Læstar fréttir

Bjartsýnn á að ferðaþjónusta sæki í sig veðrið í ár

„Það lítur allt þokkalega út og við erum bjartsýn og spennt fyrir nýju ári að því gefnu auðvitað að ekki komi upp enn frekari óvæntar hindranir vegna kórónuveiru,“ segir Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds - Bílaleigu Akureyrar . Bókanir fyrir árið séu góðar og margt sem vinni með Íslandi á þessum tímum. Góður viðsnúningur varð á rekstri bílaleigunnar þegar leið á árið 2021, eftir afleitt ár þar á undan.

Steingrímur segir margt vinna með Íslandi þegar kemur að ferðaþjónustu. Flug til landsins  sé fremur stutt, landið almennt öruggt og   ferðmenn sæki í að upplifa náttúru og  víðerni í stað þess að heimsækja yfirfullar stórborgir. „Það er hægt að merkja við okkur í nánast öll box hvað markaðsrannsóknir varðar, og við erum hóflega bjartsýn á að ferðaþjónusta sæki jafnt og þétt í sig veðrið eftir því sem líður á árið,“ segir hann.

Ánægjulegur viðsnúningur þegar leið á haustið

Liðið ár var sérstakt að sögn Steingríms, en síðsumars fóru hjólin að snúast og voru síðustu mánuðirnir verulega góðir, mun betri en árin tvö þar á undan. „Það kom okkur nokkuð á óvart hvað þessi síðustu mánuðir voru góðir og sérstaklega að meira var að gera en í lok árs 2019, fyrir kórónuveiru. Það var ánægjulegur viðsnúningur sem gerði að verkum að síðastliðið ár kom vel út í heildina,“ segir hann. Félagið var rekið með tapi 2020 og  fyrri hluta 2021. Það vannst til baka og gott betur, þannig að niðurstaðan var að árið í heild kom vel út. „Vissulega var árið oft og tíðum erfitt fyrir okkar frábæra starfsfólk enda þurfti að mörgu að hyggja  en með mikilli vinnu og samheldnikomumst við í gegnum það.“

Lesa meira

„Það eru allir flokkar í vandræðum með að stilla á lista“

Þá er ár sveitarstjórnarkosninga gengið í garð en þann 14. maí nk. gefst fólki kostur á að kjósa sér fulltrúa til að fara með stjórnartaumana í sínum sveitarfélögum næstu fjögur árin.

Vikublaðið spáir í spilin fram að kosningum og hitar upp fyrir þessa lýðræðishátíð sveitarfélaganna fram að kosningum.

Oddur Helgi Halldórsson, fyrrum bæjarfulltrúi og stofnandi L-listans á Akureyri ræddi við Vikublaðið á dögunum en honum þykir áhugi á sveitarstjórnapólitík hafa dvínað mikið með árunum.

Það eru um  24 ár síðan L- listinn var stofnaður og hefur flokkurinn allar götur síðan átt fulltrúa í bæjarstjórn. Árið 2010 var sögulegt en þá fékk L-listinn hreinan meirihluta eða sex fulltrúa í bæjarstjórn á Akureyri.

 Ekki í framboð

Odd­ur Helgi var á kafi í bæjarpólitíkinni í 20 ár áður en hann hætti árið 2014, fyrstu þrjú sem varamaður fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn og eitt sem aðalmaður. Eftir stofnun L-listans 1998 var hann bæj­ar­full­trúi í hans nafni þar til hann hætti 16 árum síðar.

Þrátt fyrir að vera ekki lengur kjörinn fulltrúi í bæjarpólitíkinni hefur Oddur Helgi síður en svo hætt að hafa skoðanir á henni en aðspurður segir hann að hann hugi ekki að framboðið í maí. „Ég var nú í þessu í 20 ár, þannig að ég á ekki von á því,“ segir hann glettinn.

Áhugaleysi í bæjarmálunum

Þegar talið berst að bæjarpólitíkinni eins og hún horfir við honum í dag segir Oddur Helgi að almennt áhugaleysi sé einkennandi fyrir stöðuna í dag. „Það hefur enginn áhuga á bæjarmálunum lengur. Þegar ég var í þessu var það áhuginn sem dreif mann áfram. Núna virðist enginn áhugi vera og þeir sem eru á annað borð í þessu virðast vera að þessu frekar af því að þeir eru neyddir í þetta frekar en hitt. Menn virðast bara ekki vera tilbúnir að gefa vinnuna sína eins og við gerðum. Það vill enginn taka þetta að sér lengur,“ segir hann íbygginn.

