20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Vikudagur kemur út í dag
Vikudagur kemur út í dag, fimmtudaginn 23. maí og er farið um víðan völl í blaði vikunnar. Meðal efnis í blaðinu:
-Sigfúsi Fossdal hefur verið boðið að taka þátt í keppninni Sterkasti maður heims 2019 sem fram fer dagana 13. til 16. júní í Flórída í Bandaríkjunum. Sigfús er fyrsti Akureyringurinn til að keppa síðan Torfi Ólafsson keppti árið 2000. Sigfús segir langþráðan draum verða að veruleika en hefur stefnt á þetta mót leynt og ljóst í mörg ár. Vikudagur spjallaði við Sigfús Fossdal.
- Tveir hjólreiðarmenn frá Akureyri, þeir Kristinn J. Reimarsson og Jón Þór Jónsson, eru á meðal þátttakenda í hjólaliðinu Team Rynkeby. Um er að ræða góðgerðarverkefni sem hófst árið 2002 þegar nokkrir starfsmenn danska safaframleiðandans Rynkeby Foods ákváðu að hjóla frá Danmörku til Parísar. Kristinn J. Reimarsson segir í samtali við Vikudag að þátttakan sé mikil áskorun en um vikuferð er að ræða.
-Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) lætur nú vinna þarfagreiningu um fýsileika hjartaþræðinga á SAk í samvinnu við erlenda ráðgjafa. Gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir síðar á árinu.
-Akureyrarbær mun ráðast í endurbætur á sparkvöllum tveggja grunnskóla á árinu 2019 og þremur skólum á árinu 2020. Um er að ræða innfyllingar laust gras sem er sett á sparkvellina. Endurnýjunin er hluti af viðhaldi vallanna en mikil umræða í samfélaginu var um gervigras á sparkvöllum fyrir tveimur árum vegna dekkjarkurls í gervigrasinu sem þykir hættulegt heilsunni.
-Fræðsluráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að fella niður skólahald í Grímseyjarskóla tímabundið veturinn 2019-2020 meðan ekki eru fleiri nemendur skráðir í skólann. Karen Nótt Halldórsdóttir, skólastjóri í Grímseyjarskóla, segir í samtali við Vikudag að Grímseyingar voni að skólaganga muni hefjast aftur fyrr en síðar.
-„Þegar ég fékk þessa áskorun ákvað ég strax að reyna að hafa réttina eins fljótlega og einfalda og hægt er, svo allir ættu að ráða við að gera þá. Einnig mæli ég með að kokkurinn fái vín á meðan matseldinni stendur og ég mæli með Lapostolle, Cabernet Sauvignon, frá Chile með þessari máltíð,“ segir Adólf Svavarsson sem er með matarhornið í Vikudegi þessa vikuna.
Þetta og meira til í Vikudegi í dag. Með því að smella hér er hægt að gerast áskrifandi af prent-eða netúgáfu blaðsins. Áskriftarsíminn er 460-0750 og 860 6751. Einnig er hægt senda póst á askrift@vikudagur.is.