Willkommen, bienvenue, welcome
Það er ekki hægt að segja annað en að leikárið hjá Leikfélagi Akureyrar hafi byrjað með hvelli sem eftir var tekið. Söngleikurinn Kabarett er margrómað verk byggt á Berlínardagbókum bandaríska rithöfundarins Christophers Isherwood (Goodbye to Berlin, 1939) og er sögusviðið í og við Nollendorfplatz í Berlín á uppgangsárum þýskra nasista. Ekki beint uppörvandi tímabil allra síst í baksýnisspegli sögunnar en Joe Masteroff, höfundi söngleiksins, hefur þó tekist hið ólíklega, með aðstoð John Kanders (tónlist) og Fred Ebb (textar), nefnilega að skapa samfelda sögu af grípandi andartökum í líf fólks sem reynir að halda reisn sinn þótt það eigi í höggi við illvíga útsendara nasista og meðreiðarsveina þeirra.
Isherwood bjó í Berlín frá 1929 til ársins 1933 þegar nasistar komust til valda og þekkti því vel til ástandsins í Þýskalandi og þá sérstaklega í Berlín hinni dínamísku höfuðborg Weimar lýðveldisins. Í sögu Isherwoods hefur Cliff Bradshaw, ungur samkynhneigður rithöfundur, flutt frá þrúgandi andrúmslofti kreppunnar í Bandaríkjunum á vit skammlífs frelsis og skemmtunar í Berlínarborg. Skömmu áður en á leiðarenda er komið kynnist Bradshaw nasistaspírunni Ernst Ludwig sem á eftir að hafa dramatísk áhrif á líf rithöfundarinns. Hann vísar Bradshaw á ódýrt húsnæði á „besta stað“ í bænum en þar kynnist rithöfundurinn söngkonunni Sally Bowles og öðrum þeim sem tengjast leigusalanum Fräulein Schneider.
Það er svo í Kit Kat klúbbnum sem dansað er og duflað uns dagur rennur á ný. Í sýningunni er klúbburinn umgjörð kabarettsins sem líf margra í Berlín snérist um á þessum árum. Þessi samlíking býður upp á söng og dans fyrir allan peninginn en óneitanlega minnir stemmingin á söguna um dansinn í Hruna. Gleðin og galsinn er því lítið annað en örvæntingarfull tilraun til að horfa fram hjá því sem koma skal, mismunun og ofbeldi á grundvelli kynþáttar og stjórnmálaskoðanna.
Það eru samt ástarsögur ólíkra einstaklinga sem eru rauði þráðurinn í verkinu. Rithöfundurinn ungi virðist ekki hafa verið samkynhneigðari en svo að hann reynir að telja Sallý á að stofna fjölskyldu og flytjast með sér „heim“ til Bandaríkjanna. Sallý er ólétt og þau virðast bæði nokkuð sannfærð um að barnið sem hún gengur með geti verið hans. Í augum Sallýar stenst þó rósrauð framtíð í fyrirheitna landinu engan samanburð við framan sem hún telur sig eiga í vændum á sviði Kit Kat klúbbsins.
Hin ástarsaga leiksins er jafnvel enn átakanlegri en í henni hverfist sögulegur glæpur nasista gegn gyðingum. Við fylgjumst með ávaxtakaupmanninum Herr Schultz gera hosur sínar grænar fyrir Fräulein Schneider. Þau eru bæði komin eitthvað yfir miðjan aldur og mega muna sinn fífil fegurri. Það dregur þó í engu úr rómantíkinni í sambandinu þótt uppgangur nasismans komi í veg fyrir að þetta ástfangna par fái að eigast. Meðferðinn á Herr Schultz í verkinu er lýsandi fyrir það sem gyðingar í Þýskalandi nasismans máttu þola og enn átti ástandið eftir að versna.
Matreiðslumeistari sýningarinnar er svo skemmtistjórinn MC en hann svífst einskis við að fá okkur til að bragða á réttum kvöldsins. MC hvetur áhorfendur til að skilja sorg og sút eftir utan dyra þegar inn í Kit Kat klúbbinn er komið. Þar taka við flest skemmtiatriði sýningarinnar og er ekkert lát á. Örlög skemmtistjórans urðu þó þau sömu og annarra þeirra sem ekki flúðu nasismann þ,e. annað hvort að fylgja nasistum með einum eða öðrum hætti eða tortímast ella.