Lesa meira

Hljóp 160 sinnum upp á Húsavíkurfjall

Hólmgeir Rúnar Hreinsson er grjótharður Þistilfirðingursem starfar sem trésmiður hjá Trésmiðjunni Rein á Húsavík þar sem hann býr ásamt fjölskyldu sinni. Fyrir liðlega ári síðan strengdi hann óvenjuleg áramótaheit. Hólmgeir hét því að hlaupa 100 ferðir upp á Húsavíkurfjall og til baka á árinu sem nú er nýliðið. Eins og sönnum Þistilfirðingi sæmir er Hólmgeir þverari en færustu forystusauðir sveitarinnar og kom því aldrei annað til greina en að standa við orðin stóru.

Húsavíkurfjall

Svona var umhorfs við útsýnisskífuna á toppi Húsavíkurfjalls þegar Hólmgeir hljóp síðustu ferðina upp á toppinn á árinu 2021.

 Það gerði Hólmger svo sannarlega því þegar blaðamaður settist niður með honum yfir rjúkandi kaffibolla á nýja árinu, þá hafði hann lokið við að hlaupa 160 ferðir upp á Húsavíkurfjall árið 2021 og fór létt með það enda var hann búinn að standa við orð sín í byrjun ágúst en þá voru komnar 100 ferðir.

 Kann ekki við malbikið

Hólmgeir sem er 42 ára stundar utanvegahlaup af miklu kappi og hefur gert það síðan 2012 þegar hlaupabakterían smitaðist yfir á hann. „Þá var ég orðinn vel þungur. Ég byrjaði fyrst á því að hjóla duglega en svo tóku hlaupin við þegar fór að snjóa meira. Hlaupin hafa alla tíð síðan verið viðloðandi mig þó ég hafi tekið pásur inn á milli. Og alltaf verið mest í utanvegahlaupum. Ég hef engan áhuga á að vera hlaupa eftir malbiki,“ segir Hólmgeir ákveðið og bætir við að ástæðan fyrir því að hann hafi byrjað að hlaupa hafi einfaldlega verið til að komast í betra form en hann var í.

„Það stefndi óðfluga í þriggja stafa tölu á vigtinni og kominn tími til að gera eitthvað í því. Annars hef ég aldrei pælt mikið í fæðinu, það er kannski helst það sem maður er að klikka á.“

Aðspurður hvað hafi drifið hann áfram í að strengja þessi óvenjulega áramótaheit svaraði Hólmgeir því til að hann hafi einfaldlega viljað ögra sér aðeins og gera eitthvað skemmtilegt í leiðinni en hann er mikil útivistarmanneskja. 

Lesa meira

Þurfum að halda áfram að vera stórhuga

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri fer yfir árið sem var að líða og þó að áskoranir hafi verið margar þá telur hún að margt jákvætt hafi gerst á nýliðu ári. Hún horfir björtum augum á komandi ár og finnst gott að sjá þann kraft sem býr í samfélaginu á Akureyri.


 Ég vil alltaf horfa á björtu hliðarnar en óneitanlega reyndist árið 2021 okkur ansi þungt í skauti. Mig langar til að segja að það hafi verið seinna Covid-árið með von um að þau verði ekki fleiri og þessu linni brátt en það verður tíminn bara að leiða í ljós. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst okkur hjá Akureyrarbæ að halda vel sjó og það er fyrst og fremst frábæru starfsfólki að þakka.

Margt jákvætt hefur gerst á liðnu ári. Nýr og glæsilegur leikskóli, Klappir, var tekinn í notkun, nýtt aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva var vígt, fyrri hluta endurbóta á Lundarskóla var lokið og svo mætti áfram telja. Vegna heimsfaraldurs, styttingar vinnuvikunnar, kjarasamningshækkana og fleiri þátta, hefur sigið heldur á ógæfuhliðina í rekstri sveitarfélagsins en allar áætlanir gera hins vegar ráð fyrir að við réttum fljótt og örugglega aftur úr kútnum.

