Verum neikvæð á réttum forsendum
Skorað var á mig að skrifa pistil. Um hvað sem er. Þessa dagana kemst fátt annað að í lífi mínu en vinnan mín, barnauppeldi, heimilishald og BA ritgerðin sem ég er að skrifa. Ég ætla ekki að skrifa um lífið á pósthúsinu (sem er mjög ljúft), ekki um börnin mín (sem eru best, svona lang oftast), ekki um brjóstagjöf og mömmuleiki og ekki heldur um heimilið mitt (sem ber þess merki hve mikið er að gera). Hvað stendur eftir? Jújú, BA ritgerðin, sem fjallar í grófum dráttum um viðhorf til flóttafólks og hælisleitenda, en það er málefni sem er mér mjög hugleikið.
Mér finnst bæði í senn, áhugavert og sorglegt, hvernig viðhorf til flóttafólks og hælisleitenda er oft byggt á röngum forsendum. Semsagt, fólk byggir neikvæðar hugmyndir á rökum sem ekki eiga rétt á sér. Ef við ætlum að vera reið, neikvæð og mótfallin móttöku flóttafólks, getum við í það minnsta farið með rétt mál og marktækt?
Gerum við okkur grein fyrir til hvers við ætlumst af þeim sem eru skilgreindir sem flóttafólk og hælisleitendur? Við ætlumst til þess að þeir opni sig upp á gátt fyrir okkur, sýni okkur sár sín og sanni hvað þeir hafa gengið í gegnum til þess að við teljum þá verðskulda að setjast hér að. Það, að fólkið er að flýja heimaland sitt virðist ekki nóg. Hvers vegna þurfum við alltaf að efast um sannleiksgildi og trúverðugleika þess? Mér finnst það ákaflega sorglegt. Enginn flýr að gamni sínu, við skulum alveg hafa það á hreinu. Oft kallar flóttinn á mjög hættulega ferð, sem sumir ná ekki einu sinni að klára.
Eftir því sem ég kemst næst, virðast helstu áhyggjur Íslendinga af móttöku flóttafólks og hælisleitenda snúa að kostnaði. Margir hafa gríðarlegar áhyggjur af því að þeir hafi af okkur bætur og þjónustu og að ríkið geti hreinlega ekki fjármagnað þessa þjónustu.
Vissulega neytir flóttafólk meira til að byrja með en það greiðir í skatta, en hvað svo? Málið er, að þetta hefur verið skoðað og ég ætla að segja bara frá pínulitlu broti af því. Ég reyni að hafa það ekki of þurrt og leiðinlegt, lofa.
Árið 2016 var nefnilega gefin út skýrsla (ef einhver vill gúggla, er höfundurinn Philippe Legrain). Í skýrslunni kom alls konar fram, en til að nefna mjög skýrt og stutt dæmi, segir þar: „Að fjárfesta einni evru í móttöku flóttafólks, getur samsvarað tæplega tveimur evrum í efnahagslegum ávinningi innan fimm ára“. Gott, ekki satt?
Þannig að jú, við komu flóttafólks í nýtt land er notast við opinbert fé, en það er bara fyrst. Til lengri tíma mun „fjárfestingin“ (eins og Philippe kallar þetta) sannarlega skila sér. Þetta nýja fólk stuðlar svo að hækkun í landsframleiðslu og aukinni framleiðni, bara svona til að nefna dæmi. Við skulum svo muna það, að oft eru það innflytjendur, þ.á.m. flóttafólk sem vinnur störf sem innfæddir jafnvel vilja síður og menntaða og reynsluríka flóttafólkið getur svo fyllt upp í eyður á vinnumarkaði. Svo er það skemmtileg staðreynd að það er frekar algengt að flóttafólk stofni ný fyrirtæki og ráði þangað heimamenn.
Annað sem kom fram í rannsókninni, var að flóttafólk mætir gjarnan miklum hindrunum í atvinnumálum og atvinnurekstri og skilur það eftir djúpstæð áhrif. Flóttafólkið upplifir sig misheppnað og innfæddir finna til gremju í garð þess og sakar það um að lifa á kerfinu og nenna ekki að vinna – þó það eigi það ekki skilið.
Enn annað sem virðist valda fólki áhyggjum, er öryggi. Öryggi flóttafólksins er þó frekar stefnt í hættu, en okkar Íslendinga. Þess má geta að meira en 4000 manns hafa látist síðan 2014 vegna flutninga yfir landamæri. Þessar tölur ná aðeins til þeirra sem eru skráðir, svo við getum rétt ímyndað okkur hver hin raunverulega tala er.
Ef það eru hryðjuverk sem fólk tengir við flóttafólk, er ágætt að hafa í huga að flest flóttafólk er að flýja nákvæmlega það sem við hræðumst; ofbeldi, stríð, ofsóknir og fleira. Eða eins og flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði: „Refugees don‘t bring danger to us, they flee from dangerous places“ = Flóttafólk kemur ekki með hættuna til okkar, það flýr hættulega staði.
Svo er það fólkið sem hefur áhyggjur af því að landið muni fyllast af flóttafólki. En samkvæmt opinberum tölum, er hópur flóttafólks aðeins lítið hlutfall alls fólksflutnings í flestum löndum, svo hættan er afar lítil.
Stundum er meira að segja reiknað með, án nokkurs rökstuðnings, að óreglulegir innflytjendur (sem flóttafólk og hælisleitendur flokkast til) komi til nýrra landa með slæmar fyrirætlanir. Tvær algengar ásakanir eru að þeir taki þátt í ólöglegum athöfnum og að þeir tengist útbreiðslu smitandi sjúkdóma, t.d. HIV. Báðar þessar ásakanir eru grófar alhæfingar. Sumir eru vissulega glæpamenn og sumir eru með smitsjúkdóma - en fyrir flesta gildir hvorugt. Slíkar rangfærslur án sönnunargagna skemma fyrir öllum óreglulegum innflytjendum. Ekki aðeins það, heldur dregur það athygli frá þeim sem eru í raun og veru afbrotamenn og ættu að vera sóttir til saka – sem og þeirra sem eru veikir og þyrftu að fá viðeigandi læknismeðferð.
Það sem ég er að reyna að koma til skila í þessum pistli er: Byggjum áhyggjur okkar og neikvætt viðhorf á staðreyndum, ekki tilbúnum hugmyndum og staðalímyndum sem eiga ekki við rök að styðjast.
Máttur orðræðu er gífurlegur, en hverra er ábyrgðin? Við búum til staðalímyndir með því að tjá okkur og oft gerum við okkur ekki grein fyrir þunga orðanna sem við, jafnvel í hugsunarleysi, látum falla. Við getum með öðrum orðum dreift mjög miklu magni af mjög röngum upplýsingum sem aðrir grípa á lofti, bara ef það er nógu sannfærandi. Það er aðeins einn meginmunur á mér og hælisleitanda. Ég var svo heppin að fæðast á Íslandi, en hann fæddist í land sem er ekki öruggt fyrir hann. Við viljum meira að segja bæði það sama í grunninn; öruggt líf.
Ég ætla nú ekki að leita langt varðandi næstu áskorun, en hana hlýtur mamma mín, Anna Dóra Gunnarsdóttir.
-Katrín Eiríksdóttir