Zumba í sundi nýjast nýtt í líkamsrækt

Þórunn Kristín stýrir Zumbanu á bakkanum.
Þórunn Kristín stýrir Zumbanu á bakkanum.

Á nýju ári er gjarnan vinsælt hjá fólki að efla heilsuna og finna sér líkamsrækt við hæfi. Það nýjasta nýtt á Akureyri er Zumba í sundi en Þórunn Kristín Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og Zumba-kennari, byrjaði með Aqua Zumba í haust og hefur það vakið mikla lukku en tímarnir fara fram í Sundlaug Akureyrar. Þórunn Kristín mun vera með tvö námskeið á nýju ári.

„Ég tók réttindin í Zumba árið 2014 og var búin að bæta við mig Zumba Kids líka og ætlaði að láta þar við sitja. Síðan frétti ég af Aqua Zumba námskeiði með einum fremsta kennaranum í bransanum og ákvað slá til. Þetta er gjörólíkt öllu því sem hefur verið í boði hérna og hefur vakið mikla athygli,“ segir Þórunn. Hún segir Aqua Zumba, sem nefna mætti Zumba í vatni á góðri íslensku, vera góða alhliða líkamsrækt.

„Það er lítið álag á liði, því vatnið styður við liðamótin og því er þetta kjörið fyrir fólk í yfirþyngd, með gigt eða stoðkerfisvandamál. Þó svo við notum vöðvana meira í vatni vegna mótstöðunnar þá er hægt að stunda hreyfingu í vatni miklu lengur og með minni afleiðingum en æfingar á landi. Það verður meira jafnvægi í notkun vöðva. Við getum stjórnað auðveldlega hvað við fáum út úr hverjum Aqua Zumba tíma, bara með því hvernig við beitum okkur, hvernig við spennum magann og hvernig við nýtum mótstöðuna í vatninu.Vatnið hefur mjög góð áhrif á hjarta- og æðakerfið og því hentar Aqua Zumba vel fólki sem glímir við t.d. of háan blóðþrýsting og þess háttar. Vatnið lækkar hjartsláttinn þannig að púlsinn verður ekki rosalega hraður miðað við sambærilega hreyfingu á landi. Rannsóknir hafa einnig sýnt að hreyfing í vatni hefur góð áhrif á andlega líðan, sé spennulosandi og hreinsi hugann.“

Smellt í eina sjálfu eftir góðan Zumba í sundi.

Þátttakan fram úr björtustu vonum

,,Hugmyndin af Aqua Zumba er að það er búið að yfirfæra spor úr Zumba yfir í vatn. Við erum að gera mjög svipaðar hreyfingar eins og í hefðbundinni vatnsleikfimi en við erum að setja þær saman á annan hátt, erum að setja þær í rútínu. Við erum að dansa.“ Þórunn segir þátttökuna hafa verið góða. „Ég var með fyrsta námskeiðið núna í september sl. til desember og skráning fór fram úr björtustu vonum. Það voru tæplega 30 manns sem skráðu sig á fyrsta á námskeiðið og ég þarf að takmarka skráningu á námskeiðin sem hefjast núna á nýju ári. Þátttökufjöldi miðast við 15 í tímum, til að fólk sé ekki í troðningi og fái sem mest út úr tímunum.“

Hún segir aðallega konur sem sækja í Aqua Zumba en þetta sé þó ekki síður fyrir karla og henti fólki á öllum aldri. „Þetta er mun breiðari aldurshópur en í venjulegu Zumba. Yngstu þátttakendurnir eru á þrítugsaldri og elstu eru á sextugsaldri, þetta er mjög fjölbreytilegur hópur sem er skemmtilegt og það er mjög gaman að sjá hvað þessar konur ná vel saman þrátt fyrir þennan aldursmun.“  Ný námskeið hefjast 9. janúar nk. og síðan 20. mars. Bæði námskeiðin eru átta vikur. Hægt er að vera 1 eða 2 sinnum í viku, en einnig er hægt að kaupa fimm tíma klippikort á annað hvort námskeiðið.

„Ég hef einnig boðið upp á að kaupa staka tíma, ef fólk vill koma og prófa. Það er hægt er að skrá sig á thks1981@gmail.com en einnig er hægt að fylgjast með á Facebook-síðunni „Zumba með Þórunni" þar sem hægt er nálgast frekari upplýsingar,“ segir Þórunn og bætir við: ,,Svo má líka nefna að það hefur færst í aukana fyrir sunnan að fara með vinkonuhópinn í Aqua Zumba í gæsun og einnig sem hópefli. Svo fólk má endilega hafa samband við mig hvað það varðar.“ segir Þórunn.   

Nýjast