Kabarett hefur margsinnis verðið settur upp á Íslandi og í það minnsta tvívegis hér á Akureyri. Þekktir leikarar hafa spreytt sig á helstu hlutverkum verksins sem Sally Bowles, aðalstjarna Kit Kat klúbbsins, skemmtistjórinn MC (Master of Ceremonies), rithöfundurinn Cliff Bradshaw, sendiboði nasista Ernst Ludwig og hjónaleysin Fräulein Schneider og Herr Schultz að ógleymdri Fräulein Kost sem tengir fleiri þræði verksins saman en virðist í fyrstu.
Það kanna að vekja furðu að Marta Nordal, nýr leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, skuli velja söngleik sem er eins rækilega negldur niður í ákveðið tímabil mannkynsögunnar og Kabarett sem sitt fyrsta verk er en hún leikstýrir sýningunni sjálf. Það blasir þó við á meðan á sýningunni stendur að hér er um hárrétt val að ræða. Velheppnuð uppfærsla á Kabarett býður upp á flest það sem gott leikhús vill státa af góðan texta, hæfilega mikinn boðskap, sannfæringakraft í leik og söng, frábæra leikmynd og góða búninga svo ekki sé minnst á styrka hönd og hugmyndaauðgi afbragðs leikstjóra.
Uppsetning Leikfélags Akureyrar á Kabarett er ekkert annað en sigur allra þeirra sem að verkinu koma. Ánægjulegt er að verða vitni að innkomu og endurkomu Ólafar Jöru Skagfjörð Guðrúnardóttur í íslenskt leiklistarlíf en hún hefur það til að bera sem þarf til að blása lífi í hlutverk Sally Bowles. Bæði söngur og leikur í hæsta gæðaflokki. Mótleikarar Ólafar Jöru þeir Hjalti Rúnar Jónsson, í hlutverki Cliffs Bradshaw, og Jóhann Axel Ingólfsson, í hlutverki Ernsts Ludwig stóðu sig með prýði. Hákon Jóhannesson lék skemmtistjórann MC af miklum krafti og ljóst að hér er mikið efni á ferð.
Birna Pétursdóttir hefur sýnt og sannað á liðnum árum að hún er fjölhæf leikkona. Hún túlkar, oft vanmetið, hlutverk Fräulein Kost á blæbrigðaríkan hátt og nær að sýna okkur með trúverðugum hætti unga konu sem berst fyrir sínu í samfélagslega þröngri stöðu. Lágstemdir sigurvegarar kvöldsins eru þó óneitanlega Andrea Gylfadóttir og Karl Ágúst Úlfsson sem Fräulein Schneider og Herr Schultz. Hlutverk og leikur Andreu og Karls Ágústs í verkinu setja í brennidepil dapurleg örlög þýskrar alþýðu á tímum ólýsanlegs ofbeldis.
Lágstemdir sigurvegarar kvöldsins eru þó óneitanlega Andrea Gylfadóttir og Karl Ágúst Úlfsson sem Fräulein Schneider og Herr Schultz. Hlutverk og leikur Andreu og Karls Ágústs í verkinu setja í brennidepil dapurleg örlög þýskrar alþýðu á tímum ólýsanlegs ofbeldis. Í hlutverkum dansara á Kit Kat klúbbnum voru þær Fanný Lísa Hevesi, Bergþóra Huld Björgvinsdóttir og Unnur Anna Árnadóttir og eiga þær hrós skilið. Reyndar verður að segjast eins og er að dansatriðin í verkinu voru með ólíkindum góð, vel samhæfð og þjónuðu tilgangi sínum í hvívetna. Örn Smári Jónsson og Steinar Logi Stefánsson fóru með ýmis smærri hlutverk og stóðu sig með ágætum. Kapituli út af fyrir sig er hljómsveitin undir stjórn Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar en hún gæddi sýninguna andblæ veraldar sem var.
Það er varla á hrósið bætandi en vel hugsaðar hreyfingar leikaranna í þröngu rými leiksviðsins sýndu svo ekki verður um villst að með vel útfærðri leikmynd getur Samkomuhúsið á Akureyri hýst leikverk sem að öllu jöfnu krefjast stærra sviðs og meiri tækni. Uppsetningin á Kabarett lofar góðu fyrir áhugafólk um gott leikhús á Íslandi. Willkommen, bienvenue, welcome Marta Nordal.
-Ágúst Þór Árnason