Ungt afreksfólk stendur sig með prýði

Svona heilt yfir þá finnst mér að árið 2021 hafi þrátt fyrir allt verið nokkuð gott. Það er gaman að sjá þann mikla kraft sem býr í samfélaginu okkar og sérstaklega finnst mér gaman að sjá ungt afreksfólk standa sig með stakri prýði, hvort heldur sem er í íþróttum eða menningu. Of langt mál yrði að telja alla upp sem eiga það þó skilið en að öðrum ólöstuðum langar mig að nefna tónlistarmanninn Birki Blæ, Aldísi Köru Bergsdóttur í listhlaupi á skautum, fimleikakappana Gísla Má og Jóhann Gunnar, og allar KA/Þór-stelpurnar í handbolta. Það er gott að alast upp á Akureyri, tækifærin til menntunar og félagsstarfs eru svo fjölbreytt.

Og fyrst minnst er á unga fólkið þá vil ég segja að í einkalífinu ber einna hæst þá einlægu gleði sem fylgir því að sjá börnin mín vaxa úr grasi og að hafa eignast nöfnu, hana Ásthildi Báru sem systir mín og sambýlismaður hennar eignuðust á árinu.

Lesa meira

Velti mér ekki upp úr hlutunum og lifi í núinu

Dagbjört Ósk stundar nám á listnáms og hönnunarbraut VMA

-Er með afar sjaldgæfan sjúkdóm sem veldur sjónleysi


 „Ég get gert margt af því sem mínir jafnaldrar gera, og reyni að lifa í núinu, hugsa sem minnst um hvað getur orðið. Ég horfi bara á þá stöðu sem ég er í núna og hef það að markmið að njóta lífsins eins og aðrir,“ segir Dagbjört Ósk Jónsdóttir nemi á listnáms- og hönnunarbraut Verkmenntaskólans á Akureyri, en hún hóf nám þar á liðnu haust og var að klára fyrstu önnina. Dagbjört er lögblind.  Hún hefur enga sjón á hægra auga en sér enn örlítið með því vinstra, nægilega mikið til að geta að mestu bjargað sér sjálf.

Dagbjört er með sjúkdóm sem kallast Chronic Relapsing Inflammatory Optic Neuropathy, CRION og er eini Íslendingurinn sem er með þann sjúkdóm, en hann er mjög sjaldgæfur og einungis um 120 manns í öllum heiminum sem eru með hann. Um er að ræða sjóntaugakvilla, sjálfsofnæmi sem lýsir sér í því að hvítu blóðkornin ráðast á sjóntaugina. Ekki er þó að hennar sögn vitað af hverju það gerist. Þrátt fyrir sjónleysið tekst Dagbjört á við krefjandi nám sitt á listnámsbrautinni af miklum áhuga og elju.

Missti sjón á hægra auga aðeins 11 ára

Dagbjört var rétt að verða 11 ára þegar sjúkdómurinn uppgötvaðist í september árið 2016. Hún fór að taka eftir að sjón á hægra auga varð skrýtin, hún varð æ lakari með nánast hverjum degi sem leið en hún fann ekki neitt til. 

Lesa meira

Það geta allir skráð sig í björgunarsveit

Jón Ragnar

Flugeldasala björgunarsveita hefur verið gríðarlega mikilvæg fjáröflun fyrir þeirra starf. Leonard Birgisson byrjaði að starfa í björgunarsveit 1980 og hefur hann gegnt fjölmörgum störfum á þeim vettvangi. Hann hefur verið formaður, gjaldkeri og séð um nýliðastarf auk þess að sinna almennum verkefnum sem félagi í björgunarsveit. Þá hefur hann einnig setið í stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar, verið gjaldkeri félagsins og formaður flugeldanefndar. 

Hvernig eru störf björgunarsveitarinnar um hátíðirnar? Er meira álag?

„Það er öllu jöfnu ekkert aukið álag á björgunarsveitir um hátíðirnar nema í þeim tilfellum sem veðurfar setur samgöngur og mannlíf úr skorðum. Verkefni sem björgunarsveitir fengu í hendur í byrjun desember 2019 og voru viðvarandi langt fram á árið 2020 eru enn í fersku minni. Einnig er 30. desember 2018 eftirminnilegur því þá fengum við krefjandi fjallabjörgunarverkefni í Dalsmynni þar sem þekking og samvinna skipti sköpum við að bjarga einstaklingum sem slösuðust í fjallgöngu.“

Mikilvæg fjáröflun

Hversu mikilvæg er flugeldasalan ykkur í björgunarsveitinni?

