Læstar fréttir

„Ég fann allan léttinn og það byrjaði að streyma úr augunum á mér“

Einar Óli Ólafsson er tónlistarmaður frá Húsavík sem kallar sig iLo. Í nóvember á síðasta ári gaf hann út plötuna Mind Like a Maze sem aðgengileg er á öllum helstu streymisveitum. Þetta er fyrsta plata Einars Óla en hæfileikarnir eru næstum yfirþyrmandi og nokkuð ljóst að hann á eftir að gera sig gildandi í tónlistarsenunni á næstu árum. Hæfileikaríkt fólk dregur líka að sér annað hæfileikaríkt fólk en að plötunni koma þungavigtar manneskjur í tónlistarbransanum, s.s. Pálmi Gunnarsson, Kristján Edelstein og Andrea Gylfadóttir.

Einar Óli semur sjálfur öll lög og texta, en hann hefur verið að semja tónlist í sjö ár og er hvergi nærri hættur að gefa úr  plötur, enda á hann nú þegar mikið af efni á lager.  Tónlistin er silkimjúk og draumkennd og snertir í hlustandanum tilfinningar djúpt í iðrum hjartans. Og nú loks þegar pestin skæða krefst ekki lengur þeirra takmarkana sem við höfum þurft að aðlaga okkur síðast liðin tvö ár; þá er líka kominn tími til að hlaða í útgáfutónleika. Það gerir Einar Óli, eða iLo í kvöld á Græna Hattinum klukkan 21. og aftur í Samkomuhúsinu á Húsavík á morgun föstudag klukkan 20. Það er óhætt að mæla með þessu tónleikum og fullyrða að engin verði svikinn en platan verður flutt í heild sinni.

Ég settist niður með Einari Óla á dögunum og ræddi við hann um tónlistina og upptökuferlið en hann segist vera mjög spenntur fyrir því að fá að spila plötuna loksins fyrir áhorfendur og lofar einstakri stemningu.

 

Tekin upp á einum degi

Platan var tekin upp á einum degi þann 30. apríl á síðasta ári á litlum sveitabæ í Eyjafjarðarsveit sem heitir Brúnir. „Já á það stemmir, við tókum þetta upp á einu bretti bara, live. Þetta var líka tekið upp á myndband og það verður hægt að horfa á þetta allt,“ segir Einar Óli en upptökuna verður aðgegnileg á vef sjónvarpsstöðvarinnar N4 innan skamms.

Þó að upptökur hafi aðeins staðið yfir þennan eina dag, þá kalla slíkar upptökur á gríðarlega mikinn undirbúning enda þarf allt að vera fínslípað og því sem næst fullkomið þegar tökur hefjast. „Jú þetta var alveg meira en að segja það og mikill undirbúningur á bak við upptökurnar. Ég byrjaði í raun að undirbúa mig fyrir tökurnar í september 2020 og við æfðum í marga mánuði enda gátum við ekkert tekið upp fyrr en við værum tilbúnir.  Þetta er allt bara ein taka,“ útskýrir Einar Óli og bætir við að hann hafi verði afar heppinn með fólkið í kringum sig, enda hafi þetta ekki verið hægt nema með einvalaliði tónlistarfólks sem að plötunni koma.

Fagfólk í hverri stöðu

„Þegar ég fór í nám á Akureyri fyrir þremur árum síðan þá kynnist ég fullt af fólki sem hefur reynst mér gríðarlega vel í tónlistinni. Ég kynntist til dæmis Kristjáni Edelstein gítarleikara sem er líka pródúser. Hann var strax mjög spenntur fyrir því að taka upp tónlist með mér, enda byrjaði boltinn að rúlla fyrir mig eftir að ég kynntist Kristjáni. Svo kynntist ég Andreu Gylfa líka og er bara gríðarlega heppinn með fólkið í kringum mig,“ segir Einar Óli en Kristján spilar á gítar á plötunni og Andrea leikur á selló.

