Verðlaunaður fyrir framúrskarandi námsárangur

Halldór Tumi unir sér vel í laganáminu sem hann lenti í fyrir slysni. Mynd/ Lagadeild HR.
Halldór Tumi unir sér vel í laganáminu sem hann lenti í fyrir slysni. Mynd/ Lagadeild HR.

Halldór Tumi Ólason frá Húsavík er að það gott í Háskólanum í Reykjavík (HR). Hann er á öðru ári í laganámi við skólann en honum voru afhent á dögunum svokölluð Hvatningarverðlaun Codex fyrir frábæran námsárangur eftir fyrsta árið í lögfræði þ.e. skólaárið 2020-2021.

„Ég komst á svo kallaðan forsetalista á síðasta skólaári sem er fyrir þá sem standa sig best í náminu. Það átti að afhenda þessi verðlaun þá en það tafðist eitthvað hjá Codex og þau voru því afhent núna,“ segir Halldór Tumi í samtali við Vikublaðið.

Hvatningarverðlaun Codex eru afhent þeim nemanda sem hlýtur hæstu meðaleinkunn í öllum námskeiðum á fyrsta námsári við lagadeild HR .

Halldór Tumi segir að það sé vissulega gaman að fá svona verðlaun og spurður hvort að baki árangrinum liggi þrotlaus vinna eða hvort námið liggi einfaldlega svona vel fyrir honum; svaraði hann:

„Ég á eiginlega ekki gott svar handa þér, ætli það sé ekki sitt lítið af hvoru. Þetta er eiginlega afrakstur raða tilviljana. Það var alveg óvart sem ég lenti þarna inni í laganámi,“ segir hann og hlær.

 Ætlaði í viðskiptafræði

„Ég var á sjó úti við Bakkafjörð sumarið 2020 og bað pabba um að sækja um fyrir mig í viðskiptafræði hjá HR,“ segir Halldór Tumi en faðir hans er Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga. „Hann feilaði eitthvað kallinn og sótti óvart um lögfræði. Ég ætlaði að sækja um viðskiptafræði, fjármálaverkfræði og fleira en það endaði svona skemmtilega. Svo finnst mér þetta bara mjög gaman og laganámið liggur vel fyrir mér.“

Halldór Tumi segist kunna ágætlega við sig í höfuðborginni en nýti hvert tækifæri til að koma heim.

„Borgin er ágæt og HR hefur reynst mér vel í  gegnum þetta. Þeir hafa boðið mér upp á streymimöguleika í náminu þó að þeir kenni í staðnámi að jafnaði. Ég hef því getað verið mikið heima á Húsavík og nýtt mér aðstöðuna hjá pabba í Þekkingarnetinu. Það hefur reynst vel,“ segir þessi efnilegi ungi maður að lokum.

Smellið gif

Nýjast