20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Verðskrá Norðurorku hækkar frá 6,6% upp í 12% um áramót
Verðskrá Norðurorku hækkar um áramót á bilinu frá 6,6% og upp í 12%. Norðurorka rekur fráveitu, vatnsveitu, rafveitu og hitaveitu.
Ráðast þarf í kostnaðarsamar rannsóknir, fjárfestingar og framkvæmdir á vegum hitaveitu á næstu árum. Framkvæmdaáætlun fyrir hitaveitu gerir ráð fyrir ríflega 850 milljón króna fjárfestingum á næsta ári og 3,5 milljörðum ef litið er til næstu fjögurra ára. Nauðsynlegt er að hækka hitaveitu til að standa undir miklum framkvæmdum og fjárfestingum. Forstjóri lagði til 12% hækkun um komandi áramót sem stjórn samþykkti.
Verðskrá rafveitu verður hækkuð um 10%, en fram kemur í fundargerð stjórnar Norðurorku að magn dreifðrar orku hafi lítið breyst í mörg ár þrátt fyrir fjölgun íbúða, en en nú sjáist merki um aukningu sem megi rekja til rafbílavæðingar. Tekjur hafi verið vanteknar í nokkur ár og talsvert vantað upp á að tekjumörk séu nýtt til fulls. Gjaldskrá rafveitu hækkaði um 11% um síðustu áramót og 4,9% 1. Ágúst síðastliðinn og nú hefur verið samþykkt hækkun um 10%.
Rekstur bæði vatnsveitu og fráveitu er í jafnvægi og tekjur standa undir rekstri. Kostnaðarsamar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á næsta ári bæði hvað varðar vatn- og fráveitu en þó talið að nýjar tekjur muni duga til að mæta kostnaði til lengri tíma. Samþykkt hefur verið að hækka verðskrá vatns- og fráveitu um 6,6%.