„Þau ásamt Pálma Gunnars eru með mér á plötunni, við erum 14 manns sem spilum á henni, ekki allir á sama tíma reyndar en þetta er fjöldinn sem kemur að plötunni. Og allt er þetta framúrskarandi listafólk,“ segir Einar Óli og bætir við að vinur hans, Sigfús Jónsson hafi annast upptökur og hljóðblöndun. „Hann hefur verið að taka upp undir nafninu Hljómbræður, ásamt bróður sínum Guðjóni. Sigfús tók upp plötuna og mixaði.“

 „Þægileg tónlist“

Þegar ég spyr Einar Óla út í hvernig hann skilgreini tónlist sína, hvort hægt sé að setja hana í einhvern ákveðinn flokk tónlistarstefna; þá verður hann hugsi enda kannski ekki auðvelt að setja merkimiða á hugarfóstur sitt. „Mér finnst það eiginlega mjög erfitt, ég hef oft sagt að þetta sé bara svona indie, en yfirleitt þegar ég er spurður þá segi ég bara að þetta sé svona þægileg tónlist,“ útskýrir hann og lætur þar við sitja. Enda getur hlustandinn séð um það að meta hvar á landakorti stefna og strauma tónlist hans á heima.  

Sjálfur segist Einar Óli hafa ákaflega blandaðan tónlistarsmekk og topplistinn uppfærist stöðugt. „Ég er rosalega blandaður og skipti um uppáhaldstónlistarmenn eins og nærbuxur en núna í augnablikinu er það tónlistarmaður sem heitir Matt Corby sem ég uppgötvaði alveg óvart en svo líka James Bay og John Mayer svo einhverjir séu nefndir.“

 

 Þakklátur fyrir viðbrögðin

Einar var áður búinn að gefa út nokkur stök lög á streymisveitum undan farin tvö ár en þegar Mind Like a Maze kom út í lok nóvember fór hann að taka eftir aukinni hlustun. Hann er líka að skoða möguleika á því að gefa plötuna út á vinyl.  „Ég er að láta mig dreyma um að koma þessu úr á vínyl líka en þá bara í takmörkuðu upplagi, aðallega af því mig langar svo mikið til að eiga þetta sjálfur á plötu,“ segir hann og hlær.

Lesa meira

Síðustu ár reyndu á þolgæði og útsjónar- semi en bjartari tíð vonandi framundan


mth@vikubladid.is

 „Undanfarin tvö ár hafa verið ferðaþjónustunni gríðarlega erfið og það hefur mikið reynt á þolgæði og útsjónarsemi rekstraraðila. Óvissan verið algjör og um tíma þurrkuðust markaði úr. En það má segja að Norðurland hafi komið einna best út úr þessum heimsfaraldri hefur gert okkur lífið leitt þessi ár. Það er mikil uppbygging fram undan og óvissa enn fyrir hendi, margar brekkur sem eftir er að klífa, en mér finnst staðan vera nokkuð góð t.d. varðandi sumarið og eins mun margt breytast til betri vegar gangi áform nýs flugfélags, Niceair á Akureyri eftir,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Hún fagnar því að öllum takmörkunum sem fylgdu heimsfaraldi kórónuveirunnar hefur nú verið aflétt.

Arnheiður segir að ferðaþjónustan á Norðurlandi hafi komið betur út en í öðrum landshlutum, tekist hafi að aðlaga reksturinn breyttum forsendum og ná inn sterkum innanlandsmarkaði, „sem segja má að hafi haldið fyrirtækjunum gangandi í gegnum þessi ár,“ segir hún. Þar af leiðandi eru flest fyrirtæki á norðanverðu landinu enn til staðar þó sum séu í breyttu formi frá því sem áður var. „Innlendi markaðurinn hefur verið mjög sterkur fyrir norðan undanfarin ár, Akureyri, Húsavík, Siglufjörður og Mývatnssveit hafa mikið aðdráttarafl og margir voru á ferli á þessum slóðum og héldu greininni gangandi.“

Arnheiður segir þó að mörg fyrirtæki hafi lent í kröppum dansi yfir kórónuveirutímann og skorið allt niður hjá sér. „Við höfum því miður misst gott fólk út úr greininni og mikla þekkingu.“

