á bæinn og að minna konur á að fara í Krabbameinsskoðun. Fyrirtæki og einstaklingar eru hvattir til að taka slaufu í fóstur, setja sig í samband við Dömulega dekurdaga og nefndin mætir á svæðið til að hengja upp. Þess utan er tilgangur Dömulegra dekurdaga að glæða bæinn lífi, fá vinkonuhópa, systur, mæðgur, dætur og vinnufélaga á Akureyri til að koma í bæinn og hópa til að koma norður.
3 milljónir söfnuðust í fyrra
Dömulegir dekurdagar er nú orðinn einn helsti styrktaraðili Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Hátt í 100 aðilar voru með á síðasta ári og var afrakstur af þátttökugjöldum, klútasölu, slaufum í staura og einstökum framlögum í tengslum við Dömulegu dagana um 3 milljónir króna. Framlagið er notað til að greiða leigu fyrir krabbameinssjúklinga sem þurfa að sækja þjónustu í veikindum til Reykjavíkur. Einnig eru seldir klútar sem eru sérmerktir Dömulegum dekurdögum. Nýtt mynstur er gert ár hvert og vaskur hópur kvenna handþrykkir á klútana. Þeir eru gjöf til verkefnisins þannig að upphæðin sem kaupendur greiða rennur öll til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.
Sem fyrr segir hefur viðburðurinn vaxið mikið frá árinu 2008 og sífellt fleiri fyrirtæki taka þátt. Verslanir á Glerártorgi eru opnar fram á kvöld á fimmtudag og ýmsar uppákomur í gangi. Verslanir í miðbænum eru flestar opnar fram eftir kvöldi á föstudag og í ár verða valdir veitingastaðir með gestakokka á vegum Food & fun þessa sömu daga. Lokakvöld Dömulegra Dekurdaga verður fimmtudagskvöldið 2. nóvember á Icelandanir hótelinu á Akureyri. Þar verður tónlist, áhugaverðir fyrirlestrar og reynslusögur kvenna og fulltrúum Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis verður afhentur afrakstur fjáröflunar í bleikum október.