Villibráð með lítið kolefnisspor
Hin geysivinsælu villibráðarhlaðborð Fosshótels Húsavík fara fram um helgina, föstudags og laugardagskvöld. Á boðstólnum verða ómótstæðilegir réttir í boði og má þar nefna dádýr, elgur, hreindýr, gæs, önd, skarfur, lundi, paté, súkkulaðimús, bláberjaskyrkaka, tiramisu og margt fleira.
Hrólfur Jón Flosason er yfirkokkur á Fosshótel Húsavík en hann var rétt búinn að gera að tveimur gæsum þegar blaðamaður Vikublaðsins tók hann tali fyrir hálfum mánuði og birtist greinin fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins í síðustu viku. Hrólfur hefur starfað á hótelinu frá árinu 2005 þegar hann tók ti l starfa á Gamla Bauk á Húsavík sem hótelið var með á leigu.
Ferillinn hófst hjá KEA þar sem Hrólfur lærði sína iðn. „Svo hætti ég þar og var á sjó í einhvern tíma. Síðan hef ég verið á Bautanum, Grillhúsinu á Akureyri og Kaffitorginu áður en ég kom hingað,“ segir hann.
Villibráðarkvöldin hafa notið gríðarlegra vinsælda undan farin ár, alltaf selst upp og laðað ferðafólk víða að. „Jú það hefur verið það síðustu árin. Þetta er í fjórða skiptið sem við erum með þetta en það datt út í fyrra vegna Covid,“ segir Hrólfur og bætir við að hann viti fátt skemmtilegra en að vinna með villibráð.
„Svo er ég að skjóta aðeins sjálfur, ég er aðallega með gæsir sem ég hef skotið sjálfur en á matseðlinum er öll flóran. Skarfur, önd, hreindýr og lundi, svo eitthvað sé nefnt. ég reyni að fá þetta allt úr héraði, þannig að kolefnissporið gæti ekki verið minna,“ segir Hann.
Hrólfur segist ekki eiga sér neinn ákveðin uppáhalds rétt eða hráefni en hefur mestan áhuga á kjöti. „Ég hef mest gaman af að vinna með kjöt, hvort sem það er grafið, reykt eða bara eldað og grillað eftir hefðbundnum aðferðum,“ segir Hrólfur en hann deilir með okkur gómsætri uppskrift úr Villibráðarkvöldinu.
Grafin gæs
2 gæsabringur
1dl sykur
1dl salt
1dl nítritsalt
Þessu er blandað saman, hyljið bringurnar
og látið standa í stofuhita í 4-5 tíma og skolið þær svo og þerrið
Kryddblanda
1 msk timjan
1 msk rósmarín
1 msk rósapipar
1 msk sinnepsfræ
1 tsk dill
Hyljið bringurnar með kryddblöndunni
Og geymið í kæli yfir nótt
Bláberjasósa
600g frosinbláber
1 dl sultu sykur
2 tsk timjan
Hnífsoddur kanill
Hnífsoddur gróft salt
Þetta er látið sjóða í 1-2 tíma