Þarf mikinn stuðning

Ljóst er að sögn Arnheiðar að greinin þarf á miklum stuðningi að halda varðandi þá uppbyggingu sem fram undan er í ferðaþjónustu en stærsti vandinn sem við blasir er lítil eiginfjárstaða, mikil söfnun skammtímaskulda og ósjálfbær skuldsetning margra félaga. Mikil skuldasöfnun hafi átt sér stað á tímabili heimsfaraldursins og morgunljóst að mörg félög ráði ekki við þá stöðu. Hún sé þó misjöfn eftir því í hvaða greinum fyrirtækin starfi, bílaleigur komi einna best út, hópferðafyrirtæki og þeir veitingastaðir sem höfðu erlenda ferðamenn sem helsta markhóp koma verst út. „Þetta hefur verið upp og ofan á milli fyrirtækja og greina í ferðaþjónustunni, við höfum til að mynda heyrt af því að veitingastaðir sem gera út á innlenda ferðamenn hafi átt sín bestu ár á meðan heimsfaraldurinn stóð yfir. Það skiptast á skin og skúrir,“ segir hún.

Markaðsstofa Norðurlandi hélt í vikunni fundi ásamt KPMG um framtíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi þar sem farið var yfir stöðuna og tækifæri framtíðar. KPMG hefur gert greiningu á fjárhagslegri getu ferðaþjónustunnar til að mæta líklegri fjölgun erlendra ferðamanna til landsins á næstu misserum og einnig er í skýrslunni að finna greiningu á getu greinarinnar til að ráða fram úr þeim fjárhagsvanda sem heimsfaraldurinn leiddi af sér. Eins er fjallað um hvaða úrræði gætu helst gagnast til að vinna sig út úr þeirri stöðu sem greinin er í.

Lesa meira

Leið til betri heilsu og lífsgæða

Anita Ragnhild Aanesen fagstjóri og verkefnastjóri fyrir heilsueflandi móttökur á HSN á Akureyri


mth@vikubladid.is

Um 500 manns á Akureyri og nágrannasveitarfélögum nýta sér þjónustu heilsueflandi móttöku Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, HSN vegna sykursýki 2. Fólk með sykursýki 2 getur lifað eðlilegu lífi með heilbrigðu líferni ef hugað er vel að því að halda  blóðsykri í jafnvægi og með hollu mataræði og hreyfingu.  HSN opnaði í apríl í fyrra heilsueflandi móttöku á Akureyri fyrir þá sem glíma við sykursýki 2 og offitu sem gjarnan fylgjast að.

Anita Ragnhild Aanesen fagstjóri og verkefnastjóri fyrir heilsueflandi móttökur hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands segir að HSN reki í allt 17 heilsugæslur og heilsugæslusel, þar af eru 6 svokallaðar meginstarfsstöðvar á þéttbýlisstöðum á Norðurlandi.  „Heilsueflandi móttökur voru komnar upp á öðrum megnstarfstöðum HSN  þannig að móttakan á Akureyri var síðust í röðinni. Við opnuðum í fyrra vor og þá fengum við í hendur lista með yfir 500 manns sem tekst á við sykursýki 2. Hluti af þessu fólki er í eftirliti og meðferð á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en á okkar lista voru um það bil 325 manns. Á tæpu ári höfum við náð að bjóða þeim öllum upp á viðtal,“ segir Anita. Hún segir að náin samvinna sé á milli stofnananna tveggja í þessum málaflokki og haldnir eru reglulegir fundir til að efla samstarfið.

Anita segir að rík áhersla sé lögð á að ná til þess fólks sem er í áhættuhópi og að bæta þjónustu við það, sem kostur er. „Þessi móttaka er liður í því að gera þetta aðgengilegt fyrir fólk sem er í hættu og það er ánægjulegt að viðtökur eru almennt góðar. Fólk þiggur að koma til okkar og taka á sínum málum í kjölfarið.“

Hún segir að í raun sé ævintýri líkast að tekist hafi að koma heilsueflandi móttöku í gang á Akureyri og taka á móti svo mörgum skjólstæðingum, í miðjum heimsfaraldri, þegar meira var verið að draga úr en auka við.  „Við erum afskaplega stolt og ánægð með að þetta hefur gengið svona vel.“

