20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Viðburðaríkt sumar á Bakkafirði
Það stefnir í einstaklega skemmtilegt og viðburðaríkt sumar á Bakkafirði. Bæjar- og menningarhátíðin Bakkafest, sem sleit barnskónum sumarið 2021, brestur á í þessari viku.
Helgin hefst snemma með sérstökum forviðburði á veitingastaðnum Uss Bistro á Vopnafirði í kvöld, fimmtudagskvöldið 22. júní. Dagskráin heldur svo áfram út laugardag og fjölbreyttir viðburðir í boði, tónleikar, frisbígolfmót, sápubolti og margt fleira. Þá verður glænýtt sjósundskýli að Felli í Finnafirði formlega vígt og boðið upp á grillaðar pylsur af því tilefni - en verkefnið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra fyrr á þessu ári.
Þegar líða fer að hausti munu þau Kristín Heimisdóttir og Sigurður Jóhannes Jónsson bjóða upp á einlæga og fallega stofutónleika á eyðibýlinu Bjarmalandi á Langanesströnd. Þar verða flutt frumsamin lög við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk. Lagt verður upp úr notalegri og heimilislegri stemningu þar sem boðið verður upp á kvöldkaffi að tónleikum. Tónlistar- og ljóðaunnendur ættu ekki að láta sig vanta en allt í allt verða þrennir tónleikar haldnir, þann 9., 10. og 15. ágúst.
Þá var sjómannadagshátíðin Grásleppan haldin í fyrsta sinn í ár og óhætt að fullyrða að hún hafi verið vel heppnuð; frábær dagskrá fyrir börn og fullorðin, leikir, tónlist, gleði og síðast en ekki síst ljúffengir grásleppuréttir!
Þar fengu gestir að bragða á lokaafurðum nýsköpunarverkefnisins Grásleppugæði - sælgæti sjávar sem fékk styrk úr Lóunni á síðasta ári. Hátíðin var annars styrkt af Frumkvæðissjóði Betri Bakkafjarðar og voru það Bakkasystur ehf., björgunarsveitin Hafliði og íbúar og atvinnurekendur á svæðinu sem áttu veg og vanda að skipulagningu og framkvæmd hennar.