Tomas Olason á förum
„Þetta er búið að vera frábært, ég elska bæinn, hér ekkert eðlilega gott fólk og ég er búinn að eignast fullt af góðum vinum,“ sagði Tomas Olason markvörður hjá Akureyri Handboltafélagi í viðtali við Vikudag í nóvember á síðasta ári. Þar sagði hann jafnframt að hann reiknaði með að yfirgefa félagið að loknu yfirstandandi keppnistímabili og halda heim til Danmörku í nám.
Nú er það orðið opinbert að Thomas sem er hálfur Íslendingur og hálfur Dani hefur gert tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt, Odder Håndball. Tomas heldur til Odder að loknu yfirstandandi keppnistímabili með Akureyri.
„Tomas hefur átt farsælan feril með Akureyri Handboltafélagi og ætlar að sjálfsögðu að klára tímabilið með stæl. Við óskum Tomasi til hamingju með samninginn en að sjálfsögðu er ekki tímabært að kasta fram kveðjuorðum núna, það er heilmikið verk óunnið og þar ætlar Tomas að sjálfsögðu að leggja sitt að mörkum,“ segir á heimasíðu Akureyrarliðsins.