Nýgengi sykursýki 2 jókst um 250% frá 2005 til 2018

Tveir starfsmenn starfa við heilsueflandi móttökur og skipta 110% starfi. Að starfseminni koma líka sjúkraþjálfari, næringarráðgjafi, iðjuþjálfi, sálfræðingar og læknar.  Anita segir að þörf sé á að efla starfsemina, umfangið sé það mikið og til mikils að vinna að fá fólkið til sín. „Það er greinilega mikil þörf fyrir þessa þjónustu og í náinni framtíð sé ég fyrir mér að við þurfum að auka við.“

Nefnir Anita að á árabilinu frá 2005 til 2018 hafi orðið 250% aukning í nýgengni sykursýkis 2 tilfella hér á landi. „Umfangið er alveg gríðarlegt og við verðum að gera það sem hægt er til að stemma stigu við frekari aukningu,“ segir hún, en samkvæmt rannsóknum eru um 27% landsmanna, tæpur þriðjungur, greindur með offitu. Hún segir offitu eina þá stærstu áskorun sem nútíma heilbrigðiskerfi stendur frammi fyrir.

Á landsvísu er vinnuhópur á vegum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu starfandi, til undirbúnings innleiðingar á heilsueflandi móttökum í heilsugæslunni, en markhóparnir fyrir þá þjónustu eru aldraðir og fólk með fjölþættan og/eða langvinnan heilsuvanda.

Lesa meira

Húsavík heimabær söngvakeppnanna

Hóteleigandinn og athafnamaðurinn Örlygur Hnefill Örlygsson er sannkölluð hugmyndamaskína. Hann var mikið í sviðsljósinu í kringum kvikmyndaævintýri Húsavíkinga, þegar Netflix stórmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga var tekin upp í bænum. Örlygur sá strax tækifæri í athyglinni sem heimabærinn fékk frá kvikmyndaverkefninu og fylgdi því eftir til hins ítrasta. Hann setti Húsavík á heimskortið þegar titillag myndarinnar; Húsavík, My Hometown var tilnefnt til Óskarsverðlauna. Hann að sjálfsögðu hrinti í framkvæmd herferð til að kynna lagið; sem vakti heimsathygli og varð að lokum til þess að söngatriðið fyrir Óskarsverðlaunahátíðina var tekið upp á Húsavík.

Þá hefur Örlygur staðið fyrir opnun á Eurovision safni og JA JA DingDong bar. En þar er fyrirhugað tónleikahald þegar aðstæður leyfa vegna Covid.

Nýtt söngævintýri

Nú hefur Örlygur séð til þess að úrslitakvöld Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldið á Húsavík í ár. Örlygur var kampakátur þegar blaðamaður leit við hjá honum í vikunni. „Keppnin var fyrst haldin árið 1990 og í þessari keppni hafa stigið sín fyrstu skref margt af okkar þekktasta tónlistarfólki í dag. Enda er þetta vettvangur sem er mjög vel til þess fallin,“ segir Örlygur og bætir við að hann sé nú ekki alls ókunnugur því að halda úrslitakvöld keppninnar, enda stóð hann fyrir því á sínum tíma að keppnin var haldin á Akureyri í fyrsta sinn.

 

 

Lesa meira

Hefur jákvæð áhrif á andann í hverfinu

„Það er mikil og almenn ánægja með reiðgerðið og má segja að andinn í hverfinu hafi lyfst í hæstu hæðir,“ segir Svanur Stefánsson sem sæti á í stjórn Hestamannafélagsins Léttis á Akureyri. Félagið kostaði framkvæmd við yfirbyggt reiðgerði í hesthúsahverfinu Breiðholti, það er ríflega 200 fermetrar að stærð, kostaði um 7 milljónir króna og stendur öllum félagsmönnum til boðað að nýta það endurgjaldslaust.

