Vikudagur kemur út í dag
Vikudagur kemur út í dag, miðvikudaginn 29. maí og er fyrr á ferðinni þessa vikuna vegna Uppstigningardagsins. Í blaði vikunnar er að vanda farið um víðan völl og eru áhugaverðar fréttir, mannlíf, íþróttir og menning.
Meðal efnis í blaðinu:
-Feðgarnir Sigurður Þorri Gunnarsson og Gunnar Jónsson skelltu sér í ferð til London um liðna helgi og sáu sín uppáhalds fótboltalið spila úrslitaleiki á Wembley. Sennilega er það ekki algengt að Íslendingar fari á þjóðarleikvang Englendinga tvo daga í röð en það gerðu þeir Sigurður og Gunnar.
-Íþróttafélagið Þór hefur sent erindi til bæjaryfirvalda á Akureyri þar sem kallað er eftir samráði við framtíðaruppbyggingu á félagssvæði Þórs og þar verði tillit tekið til þarfa félagsins, væntanlegrar íbúaþróunar á félagssvæðinu og eflingar íþróttakjarna í samræmi við stefnu Akureyrarbæjar og ÍBA. Félagið er ósátt við að aðalskipulaginu hafi verið breytt án samráðs við Þór og segja að þær hugmyndir sem nú séu uppi kollvarpi framtíðarhugmynd félagsins.
- Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir er ný safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri og tekur við starfinu af Þorsteini Einari Arnórssyni. Jóna þekkir ágætlega til safnsins enda hefur hún starfað þar sem safnvörður undanfarin fimm ár. Vikudagur forvitnaðist um Iðnaðarsafnið og fékk innsýn inn í þetta merkilega safn í bænum.
-Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti samhljóða á síðasta bæjarstjórnarfundi að fresta afgreiðslu umsóknar um stækkun lóðar við Rangárvelli 4 og fela sviðsstjóra skipulagssviðs að kalla eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um tillögu skipulagsráðs. Eins og Vikudagur greindi frá sl. vetur er bygging á steypustöð og steypueiningarverksmiðju fyrirhuguð á Rangárvöllum sem yrði í um 100 m fjarlægð frá íbúahverfi. Íbúar í Giljahverfi eru afar ósáttir við væntanlega byggingu.
-Fyrsta ferð hollenska flugfélagsins Transavia með ferðamenn á vegum Voigt Travel kom til Akureyrar á mánudaginn var frá Rotterdam. Þetta er fyrsta flugið af 16 hjá Transavia í sumar til höfuðstaðar Norðurlands. Við þetta tækifæri tilkynnti Cees van den Bosch, framkvæmdastjóri Voigt Travel, að ákveðið hefði verið að fljúga frá flugvellinum á Akureyri til Amsterdam næsta vetur.
- Adólf Svavarsson er með matarhornið þessa vikuna og kemur með nokkra fljótlega og einfalda rétti.
-Í Húsi vikunnar fjallar Arnór Bliki Hallmundsson um Lundargötu 15.
Þetta og meira til í Vikudegi í dag. Áskriftarsíminn er 460-0750 og 860 6751. Einnig er hægt senda póst á askrift@vikudagur.is.