„Flugeldasala á sér áratuga hefð á Íslandi og er björgunarsveitum mjög mikilvæg og í mörgum tilfellum stendur hún undir 50-70% af tekjum björgunarsveita.“

Lesa meira

Um 70 tonn af olíu og fitu safnast á hverju ári

Um 70 tonn af olíu og fitu safnast árlega á Eyjafjarðarsvæðinu í gegnum fitusöfnunarkerfi sem Akureyrarbær, Norðurorka, Orkey og Terra hafa byggt upp. Græn trekt hefur verið í boði á Akureyri frá því síðla árs 2015 og fjölgar sífellt heimilinum í bænum og á svæðinu öllu sem safna þeirri úrgangsolíu sem til fellur og skila í réttan farveg í gengum kerfið. Desember er sá mánuður þegar mest fellur til af úrgangsolíu.

Endurvinnsla

Undanfarin ár hafa heimilin á svæðinu safnað og skilað inn um 6 tonnum af úrgangolíu og fitu á ári. Veitingahús og mötuneyti skila um tífalt meira magni eða um 60 tonnum árlega, þannig safnast nær 70 tonn af olíu og fitu árlega. Guðmundur Sigurðsson framkvæmdastjóri Vistorku segir að árangur þessa verkefnis góðan og ávinningurinn mikill. „Það má líta svo á að hver og einn sem safnar olíu og fitu á sínu heimili og skilar í réttan farveg sé eigin olíuframleiðandi,“ segir hann en einn lítri af olíu sem skilað er inn verður með íblöndun metanols að einum lítra að lífdísil.

Magnið mest í desember

Nú í desember fellur óvenjumikið af þessu hráefni til þegar landsmenn steikja ókjörin öll af laufabrauði, soðnu brauði og kleinum til viðbótar við allt hangikjötið og steikurnar sem boðið er upp á. „Það fellur til mun meira af steikarolíu, tólg og fitu  á heimilum landsins en í öðrum mánuðum ársins og ekki úr vegi að minna fólk á mikilvægi þess að safna þessu saman og skila inn fremur en skola niður í vaskinn,“ segir Guðmundur.

Lesa meira

„Munum eftir því að konur þurftu að berjast með kjafti og klóm til að mega ganga í buxum“

Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir er ein af 10 Framúrskarandi ungum Íslendingum


Hóp­ur að nafni Öfgar hefur verið áberandi á sam­fé­lags­miðlum upp á síðkastið en hópurinn hefur haft hátt í umræðu kyn­bundið áreiti og of­beldi

Tanja M. Ísfjörð Magnús­dótt­ir, sem er í stjórn hóps­ins en hún er fædd og uppalin á Húsavík. Hún flutti til Noregs árið 2015 og býr þar í dag ásamt unnusta sínum og tveimur börnum 5, og 3 ára. Hún byrjaði fyrir sex árum síðan að tjá sig opinskátt um kynbundið ofbeldi á samfélagsmiðlum sem er veruleiki allt of margra kvenna.

Tanja segir að Öfgar sé fjölbreyttur hópur af femíniskum aðgerðarsinnum sem stofnaður var í sumar, en hópurinn hefur tekið miklum breytingum síðan hann var stofnaður.

 Dýrmæt viðurkenning

Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar eru veitt árlega af JCI á Íslandi en þetta er í 20. skipti sem verðlaunin eru veitt.

Þetta árið bárust hátt í þrjú hundrað tilnefningar frá almenningi en auglýst er eftir til­nefn­ing­um á hverju ári og get­ur hver sem er til­nefnt framúrsk­ar­andi ung­an Íslend­ing. Sér­stök dóm­nefnd fer svo yfir til­nefn­ing­ar og vel­ur úr 10 framúrskarandi einstaklinga sem fá viðurkenningu og þar af einn verðlauna­hafa. Tanja ein af þessum 10 framúrskarandi ungu Íslendingum.

„Þetta er svo dýrmætt af því að þetta er búið að vera svo ótrúlega erfitt. Ég er búin að fá yfir mig svo mikið mótlæti. Vinir og fjölskylda ekki alltaf verið með mér í liði. Þannig að þegar viðurkenningin kemur þá get ég sagt við sjálfa mig: Ég er greinilega að gera eitthvað rétt,“ útskýrir Tanja og bætir við að mótlætið sé alls konar, fullt af fólki sem ekki sé sammála aðferðafræði hennar og hefur jafnvel slitið sambandi við hana.