Svanur segir að reiðgerðið hafi aldeilis slegið í gegn meðal þeirra sem halda hross í Breiðholtshverfinu, en engin aðstaða var þar til staðar áður. „Fólk var með hross sín í eigin girðingum á klaka og svelli og það er alls ekki boðleg aðstaða til að þjálfa hross. Þetta reiðgerði hefur gert heilmikið fyrir hverfið og óhætt að fullyrða að það er vel nýtt. Nánast alltaf einhver að nota það frá morgni fram eftir kvöldi og aldursbilið er breitt, hér eru krakkar niður í 9 ára og fólk komið yfir sjötugt.“

Breiðholt er annað af tveimur hestahúsahverfum á Akureyri og það eldra. Þar eru um 100 hesthús og mikill fjöldi hesta. Það er fullbyggt og þegar svo var komið var annað hverfi byggt upp í Lögmannshlíð. Þar eru nú öll ný hesthús byggð og þar er reiðhöllin staðsett og mikið nýtt. Svanur segir að Breiðhyltingar noti reiðhöllina vel, en það kosti smá bras að fara yfir, með hross í kerru eða ríðandi ef þau eru tamin. „Þetta reiðgerði gerir mikið fyrir þá sem eru með hross í tamningu og þjálfun,“ segir hann, en reiðgerðið var tekið í notkun milli jóla og nýjárs.

Lesa meira

Í startholum með að hefja steypuvinnu

„Við stefnum á að hefja steypuvinnu í mars ef veður og vindar leyfa,“ segir Björgvin Björgvinsson framkvæmdastjóri og einn eigenda félagsins Höfði Development, þróunarfélagsins sem byggir Höfða Lodge hótel við Grenivík.  Vinnuaðstaða hefur verið sett upp á gamla malarvellinum þar sem gert er ráð fyrir að starfsmenn dvelji meðan á uppbyggingu hótelsins stendur, en pláss er þar fyrir 16 til 18 manns.

Björgvin segir að jarðvegsvinnu sé að mestu lokið, vegagerð sömuleiðis og búið sé að setja niður vatnstanka á svæðinu. Nú taki steypuvinna við um leið og aðeins fer að vora meira. „Við gerum ráð fyrir að steypa eitthvað fram á sumarið, fram í júlí eða ágúst og vonum að einhver mynd verði komin á svæðið með haustinu,“ segir Björgvin.

Einingarnar koma frá Lettlandi

Þegar búið verður að steypa húsin upp tekur við innivinna næsta vetur, að innrétta hótelið og því sem fylgir. Hótelið sjálft er um 6 þúsund fermetrar að stærð og þá verður byggð upp starfmannaaðstaða, um eitt þúsund fermetrar auk hesthúss sem verður um 350 fermetrar.

Lesa meira

„Þetta er hrein þjónusta við íbúa og það kostar ekkert að koma hérna inn“

- Segir Stefán Pétur Sólveigarson, verkefnastjóri um nýja hátæknismiðju sem opnar á Húsavík í febrúar

Framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarið við stækkun þekkingarsetursins á Húsavík, undir forystu Þekkingarnets Þingeyinga (ÞÞ). Langanes ehf. festi á síðasta ári kaup á Hafnarstétt 1 af Steinsteypi ehf. en fyrir átti Langanes núverandi húsæði ÞÞ að Hafnarstétt 3. Það er Bjarni Aðalgeirsson, fyrrum útgerðarmaður sem er maðurinn á bak við Langanes. Í kjölfarið var gerður langtíma leigusamningur við ÞÞ.

Með stækkuninni verður til ein heild úr núverandi húsnæði að Hafnarstétt 3 og yfir í neðri hæð Hvalasafnsins að hafnarstétt 1, með viðbyggingu á milli. Tengibyggingin  verður úr glereiningum, en hönnuður í verkefninu er Arnhildur Pálmadóttir arkítekt. Aðalinngangur verður um þessa glerviðbyggingu,  en  samanlagt verður húsnæðið um 1000 fermetrar. Frá opnun verður þarna um 30 manna vinnustaður, með fleira starfsfólk á álagstímum. Sannkallaður suðupottur þekkingar og nýsköpunar.

 Stefnt að opnun í vor

Þegar blaðamaður Vikublaðsins leit við á dögunum var Stefán Pétur Sólveigarson á öðru hundraðinu við undirbúning en hann er verkefnastjóri hjá Hraðinu Nýsköpunarmiðstöð og Fab-Lab Húsavík. Stefán segir að stefnt sé að opnun heildarverkefnisins á vormánuðum, en hlutar húsnæðisins verði þó teknir í notkun fyrr, t.d. Fab Lab Húsavík.

