30. október - 6. nóember - Tbl 44
Við áramót Logi Már Einarsson
Vefurinn setti sig i samband við þá flokka sem eiga þingmenn i kjördæminu og bauð oddvitum þeirra að sem skrifa pistil til lesenda við áramót. Eins og vera ber og til að gæta alls hlutleysis var dregið um röð flokka í sambandi við birtingu pistla.
Það er Logi M. Einarsson Samfylkingu sem er næstur með sinn pistil.
Við áramót.
Náttúran minnir okkur stöðugt á hvað við erum þrátt fyrir allt vanmáttug andspænis kröftum hennar. Nú síðast hafa jarðhræringar og eldgos hrakið íbúa Grindavíkur frá heimilum sínum, vonandi þó aðeins tímabundið. Sem betur fer hefur ekkert manntjón orðið og er það ekki síst að þakka afburðavísindafólki, öflugum almannavörnum og samstöðu almennings.
Viðbrögð almennings, Alþingis, stjórnvalda og fjölmarga fyrirtækja sýna okkur enn eina ferðina að samhjálp og samtrygging er besta leiðin til að okkur farnist vel. Allir hafa verið samstíga í því að lágmarka óþægindin sem atburðirnir hafa kallað yfir íbúa Grindarvíkur.
Það leiðir svo hugann að því hvaða samfélagsgerð við viljum almennt byggja á. Fjölmargir glíma við mikla erfiðleika sem er ekki hægt að rekja til náttúruhamfara. Sumir eiga sér vissulega rætur hjá okkur sjálfum en aðrir beinlínis vegna ákvarðana og forgangsröðunar stjórnvalda. Í miðjum hörmungunum sem nú ríða yfir Reykjanesskagann ættum við kannski að staldra við og velta því fyrir okkur hvort aukin samtrygging og mikill jöfnuður er ekki einmitt besta uppskriftin að byggja á. Fjölmargar rannsóknir styðja það og sýna að mikill jöfnuður er líklegasta leiðin til að skapa kröftugt, friðsælt og framsækið samfélag.
Ný samþykkt fjárlög voru í þessu samhengi mikil vonbrigði. Þau gera lítið til að verja heimilisbókhald almennings í hárri verðbólgu og ljóst að hækkandi vextir húsnæðislána eiga eftir að höggva talsvert skarð í buddu flestra heimila á næstu mánuðum. Þrátt fyrir þetta samþykktu ríkisstjórnarflokkarnir fjárlög, sem munu ýta 5000 heimilum landsins út úr vaxtabótakerfinu og lækka raunvirði barna- og húsnæðisbóta. Þetta ýtir undir ójöfnuð og er sannarlega ekki uppbyggilegt innlegg í komandi kjaraviðræður.
Önnur ásýnd ójöfnuðar birtist í því hvar fólk býr. Samfara því að íbúaþróun Íslendinga hefur verið leyft að þróast með þeim hætti að hlutfall íbúa höfuðborgarsvæðins hefur vaxið úr 10% í 70 % á rúmri öld, hefur þjónusta utan þess gefið mikið eftir. Heilbrigðisstofnanir, löggæsla, háskólar og framhaldsskólar eru víða van fjármögnuð og ekki nægileg sókn í samgöngumálum. Allt þetta rýrir búsetuskilyrði okkar sem búum á landsbyggðunum. Í sumum tilfellum neyðist fólk jafnvel til að flytja á suðvestur hornið vegna skorts á þjónustu í heimabyggð. Þetta vindur uppá sig og veikir samkeppnistöðu byggðakjarna þar gagnvart höfuðborgarsvæðinu.
Margt hefur vissulega verið vel gert, s.s. ný flugstöð og flughlað á Akureyrarflugvelli, og því ber vissulega að fagna en annað hefur einfaldlega valdið samfélagi okkar miklum skaða eins og til dæmis lokun fangelsisins á Akureyri. Akureyri og Eyjafjörður eru einn fárra staða á landinu sem á möguleika að standa höfuðborgarsvæðinu einhvern snúning og við megum ekki láta mótsagnakenndar og stundum tilviljanakenndar ákvarðanir stjórnvalda ráða framtíð bæjarins okkar.
Það er hagur alls landsins og skynsamlegt byggðaverkefni að setja miklu meira púður í að efla Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið. Ég er sannfærður um að fyrir því er breiður samhljómur meðal flokka á Alþingi. En það þarf að taka af skarið og fylgja slíku verkefni eftir af festu og með úthaldi, næstu ár og áratugi.
Nú skartar náttúra Norðurlands sínu fegursta; vetrarríkið alltumlykjandi og hér er vissulega gott að búa en við getum byggt hér upp enn betra samfélag.
Gleðilegt nýtt ár.