13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Velti mér ekki upp úr hlutunum og lifi í núinu
Dagbjört Ósk stundar nám á listnáms og hönnunarbraut VMA
-Er með afar sjaldgæfan sjúkdóm sem veldur sjónleysi
„Ég get gert margt af því sem mínir jafnaldrar gera, og reyni að lifa í núinu, hugsa sem minnst um hvað getur orðið. Ég horfi bara á þá stöðu sem ég er í núna og hef það að markmið að njóta lífsins eins og aðrir,“ segir Dagbjört Ósk Jónsdóttir nemi á listnáms- og hönnunarbraut Verkmenntaskólans á Akureyri, en hún hóf nám þar á liðnu haust og var að klára fyrstu önnina. Dagbjört er lögblind. Hún hefur enga sjón á hægra auga en sér enn örlítið með því vinstra, nægilega mikið til að geta að mestu bjargað sér sjálf.
Dagbjört er með sjúkdóm sem kallast Chronic Relapsing Inflammatory Optic Neuropathy, CRION og er eini Íslendingurinn sem er með þann sjúkdóm, en hann er mjög sjaldgæfur og einungis um 120 manns í öllum heiminum sem eru með hann. Um er að ræða sjóntaugakvilla, sjálfsofnæmi sem lýsir sér í því að hvítu blóðkornin ráðast á sjóntaugina. Ekki er þó að hennar sögn vitað af hverju það gerist. Þrátt fyrir sjónleysið tekst Dagbjört á við krefjandi nám sitt á listnámsbrautinni af miklum áhuga og elju.
Missti sjón á hægra auga aðeins 11 ára
Dagbjört var rétt að verða 11 ára þegar sjúkdómurinn uppgötvaðist í september árið 2016. Hún fór að taka eftir að sjón á hægra auga varð skrýtin, hún varð æ lakari með nánast hverjum degi sem leið en hún fann ekki neitt til.