„Þetta mun allt tengjast þessari tengibyggingu sem kemur hér á milli. Hún náttúrlega gerir þetta að miklu meira húsi, einni stórri heild. Þessi glerbygging verður í raun hjartað í allri starfsemi sem verður í þessum tveimur húsum,“ útskýrir Stefán.

Auk starfsmanna ÞÞ verða Náttúrustofa Norðausturlands,  SSNE og Rannsóknasetur Háskóla Íslands með fastar starfsstöðvar í húsinu og þá bætist Hvalasafnið einnig við en starfsfólk þess verður með matar- og kaffiaðstöðu í húsinu og með aðgang að fundarsölum, Fab- labinu, Hraðinu og sérfræðingum innanhúss. 

Stefán segir að þó mikið sé búið að gera nú þegar þá séu ófá handtökin eftir enn, áður en nýja aðstaðan verður opnuð. „Hér eru svo ótrúlega mörg handtök sem þarf að gera,“ segir hann og lítur í kringum sig. „Fyrir utan, að þegar búið er að gera allt sem viðkemur framkvæmdum þá þarf að tengja allt og fínstilla öll tæki; þrívíddarprentara, vínyl- og laserskera og aðrar vélar. Við erum að vonast til að geta opnað þann hluta fyrripart febrúar.“

 Ókeypis þjónusta við íbúa

Hafnarstétt

Neðri hæð Hafnarstéttar 1 og Hafnarstétt 3 þar sem Þekkingarnet Þingeyinga hefur um árabil verið til húsa verður tengt saman með fallegri glerbyggingu. Úr verður öflug heild sem mynda suðupott þekkingar og nýsköpunar í hjarta Húsavíkur. Mynd/epe.

 Fab-lab smiðja er þekkt hugtak af tiltekinni gerð af frumkvöðlatækni smiðju. Um er að ræða vinnustofu með ákveðinni tegund af tækjabúnaði. „Fab-lab er hátæknismiðja eða það er hægt að kalla þetta hátækniskóla og smiðju. Þetta verður opið fyrir alla, þetta er ekki eitthvað fyrirtæki sem þú borgar þig inní. Þetta er hrein þjónusta við íbúa og það kostar ekkert að koma hérna inn. Hér verður hægt að læra á tækin í Fab-lab sem öll eru tölvustýrð,“ segir Stefán og bætir við það sé ótrúlega dýrmætt fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki að hafa aðgang að slíkri smiðju. Aðal málið við Fab-lab er að hér er fullt af tækjum sem fólk  á almennt ekki auðvelt með að komast í. Þetta eru dýr tæki sem stjórnast af tölvum. Eins og þrívíddarprentarinn, tölvustýrð fræsivél og vínylskerinn og allt dótið hérna. Auðvitað verða hér líka handverkfæri en þau eru í raun stuðningur við þessi flóknari tæki, ef þú þarft t.d. að pússa, mála eða spreyja, merkja eða alls konar,“ útskýrir Stefán.

 Tækifæri fyrir skólana

Skólarnir á svæðinu  munu njóta góðs af hátæknismiðju ÞÞ sem verður opin fyrir krakka frá grunnskólaaldri upp í framhaldsskóla. „Fyrir krakka er þetta einfaldlega tæknikennsla; að kunna og þekkja tæki sem framleiða allt mögulegt í dag,“ segir Stefán 

Lesa meira

Mikil aukning í viðtalsbeiðnum undanfarna mánuði

Aflið -Samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi 20 ára í vor

„Við gerum ráð fyrir að þessi aukning sem við sjáum núna muni halda áfram,“ segir Sigurbjörg Harðardóttir verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Aflinu, Samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Þrjá síðustu mánuði liðins árs og einnig nú í janúar hefur verið talsverð aukning viðtalsbeiðna frá nýjum skjólstæðingum. Samtökin verða 20 ára í vor og stendur til að minnast tímamótanna. Reksturinn hefur verið tryggður til næstu þriggja ára, en í nóvember síðastliðnum komst Aflið á fjárlög.

