Vilja koma sér upp björgunarmiðstöð á Þórshöfn

Undirritun viljayfirlýsingar um Björgunarmiðstöðvar. Fv. Þórarinn J. Þórisson slökkvistjóri, Jónas E…
Undirritun viljayfirlýsingar um Björgunarmiðstöðvar. Fv. Þórarinn J. Þórisson slökkvistjóri, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Þorsteinn Ægir Egilsson formaður Björgunarsveitarinnar Hafliða á Þórshöfn. Mynd/Langanesbyggð.

Langanesbyggð, Slökkvilið Langanesbyggðar, Neyðarlínan, Björgunarsveitin Hafliði á Þórshöfn og Heilbrigðisstofnun Norðurlands; undirrituðu á dögunum viljayfirlýsingu um að koma á laggirnar björgunarmiðstöð á Þórshöfn.

Miðstöðinni er ætlað það hlutverk að hýsa tæki, búnað og bifreiðar slökkviðliðsins, björgunarsveitarinnar og sjúkrabifreiðar auk aðstöðu fyrir starfsmenn og önnur rými sem tilheyra.

„Megin markmiðið er að ná fram hámarks samhæfingu og samvinnu auk hagræðingar í starfsemi þeirra en ekki síst að auka öryggi íbúa á norðaustur horni landsins. Að mati þeirra sem standa að viljayfirlýsingunni hefur þessi landshluti verið afskiptur þegar kemur að uppbyggingu hvers konar þjónustu við íbúa á þessum stóra og víðfeðma hluta landsins. Björgunarmiðstöðin er stór þáttur í þeirri uppbyggingu þar sem það eru fáir sem sinna margvíslegum hlutverkum og samhæfing og samvinna þeirra því afar mikilvæg gagnvart öryggi íbúa,“ segir í tilkynningu á vef Langanesbyggðar.

Myndaður verður undirbúningshópur sem lætur gera þarfagreiningu þar sem fram koma upplýsingar um stærð þess rýmis sem talin er þörf á ásamt kostnaði og frumteikningum.

 

Nýjast