„Þetta er spennandi,“ segir hún í hæðni og bætir við að baráttunni hafi fylgt mikill fórnarkostnaður. „Þetta tekur frá andlegu heilsunni og þetta er auðvitað líka erfitt fyrir fjölskyldu mína, manninn og börnin að ég sé alltaf á vakt í baráttunni.“

Öfgar verða til

Tanja segir að grunnurinn að aðgerðarhópnum Öfgar hafi verið lagður á samskiptamiðlinum Tik Tok sem er mjög vinsæll um þessar mundir.

„Það var eftirspurn eftir feminískum aðgöngum á samfélagsmiðlum. Þá sérstaklega á Tik Tok. Þar finnur maður mikið af ungu fólki með hatursorðræðu í garð minnihlutahópa. Það er fitusmánun, transfóbía, kvennhatur, þetta er rosalega ljót orðræða oft á tíðum. Þannig að það vaknaði þessi þörf eftir  feminíska aktívisma á samfélagsmiðlum og þá byrjuðum við að hópa okkur saman. Við þekktumst eiginlega ekkert áður en höfðum séð hverjar aðra í bardaganum. Svo smullum við svona fínt saman og þannig byrjaði þetta,“  segir Tanja um stofnun Öfga.

Aðspurð hvað valdi þessari hatursorðræðu ungmenna á samskiptamiðlum segir Tanja að hana megi rekja til þess að börnin læri það sem fyrir þeim er haft.

„Þau heyra þetta heiman frá, hvernig fullorðna fólkið talar um hvort annað og fara með það á netið. Hvort sem það er létt óviðeigandi grín eða alvarlegar samræður við matarborðið um að þessi sé svona eða hinsegin. Börnin eru eins og svampar og tileinka sér þetta. Þau hafa heldur ekki þroskað með sér þessa gagnrýnu hugsun sem þarf til að skora viðhorf og orðræðu foreldra sinna á hólm. Þau eru heldur ekki með jafn góðan radar á kaldhæðni en við þurfum líka að passa okkur á hvað við segjum í kaldhæðni,“ segir Tanja.

 Umdeilt nafn

Nafnið á aðgerðarhópnum hefur verið umdeilt enda margir sem vilja sjá hófstilltari umræðu. Tanja segir að nafnið Öfgar sé ádeila. „Þegar við vorum að leita að nafni á hópinn þá var ein okkar sem stakk upp á þessu. Okkur fannst flestum þetta vera of mikið en svo spurðum við okkur; af hverju er þetta of mikið? Það er alltaf verið að segja við okkur að við séum bara helvítis öfgafemínistar, femí-nasistar og einhver svona ógeðsleg orð. Við hugsuðum bara; Druslugangan gerði þetta, tóku orðið drusla og gerði að sínu. Af hverju gerum við ekki það sama með orðið Öfgar. Ef þú hugsar út í merkingu orðsins öfgar. Það er þegar er of mikið af einhverju en jafnrétti er ekki jafnrétti ef það hallar í aðra áttina. Þannig að þú getur aldrei fengið of mikið jafnrétti. Það er því ekki til öfgafemínismi eða öfgajafnrétti. Þaðan kom nafnið.“

 Fleiri sem hlusta

Tanja segist ekki í vafa um að baráttan fyrir réttlæti hafi skilað sér frá því hún fór að láta í sér heyra um jafnrétti kynjanna. 

Lesa meira

„Þetta er þannig starf að þú ert að gefa af þér“

Framhaldsskólinn á Húsavík (FSH) býður upp á fjölbreytt nám og leitar sífellt nýrra leiða til að laða til sín nemendur. Það er vissulega áskorun að halda úti öflugum framhaldsskóla í litlu samfélagi en þeim áskorunum mætir FSH með því að hugsa út fyrir boxið og hanna námsbrautir með sérstöðu.

