20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Viðtal: Þakklát fyrir að geta hjálpað svo mörgum
Júlía Margrét Birgisdóttir er einstæð þriggja barna móðir á Húsavík sem nýlega stofnaði Facebook síðu fyrir sjónrænt skipulag sem hefur sprungið út og telur í dag um 4500 fylgjendur. Júlía á tvo syni og eina dóttur en synir hennar eru báðir geindir með einhverfu. Blaðamaður Vikublaðsins ræddi við hana á dögunum um áfallið við að komast að því að drengirnir væru með einhverfu og verkefni hennar að temja þeim sjálfstæði í daglegum athöfnum. Júlíu er ágætlega lýst sem hlýrri og líflegri ungri konu sem er svolítið eins fiðrildi með sitt leikandi augnaráð, litríka persónuleika og bros sem minnir á sumarið. Hún starfar á leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík og er í sérkennsluteymi leikskólans. Reynsla hennar og þekking á sjónrænu skipulagi nýtist henni afar vel í starfinu og nú eru um 4500 landsmenn sem nota ráð hennar á Facebook-síðunni sem hún stofnaði í fyrstu bylgju Kófsins. „Ég var að „trilla“ í leikskólanum. Ég mátti ekki fara inn á deildir og sá um að labba með matarvagna að deildum, sótthreinsa alla snertifleti og sjá til þess að duglega starfsfólkið fengi kaffisopa. Ef eitthvað vantaði þá redduðu trillur því. Inn á milli var ég með aðstöðu í salnum til að sinna verkefnum tengd jákvæðum aga og margt fleira. Einn daginn var ég að gera hugmynd að sjónrænu skipulagi og fannst það geta hjálpað mörgum og byrjaði á því að setja skipulagið inn á like-síðu leikskólans,“ útskýrir Júlía og bætir við að hún hafi strax fundið fyrir miklu þakklæti frá foreldrum.