20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Villist á Blönduósi en getur teiknað útlínur Langaness fríhendis
Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólki Háskólans á Akureyri. Eftir svolitla pásu er kominn tími til að hefja leika aftur á Vísindafólkinu okkar. Nýársvísindamanneskjan er Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, doktorsnemi í félagsvísindum, sem mun verja doktorsritgerð sína 21. júní næstkomandi. Samhliða doktorsnáminu sinnir hún stundakennslu við Félagsvísindadeild. Gréta var einmitt fyrsti doktorsneminn til að undirrita formlegan samning um doktorsnám við háskólann.
Slúður virkar sem félagslegt vald á konur
Víðtækt áhugasvið Grétu nær meðal annars til byggðaþróunar og rannsókna þar að lútandi sem að lokum varð til þess að hún tókst á við doktorsgráðuna. Gréta er með BA-gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri, MA-gráðu í kynjafræði frá Háskólanum í Lundi og diplómu í kennslufræðum frá HA. Í doktorsverkefninu samtvinnar Gréta menntunina í kynjafræðum því að alast upp í smáu bæjarfélagi en rannsókn hennar fjallar um samfélagsleg áhrif á ungar konur í sjávarbyggðum, með aðaláherslu á áhrif slúðurs og drusluskömmunar. Niðurstöður hennar benda meðal annars til þess að slúður virki sem félagslegt vald á konur, sem sýna ákveðin merki um forðun í hegðun sinni og jafnvel flótta verði þær fyrir barðinu á því. Þá veita niðurstöðurnar einnig afar áhugaverða sýn á það vald sem í slúðrinu felst, jafnt í litlum þorpum sem og öðrum félagslegum rýmum.
Eldhúsverkin og sveitin
Gréta býr á Þórshöfn á Langanesi: „Mér finnst frábært að geta stundað vinnu mína að mestu frá heimaslóðum mínum og þar gerir tækni og framsýni HA gæfumuninn. Landsbyggðarskóli sem gaman er að tilheyra,“ segir Gréta, sem á rætur sínar að rekja í Þistilfjörðinn þar sem hún ólst upp á Gunnarsstöðum. „Það gleymdist þó alveg sveitaefnið í mína blöndu og mamma sagði alltaf að ég hefði fengið allt Akureyrargenið hennar,” segir Gréta, sem hefur búið víða, svo sem á Akureyri, í Svíþjóð og Noregi. Hún er listhneigð og hefur mikinn áhuga á hvers kyns sköpun og handverki. „Ég hef aldrei almennilega ákveðið hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór, hef komið víða við. Meðal annars stofnaði ég fyrirtæki þar sem ég er með mína eigin hönnunarlínu úr heimabyggð þar sem ég vinn með ljósmyndir af svartfuglseggjum og útlínur Langanessins. Þá er ég liðtæk í eldhúsinu og hef gríðarlega gaman af því að brasa þar.”
Gréta hefur starfað við Háskólann á Akureyri síðan 2019. Hún sinnir stundakennslu í ýmsum námskeiðum, meðal annars Íslenskar landsbyggðir í alþjóðlegu ljósi og Rannsóknir í hug- og félagsvísindum. Hún segir kennsluna eiga afar vel við sig og finnst gaman að takast á við það krefjandi verkefni að koma nemendum af stað í rannsóknum. „Mér finnst auðvitað langskemmtilegast að kenna í stofu og vera í beinum samskiptum við stúdenta, en það eru samt til margar tæknileiðir til þess að ná góðu flæði og það er áskorun í þessari auknu fjarkennslu sem við þurfum að aðlaga okkur að,” segir Gréta.
„ Það þarf að lifa þessu lífi”
„ Ég er ekki mikið fyrir að strengja áramótaheit en markmiðið er auðvitað alltaf að bæta sig eitthvað. Í fyrra skellti ég fram þremur fullyrðingum í janúarbyrjun, að ég ætlaði að verða amma, verða doktor og verða ástfangin. Skemmst er frá því að segja að eftir stendur doktorinn, mögulega var þetta samt smá lúmsk framsetning enda voru markmið eitt og þrjú að renna saman, ég algjörlega heilluð af ömmuprinsinum mínum sem verður einmitt eins árs núna í janúar,” segir Gréta og á árinu verður markmiðið að klára doktorsgráðuna og því tengdu gætu orðið breytingar á vinnuhögum enda mikil tímamót að klára það verkefni.
„ Mig langar að verja meiri tíma með börnunum mínum og ömmubarninu. Maður á að leika sér með börnunum sínum og í sumar skoraði ég sjálfa mig á hólm og fór í Zipline í Hveragerði með strákunum mínum. Algjörlega klikkað og ég skalf svolítið lengi fyrir og eftir, en þvílíkur sigur fyrir lofthrædda konu. Þannig að kannski er það markmiðið bara fyrir árið 2024, leika sér meira, það þarf að lifa þessu lífi,” eru lokaorð Grétu í bili og svo sannarlega öll sem gætu tengt við lokaorðin.
Vissir þú að:
- Ég hampa titlinum Héraðsmeistari N-Þingeyjarsýslu í kvennafótbolta 1995. Það hefur líklega hvorki verið keppt fyrr né síðar en við unnum Kópaskerslið í hörðum slag. Börnunum mínum finnst þetta ekki merkilegur titill samt.
- Ég er viðutan á stundum og hef, svona tæknilega séð, villst á leiðinni í gegnum Blönduós. Það verður að teljast afrek en það er með það eins og annað, það þarf að vita allar upplýsingar til að geta vegið, metið og dæmt!
- Ég hef mikið þvælst og ferðast, komið til Paloma á Sikiley, Arkhangelsk í Rússlandi, Agadir í Marokkó, Groningen í Hollandi, og margra Evrópulanda og -borga en aldrei komið til London. Hvað er það!
Heilræði: Ég er frekar forlagatrúar, held að hlutirnir fari eins og þeim er ætlað og við þurfum stundum að vera aðeins slakari þegar eitthvað endar eða gengur ekki upp. Ef einar dyr lokast opnast gluggi, og þar gæti leynst eitthvað óvænt og gott.