Vinasófinn

Fyrir um áratug fór af stað verkefnið Vinabekkurinn í Simbabve í Afríku, eða „The Friendship Bench Project“. Þegar verkefnið fór af stað voru fordómar gagnvart geðsjúkdómum algengir í landinu og líklegra að fólk leitaði aðstoðar hjá særingarmanni en sálfræðingi eða geðlækni. Skortur á framboði fagaðstoðar á þessu sviði varð til þess að Vinabekkjaverkefnið fór af stað þar sem fólki í þörf fyrir ráðgjöf var boðið að setjast á bekki utan við heilsugæslustöðvar.

Starfsmenn heilsugæslunnar sem hlotið höfðu menntun í hugrænni atferlismeðferð ræddu við fólkið og árangurinn var ótvíræður. Líðan fólksins „á bekknum“ var meira að segja betri en líðan þeirra sem höfðu fengið hefðbundna meðferð inni á heilsugæslustöðinni.

Okkur starfsfólki Krabbameinsfélagsins langar að segja frá því að rauði sófinn okkar á Glerárgötunni er eins og vinabekkirnir í Simbabve. Í vinasófanum deilir fólk þeirri reynslu að hafa greinst með krabbamein eða hvernig það er að vera aðstandandi krabbameinsgreindra. Fólk ræðir líka daginn og veginn. Á laugardögum sitja til dæmis karlar í sófanum sem greinst hafa með krabbamein. Á fimmtudögum eru þar krabbameinsgreindar konur sem ræða málin, prjóna eða hekla. Á mánudögum er leshópur í sófanum. Á þriðjudögum læra konur um hugræna atferlismeðferð og tala um ýmislegt tengt krabbameinum og krabbameinsmeðferð. Á miðvikudögum sitja ekkjur og ekklar í sófanum ásamt presti, hjúkrunarfræðingi og sálfræðingi, ræða sorgina og rifja upp minningar af hinum látna.

Og þið kannski spyrjið ykkur hvað er þessi sófi eiginlega stór? Hann er kannski ekki rosalega stór, en þar er alltaf pláss. 

Síðasta vetur var ég svo heppin að vera ráðin í hlutastarf hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis með því skemmtilega fólki sem þar starfar og sinnir sjálfboðastörfum. Aðalverkefni mitt er að þróa og taka þátt í hópastarfi. Þar er fyrst og fremst lögð áhersla á jafningjastuðning en einnig á fræðslu, hugræna atferlismeðferð, núvitund og slökun. Mikilvægi þess að aðstoða fólk við að styðja hvert annað er þó alltaf í fyrirrúmi.

Regína Ólafsdóttir

En hvernig getum við stutt hvort annað? Við verðum stundum óörugg þegar einhver sem við þekkjum greinist með krabbamein, missir nákominn eða lendir í áfalli. Það flókna er að við erum öll mismunandi. Ég hef heyrt fólk tala um hversu gott það er að fá faðmlög. Því fleiri faðmlög því betra. En sumir vilja ekki faðmlög því þeir eru hræddir við að bresta í grát. Við getum ekki vitað hvað hentar hverjum og einum og þurfum að spyrja. Það er hjálplegt ef sá sem er að ganga í gegnum erfiðleikana treystir sér  til að láta fólkið í kringum sig vita hvernig stuðning hann eða hún vill fá. En á erfiðleikatímum er hugurinn oft svo dofinn að fólk ræður ekki við að láta aðra vita. Fyrsta skrefið er þó alltaf að tala saman. Það á ekki síst við þegar kemur að dauðanum sem mörgum reynist svo erfitt að ræða. Til að vinna úr lífsreynslum okkar þurfum við að segja frá og við þurfum að hafa einhvern sem hlustar.

En svo má ekki gleyma því að það þarf ekki alltaf að tala saman. Það má líka þegja saman. 

Samtal, samvera og stuðningur gerir okkur hamingjusamari. Við Íslendingar erum svo heppin að hafa flest einhvern að reiða okkur á þegar erfiðleikar steðja að, þetta sýna hamingjurannsóknir. Sumir telja þetta eina af ástæðum þess að Ísland er yfirleitt í efstu sætunum yfir hamingjusömustu þjóðir heims.

Við vitum þetta flest en þurfum samt að minna hvert annað reglulega á að samvera gerir okkur hamingjusamari. Það sýnir verkefnið í Simbabve, sem er enn í gangi og vex og dafnar með hverju árinu sem líður.

Við hjá Krabbameinsfélaginu höfum þetta að leiðarljósi og vonum að enn fleiri nýti sér þjónustu okkar.

Sjáumst í rauða vinasófanum.

 

Með kærum þökkum fyrir samveruna á liðnu ári,

 Regína Ólafsdóttir, sálfræðingur hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis.

 

 

Nýjast