Við hvað eruð þið hræddir?

Jón Hjaltason
Jón Hjaltason

Ég er sannfærður um að Akureyringar vilja ekki verja stórfé í að þoka Glerárgötu ögn til austurs. Raunar held ég að miklum meirihluta bæjarbúa þyki sú hugmynd hrein firra. Þeir vilja heldur ekki ausa salti á  götur bæjarins, hvað þá baða þær upp úr sjó-pækli. Flestir vilja allt götusalt út í hafsauga. Og þeir eru afskaplega fáir hér í bæ sem vilja sjá stórhýsi gnæfa yfir Gránufélagshúsunum við Strandgötu – eða yfir höfuð á Oddeyri. Til hvers erum við þá með skipulag og skipulagsyfirvöld ef einstakir verktakar geta síðan byggt eftir eigin höfði og það þvert á ríkjandi aðalskipulag?

Svona gæti ég látið gamminn geisa ansi lengi en er þetta endilega rétt hjá mér? Já, segi ég og stend á því fastar en fótunum. Bæjarfulltrúarnir - að minnsta kosti meirihluti þeirra geri ég ráð fyrir – eru á öðru máli. Hér standa því orð gegn orði en lausnin er einföld. Hængurinn er hins vegar sá að íslenskir stjórnmálamenn hræðast þá lausn meira en nokkuð annað. Þó nota þeir hvert tækifæri til að lofa hana í orði en í verki forðast þeir hana eins og heitan eld. Því miður eru bæjarfulltrúar okkar Akureyringa undir sömu sök seldir.

Ég hlýt því að spyrja: Af hverju er ekki búið að njörva niður ákveðna reglu um íbúalýðræði sem kveður á um að tiltekinn fjöldi atkvæðisbærra kjósenda geti farið fram á bindandi kosningu um til dæmis saltburð á götur bæjarins eða byggingu háhýsa á Oddeyri?

-Jón Hjaltason

Nýjast