„Það er mjög mikið að gera, beiðnum um viðtöl rignir inn og ekkert lát á,“ segir Sigurbjörg. Hún segir að viðtölum hafi fækkað á árinu 2020, en það ár var heimsfaraldur í hámarki, margir drógu sig í hlé og loka þurfti starfsemi hjá Aflinu í alls tvo mánuði. „Það var okkar mat að áhrif af kóvid ætti eftir að koma sterkt inn í okkar starf þegar eitthvað væri um liðið og mér sýnist að sú spá okkar sé að raungerast nú. Þessi mikla aukning núna má að hluta til rekja til ástands í tengslum við heimsfaraldurinn og einnig er það ævinlega svo að þegar mikil umræða er um kynferðisofbeldi í samfélaginu þá aukast viðtalsbeiðnir hjá okkur.“ 

Sigurbjörg segir að algengast sé að þeir sem leita til Aflsins hafi verið beittir andlegu ofbeldi, en það er oft fylgifiskur annars ofbeldis. Kynferðisofbeldi komi þar næst á eftir og síðan heimilisofbeldi. „Það er reyndar þannig að oft hefur fólks sem til okkar leitar verið beitt fleiri en einni tegund af ofbeldi,“ segir hún.

Umræðan ýtir við mörgum

Sú umræða sem verið hefur áberandi á undanförnum vikum ýtir við mörgum að sögn Sigurbjargar. Fólk átti sig á að það sjálft hefur verið í áþekkum aðstæðum og rætt er um, þetta geti verið gömul mál sem fólk hefur bælt niður og ekki rætt um. „Svo þegar verið að ræða þetta frá öllum hliðum þá kemur það við kaunin á fólki. Það finnur að það þarf að fá að  ræða þessi mál og leitar þá til okkar. Stundum hefur fólk jafnvel ekki áttaði sig á að það hafi upplifað ofbeldi, það hefur kannski skilgreint atvikið á annað hátt,“ segir Sigurbjörg.

Lesa meira

Yfir 50 þúsund greind frá því stofan var sett upp

„Það hefur verið mikið að gera hjá okkur það sem af er árinu og stórir dagar núna í þessari viku. Það sem af er janúar höfum við skimað nær 8000 sýni og hafa þau aldrei verið fleiri, “ segir Inga Stella Pétursdóttir forstöðulífeindafræðingur á Veirurannsóknarstofu Sjúkrahússins á Akureyri en á þeirri er deild unnið við að greina SARSCoV 2 veiruna, kórónuveiruna alræmdu. Sem dæmi má nefna að á sunnudag sl. voru um skimuð um 630 sýni og á mánudag voru þau 745 talsins.Stofan hefur verið starfandi í rúmt ár, hún hóf starfsemi í lok árs 2020 og hafa á þeim tíma verið greind um 50 þúsund sýni. Alls greindust 1.120 jákvæð sýni í greiningum stofunnar árið 2021 og þann hluta árs 2020 sem hún hefur verið starfandi.  

Ingastella

Inga Stella segir að veirurannsóknarstofan sinni stóru svæði, einkum Eyjafjarðarsvæðinu en auk þess er reglulega skimað frá Blönduósi að vestan og austur á Vopnafjörð. Nú fyrr í janúar hljóp stofan undir bagga þegar flug frá Egilsstöðum lá niðri dögum saman, en gripið var til þess ráðs að aka með sýni til Akureyrar. „Það var mikil ánægja með það fyrir austan,“ segir hún.

Bróðurpartur vinnudagsins fór í að pakka sýnum til flutnings

Embætti landlæknis gefur út starfsleyfi til þeirra sem sjá um að greina kórónuveiruna, sækja þarf um og fá samþykki. Í fyrstu bylgju faraldursins voru öll sýni af norðanverðu landinu send til greiningar suður til Reykjavíkur. Eins og gengur á fyrstu mánuðum ársins fóru samgöngur iðulega úr skorðum, á stundum ófært bæði með flugi og landleiðina og hrönnuðust þá ógreind sýni upp. „Okkur þótti þetta alveg ómögulegt ástand. Sýnatökum fjölgaði eftir því sem á leið og við gerðum varla annað en pakka sýnum til flutnings. Þegar bróðurpartur dagsins var farin að snúast um að pakka sýnum þótti okkur nóg komið og viðruðum þá hugmynd um að fá þessa starfsemi norður, enda er Sjúkrahúsið á Akureyri varasjúkrahús Landspítalans,“ segir Inga Stella.

