Vonandi orðinn að árlegum viðburði

Það var sannkölluð jólastemmning á Húsavík á síðasta ári  þegar Aðventuhátíðin Jólabærinn minn fór fram í fyrsta skipti. Hátíðin þótti takast með eindæmum vel og því hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn í ár.

„Já, þetta er í annað sinn sem við höldum þetta með þessum hætti en árið áður var líka markaður í Hvalasafninu sem ruddi svolítið brautina og ég vona innilega að þetta sé komið til að vera á aðventunni hjá okkur um ókomin ár enda allar forsendur fyrir hendi til þess,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson, forstöðumaður Húsavíkurstofu.

Hátíðin í ár fer fram fyrstu helgina í desember sem er jafnframt fyrsta helgin í aðventu. „Það hittir þannig á hjá okkur. Við ætlum að byrja á því að tendra bæjarjóatréð á föstudeginum 1. des. Og verðum svo með útimarkað eins og við vorum með í fyrra,“ segir Örlygur en útimarkaðurinn á plani Skóbúðar Húsavíkur þótti takast með afbrigðum vel í fyrra, var vel sóttur og þar myndaðist falleg jólastemning.

 Nýtt kirkjutorg tekið í notkun

„Nema að þessu sinni ætlum við að færa  okkur yfir á nýja kirkjutorgið sem verður orðið upphitað og flott. Stærsta dagskráin er ss 1.-2. des sem er föstudagur og laugardagur en það verður meira að um að vera á föstudeginum því Mývetningar eru auðvitað með sinn markað á laugardeginum,“ segir Örlygur en bætir við að það hafi þó verið góð mætin í fyrra þó það hafi verið mikið um að vera í Mývatnssveit.

Hann segir að markaðurinn verði reyndar opinn frá fimmtudegi til laugardags en tendrun bæjarjólatrésins komi þar á milli á föstudeginum. „Við hjá Húsavíkurstofu sjáum um hátíðina á föstudag og laugardag og lofum fallegri hátíðarstemningu.

 Fjölbreytt dagskrá

Jólabærinn 2023

Meðal þess sem boðið verður upp á eru opnir tónleikar inn í Húsavíkurkirkju þar sem hægt verður að setjast inn og hlýja sér á milli þess sem markaðurinn er þræddur með heitan kakóbolla í hönd. „Svo verða ýmis konar skemmtiatriði úti líka. Við erum að vinna í því núna að búa til dagskrá í kringum þetta. Það verður t.d. opnun í Safnahúsinu sem er afar sérstök,“ útskýrir Örlygur.

Setja upp fyrstu sýniguna

„Það er verið að setja aftur upp sýningu sem var fyrsta sýning sem sett var upp þegar Safnahúsið var opnað á sínum tíma. Það er myndlistasýning á verkum Valtýs Péturssonar. Þá var Valtýr nýbúinn að gefa myndlistasafni Þingeyinga 22 málverk og má segja að hafi verið kjarninn í myndlistarsafni Þingeyinga. Þetta var s.s. fyrsta sýningin í húsinu og þá vaknaði þessi hugmynd að setja hana upp aftur öllum þessum árum síðar,“ segir Örlygur og bætir við að starfsfólk safnsins hafi lagt töluverða vinnu í að endurskapa sýninguna.

„Ég veit að uppi á safni hefur verið lögð vinna í að fara yfir ljósmyndir af upphaflegu sýningunni til þess að sjá hvernig uppstillingin var og svona. Það er ótrúlega fallegt að vera með þessa sýningu aftur svona mörgum árum síðar en flest þessara verka hafa lítið verið sýnd í millitíðinni,“ segir hann.

 Vonast til að hátíðin dragi til sín gesti

Þá minnir Örlygur á að sömu helgi og jólahátíðin fer fram verður Fosshótel Húsavík með sitt margrómaða jólahlaðborð og vonast hann til að það dragi gesti til bæjarins. „Við erum að binda vonir við að við fáum svolítið af fólki í bæinn. Það var þannig í fyrra, það kom talsvert af gestum í bæinn til að berja jólabæinn augum.“

Undirbúningur er kominn á lokstig og segir Örlygur að vikan fari í að skipuleggja auglýsingar og binda saman síðustu lausu endanna. „Við erum að leggja lokahönd á undirbúinginn og huga að markaðsetningunni.“

„Markaðurinn verður með svipuðu sniði og í fyrra enda eigum við básana sem smíðaðir voru þá. Það þurfti auðvitað að lappa aðeins upp á þá en það því er lokið og allt að verða klárt en það voru sjálfboðaliðar úr félagi eldri borgara á Húsavík sem unnu hörðum höndum við að smíða þessa bása á sínum tíma og gerðu það vel,“ segir Örlygur að lokum og ekki seinna vænna en að koma sér í hátíðarskap.

Nýjast