Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag og í blaði vikunnar er farið um víðan völl að vanda.

Meðal efnis:

*Mikil gleði braust út á Húsavík á mánudag þegar tilkynnt var hvað lög fengu tilnefningar til Óskarsverðlauna í flokki frumsaminna laga. Eitt þeirra var nefnilega lagið Húsavík, My Hometown eftir Savan Kotcha, Fat Max Gsus og Rickard Göransson, úr kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings sagði í samtali við Vikublaðið að hann væri himinlifandi með tilnefningu Húsavíkur.

*Gönguskíðaæðið á landinu hefur varla farið framhjá mörgum en nánast annar hver maður stundar nú sportið af harðfylgi. Ólafur Björnsson hjá Skíðafélagi Akureyrar hefur ekki farið varhluta af áhuga Akureyringa og annarra landsmanna á gönguskíðasportinu. Ólafur, sem starfar sem kennari við VMA í aðalstarfi, ræddi við Vikublaðið um íþróttina vinsælu.

*Arnór Ragnarsson er 33 ára Húsvíkingur sem starfar sem leiðbeinandi á unglingastigi í Borgarhólsskóla og þjálfar CrossFit á Húsavík. Hann útskrifaðist með diplóma í vefþróun (e. web development) frá Vefskóla Tækniakademíunnar í maí 2017. Arnór tekur æfingarnar alvarlega og reynir að æfa fimm daga í viku. Arnór er Norðlendingur vikunnar.

*Hjalti Þór Hreinsson hefur umsjón með matarhorni vikunnar og kemur með nokkrar úrvalsuppskriftir.

*Skólaráð Glerárskóla á Akureyri hefur sent bréf á bæjaryfirvöld þar sem skorað er á bæinn að endurskoða fjárveitingar til framkvæmda við endurbætur á skólanum með það að markmiði að flýta þeim svo þeim verði lokið eigi síðar en árið 2022. Samkvæmt fjárhagsáætlun sem samþykkt var fyrir 2021-2024 er gert ráð fyrir að haldið verði áfram með framkvæmdir við Glerárskóla á árinu 2023. 

*Áætlað er að nýr íbúðakjarni fyrir fatlaða við Stóragarð á Húsavík verði tilbúinn 1.desember næst komandi. Um er að ræða íbúðakjarna með sex íbúðum auk sameiginlegs rýmis og starfsmannaaðstöðu. Samskonar verkefni hefur áður verið unnið hjá Hafnafjarðabæ.

*Vikublaðið í samstarfi við Háskólann á Akureyri mun næstu vikum kynna vísindafólk Háskólans á Akureyri. Við byrjum á að kynna Guðmund Oddsson sem er dósent í félagsfræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

*KEA hefur afhent styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði félagsins vegna síðasta árs. Þetta var í 87. skipti sem KEA veitir styrki úr sjóðnum en hann á rætur sínar að rekja allt til 1936 þegar fyrsta styrknum var úthlutað úr sjóðnum til Sjúkrahússins á Akureyri.  Frá þeim tíma hafa tæplega 1400 verkefni og einstaklingar fengið fjármunum úthlutað úr sjóðnum.

*Sveinn Arnarsson heldur um Áskorandapennann og Huld Hafliðadóttir skrifar bakþanka vikunnar. 

Smelltu hér til að gerast áskrifandi. 

Nýjast