Erindi var sent inn um mánaðamót maí og júní og barst jákvætt svar þegar nokkrir dagar voru liðnir af júlímánuði. „Þá tók við að velja tækjabúnað og síðan tekur við löng bið eftir honum, því eftirspurn á heimsvísu eftir þessum tækjum er gríðarmikil,“ segir Inga Stella. „Við fengum upplýsingar í gegnum Ingibjörgu Isaksen um tæki í Danmörku sem einangra erfðaefni og eru mikið notuð þar í landi sem og Grænlandi og Færeyjum. Við fórum að skoða þau betur, hver reynslan væri af þeim og leituðum m.a. upplýsinga hjá sýkla- og veirufræðingum á Landspítala sem leist mjög vel á. Úr varð að við pöntuðum í upphafi eitt slíkt tæki auk þess við fengum annað frá  Roche í Bretlandi.

Inga Stella segir að einnig hafi verið pöntuð PCR tæki, sambærileg þeim sem notuð eru á Landspítala. Tveir lífeindafræðingar af deildinni auk yfirlæknis, Ólafar Sigurðardóttur héldu í þjálfunarbúðir suður yfir heiðar í nóvember árið 2020 og þá var einnig hafist handa við að koma upp sérrými á sjúkrahúsinu fyrir skimunina. Slík rými eru útbúin á sérstakan hátt eftir lífverndarstuðli 2 og aðstoð við þá uppsetningu fékkst frá veirudeild LSH. Eins fékkst góð aðstoð frá tveimur líffræðingum frá Háskólanum á Akureyri sem höfðu mikla reynslu af PCR-greiningarvinnu.  Allt var klárt og starfsemi hófst 11. desember 2020.

Greiningargetan tvöfölduð

Í fyrstu var starfsemin keyrð með einföldu setti af einangrunartækjum og PCR tæki, en Inga Stella segir að vorið 2021 hafi verið gefnar út spár um auknar komur ferðamanna til landsins.

Lesa meira

Framkvæmdin leysir á einu bretti allt pláss- og aðstöðuleysi félagsins

Langþráðar endurbætur fram undan í ár á Skautahöllinni

Framkvæmdin leysir á einu bretti allt pláss- og aðstöðuleysi félagsins

-Þriggja hæða 300 fermetra húsnæði byggt inni í norðurenda hallarinnar


„Þetta er mikið fagnaðarefni og við munum fá langþráða bót á aðstöðuleysi sem við höfum lengi búið við. Þetta er virkilega flott og sniðug framkvæmd sem leysir nánast á einu bretti allt pláss- og aðstöðuleysi sem við hjá Skautafélagi Akureyrar og gestir okkar hafa búið við,“ segir Jón Benedikt Gíslason framkvæmdastjóri Skautafélags Akureyrar.

Til stendur að hefja framkvæmdir við félags- og æfingaaðstöðu í norðurenda Skautahallarinnar í vor. Áætluð verklok verða á næsta ári, 2023. Þessar breytingar hafa lengi verið á teikniborðinu en ávallt verið slegnar út af því þar til nú. Tilboð í verkið verða opnuð síðar í þessum mánuði.

Jón Benedikt segir að um sé að ræða viðbót sem byggð verði inn í Skautahöllina, þannig að lofthæð hússins er nýtt og upphituð rými verði til á þremur hæðum. Skortur hafi verið á slíkum rýmum til þessa. Hver hæð verður um 100 fermetrar að stærð þannig að í allt verður bætt við um 300 fermetrum við það húsnæði sem fyrir er.

Betri veitinga- og félagsaðstaða

Á jarðhæð í anddyri hússins verður til hlýtt og notalegt rými þar sem kaffiterían er og kemur hún í stað plastbyggingar sem sett var upp á sínum tíma til bráðabirgða, en hefur staðið í áraraðir. Öllum gestum Skautahallarinnar mun standa til boða að nýta veitingaaðstöðuna, þar sem hægt verður að setjast niður og horfa yfir ísinn á meðan veitinga er notið.


 

Lesa meira