Vikublaðið kemur út í dag
Vikublaðið kemur út í dag og að vanda er blaðið stútfullt af áhugaverðum fréttum og mannlífsefni.
Meðal efnis:
*Samkvæmt nýrri könnun Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) er meirihluti Akureyringa ánægður með þá ákvörðun bæjaryfirvalda að fella niður minni og meirihlutann líkt og gert var í haust. Spurt var: Nýverið var kynnt nýtt fyrirkomulag í bæjarstjórn Akureyrar. Eftir breytinguna er enginn meiri- og minnihluti til staðar. Hvernig hugnast þér þessi breyting?
*Júlía Margrét Birgisdóttir er einstæð þriggja barna móðir á Húsavík sem nýlega stofnaði Facebook síðu fyrir sjónrænt skipulag sem hefur sprungið út og telur í dag um 4500 fylgjendur. Júlía á tvo syni og eina dóttur en synir hennar eru báðir geindir með einhverfu. Blaðamaður Vikublaðsins ræddi við hana á dögunum um áfallið við að komast að því að drengirnir væru með einhverfu og verkefni hennar að temja þeim sjálfstæði í daglegum athöfnum.
*Ekki er gert ráð fyrir því að strætó gangi frá flugvellinum í nýju leiðarkerfi strætó hjá Akureyrarbæ sem nýlega var kynnt og fjallað var um í síðasta blaði, en lengi hefur verið kallað eftir því að tengja leiðarkerfi strætisvagna við flugvöllinn. Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyri, segir í samtali við Vikublaðið að of kostnaðarsamt sé að tengja strætóleiðarkerfið við flugvöllinn.
*Akureyrarkirkja verður 80 ára á þriðjudaginn kemur þann 17. Nóvember en kirkjan var reist árið 1940. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, segir kirkjuna vera eitt helsta kennileiti bæjarins og tákn hans og bæjarbúum sé annt um kirkjuna. Staðsetning kirkjunnar þykir frábær
*Eins og kunnugt er hefur öllum sundstöðum á landinu verið lokað vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda og er Sundlaugin á Húsavík þar engin undantekning. Tíminn hefur verið nýttur til þarfra verka en viðgerði á snjóbræðslulögnum við inngang sundlaugarinnar stendur nú yfir. Lögnin var einfaldlega ónýt, með tilheyrandi slysahættu eins og í ljós kom síðasta vetur.
*Guðrún Dís Emilsdóttir, eða Gunna Dís eins og hún er oftast nær kölluð býr á Húsavík en hún er gift Kristjáni Þór Magnússyni sveitarstjóra Norðurþings. Þau eiga þrjú börn, Aðalheiði Helgu 12 ára, Magnús Hlíðar 7 ára og Blædísi Borg 4ra ára. Gunnu Dís þarf vart að kynna en hún hefur stýrt vinsælum útvarps og sjónvarpsþáttum um árabil og í seinni tíð er erfitt að hugsa um Eurovisjon sönglagakeppnina án þess að muna eftir Gunnu Dís sem er Norðlendingur vikunnar í blaðinu.
*Steinunn Heba Finnsdóttir og Jóhann Ingi Davíðsson tóku áskorun frá Ásdísi Eydal og hafa umsjón með matarhorninu þessa vikuna. Þau Heba og Jóhann eiga veitingastaðina Strikið og Bryggjuna og eru búin að vera lengi í bransanum. Þau bjóða upp á þriggja rétta kvöldverð.
* Tjörnesingurinn Heiðar Hrafn Halldórsson hefur verið áberandi í hlaupasenu Húsavíkur um all nokkurt skeið en hann er ein af aðalsprautunum í Hlaupahópnum Skokka þar í bæ. Hann hefur líka farið fyrir almenningsíþróttadeild Völsungs og haldið fjölda fyrirlestra um hlaup og heilbrigðan lífsstíl. Almenningsíþróttir hafa spilað lykilhlutverk við að bæta geðheilsu bæjarbúa í Covid-19 faraldrinum og því við hæfi að Heiðar Hrafn sé íþróttamaður vikunnar.
Smelltu hér til að gerast áskrifandi.