Völsungspiltar í Lengjudeild í fótboltanum 2025!
Völsungur mun eiga lið í næst efstu deild karlafótboltans á Íslandi næsta sumar, þetta varð ljóst eftir frábæran stórsigur 8-3 á liði KFA á Reyðarfirði í dag. Liðið sem sérfróðir sunnan heiða gáfu enga möguleika á einu eða neinu í spám fyrir sumarið er svo sannarlega vel að þessum árangri komið, þeir hafa svo dæmi sé tekið ekki lotið í lægra haldi í seinustu níu leikjum.
Slíkt er ávísun á eitthvað gott og má segja að í dag hafi verið kollheimt.
Annars var leikurinn í dag ekki gamall þegar fyrsta markið af þessum ellefu sem skoruð voru leit dagsins ljós en það var fyrirliðinn Arnar Pálmi sem gaf tóninn strax á 3 mín. leiksins. Mark númer tvö skoraði svo markamaskínan Jakob Gunnar en hann átti eftir að skora þrjú til viðbótar í þessum leik og er markakóngur deildar með 25 mörk. Jakob Gunnar sem segir skilið við uppeldisfélagið sitt í haust og gengur til liðs við KR skilur svo sannarlega vel við. Aðrir sem komu að markaskorun í dag voru Sergio Parla, Arnar Pálmi, Jakob Héðinn og Gestur Aron.
Einu af átta fagnað innilega
Sannkallaður Mærudagur á Reyðarfirði í dag og fjölmargir stuðningsmenn liðsins kampakátir á heimleið. Leikmenn, þjálfarateymi og ekki síst stjórn knattspyrnuráðs innilega til hamingju með árangurinn!
Ekki má gleyma þvi að Völsungsstelpurnar standa einnig i hörkubaráttu um sæti í fyrstu deild og þær eiga heimaleik á morgun (sunnudag) gegn KR kl 14 og skorar vefurinn á alla sem vettlingi geta valdið að fara á völlinn fagna drengjunum og tryggju stelpunum dýrmætan sigur.
Veður er ekki afsökun fyrir heimasetu því seinast þegar vefurin hafði spurnir af voru til kuldaúlpur á Húsavík!
Sæti í Lengjudeild '25 tryggt við leikslok.