Ein þeirra námsleiða er heilsunuddbraut sem farið var af stað með haustið 2019. Halldór Jón Gíslason, aðstoðarskólastjóri heldur utan um brautina í FSH en Helga Björg Sigurðardóttir, heilsunuddari stýrir kennslunni. Þau eru í góðu samstarfi við Fjölbrautaskólann í Ármúla sem hefur kennt brautina um árabil. „Við höfum alltaf getað leitað þangað í þá þekkingu og reynslu sem þar býr,“ segir Halldór Jón en FSH og FÁ eru einu skólarnir á landinu sem bjóða upp á þetta nám. Vikublaðið ræddi við Helgu Björg.

 14 ár í nuddinu

Helga Björg segir að það hafi blundað í sér um nokkurt skeið að læra nudd þegar hún loksins lét verða af því. „Það sem ýtti mér kannski á stað í þetta er bara ákveðin  sjálfsskoðun. Ég var að vinna mikið í sjálfri mér á þessum tíma en þarna var ég orðin læknaritari. Nuddnámið  var kennt í Ármúla þar sem læknaritarinn var kenndur og ég var búin að sjá fög sem voru svolítið lík. Ég útskrifaðist sem læknaritari 2005 og strax í kjölfarið skrái ég mig í heilsunudd. Tek þetta bara í beinu framhaldi. Þá var farið að bjóða upp á þetta nám á Akureyri en ég er í fyrsta árganginum sem lærir þetta á þar. Ég útskrifast vorið 2009 en það er nokkuð síðan þetta nám hætti á Akureyri.

Helga Björg hefur starfað við nudd í og með síðan. „Ég var náttúrlega að vinna sem læknaritari á Heilsugæslunni á Húsavík og nuddaði með. Svo hætti ég á spítalanum og fór að vinna á Deplum þar sem ég var eingöngu að nudda,“ segir Helga Björg en Deplar er lúxushótel í Fljótum.  

„Ég var byrjuð að nudda um áramót 2007 þannig að þetta eru að verða 14 ár. Það er nú bara nokkuð góður lífaldur nuddara,“ segir hún og bætir við að fólk sé oft ekki lengi starfandi í greininni. „Nuddarar eru oft fljótir að brenna upp.“

Nuddarabraut

Hópurinn sem var að klára fyrsta áfangann í verklega náminu, klassískt nudd. Mynd/ aðsend.

 

Sjálf segir Helga Björg að hún hafi yfirleitt unnið við nuddið í hlutastarfi með öðru og þess vegna endist hún lengi í faginu.

Aðspurð hvers vegna starfsaldur nuddara sé oft skammur segir hún að fólk slitni oft í höndum eins og í fleiri iðngreinum. „Mér skilst samt að það sé meira genatískt heldur en nuddið. En margir fá einhverja svona álagskvilla og veldur því að fólk hættir að nudda.

Lesa meira

Tekið á móti vel yfir eitt þúsund köttum um tíðina

Vel yfir 1000 kettir hafa haft viðkomu í Kisukoti frá því starfsemi þess hófst fyrir nær 10 árum, en Kisukot var fyrst opnað 29. janúar 2012. Ragnheiður Gunnarsdóttir stýrir starfseminni og hefur verið dyggur kattavinur í höfuðstað Norðurlands í mörg herrans ár. Um fátt hefur meira verið rætt undanfarið en endurskoðun á samþykkt um kattahald á Akureyri eftir að bæjarstjórn samþykkti að banna lausagöngu katta í bænum eftir rúm 3 ár, 1. janúar 2025. Ragnheiður hefði viljað sjá að mildari leið hefði verið valið til að sætta ólík sjónarmið bæjarbúa til útivistar katta. Ragnheiður rifjar upp að árið 2011 hefði ný samþykkt um kattahald í bænum tekið gildi. Samkvæmt henni átti að skrá alla ketti, greiða fyrir það gjald sem og árgjald. Áður hafði fólk ekki þurft að gera grein fyrir hvort það héldi ketti né hversu marga. Í samþykktinni frá 2011 var ákvæði um að einungis mætti halda þrjá ketti á hverju heimili að hámarki. Þessar nýju reglur gerðu að verkum að einhverjir kettir fengu ný heimili og þá nefnir Ragnheiður einnig að á þessum tíma hafi talsvert verið um villiketti í bænum. Bæði við bryggjunar og eins hefði stór hópur katta komið sér fyrir í hesthúsahverfinu í Breiðholti. Akureyrarbær hafðii forgöngu um að farga þeim sem þar voru en bryggjukettirnir voru áfram á sínum stað.
Lesa meira