Velta í landbúnaði á svæðinu allt að 40 milljarðar króna
Landbúnaður er mjög stór og mikilvæg atvinnugrein í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu en á því svæði eru rúmlega 120 kúabú. Áætla má að velta landbúnaðarins á þessu sama svæði sé á milli 30 og 40 milljarðar króna þegar allt er tekið, þ.e. velta bænda í öllum greinum og afurðastöðvanna. Þetta kom fram á fjölmennum fundi sem Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður XD í Norðausturkjördæmi boðaði til, en um 100 manns mætt til fundarins.
,,Það er ekki ofsögum sagt að staða bænda sé erfið og þeir séu á ákveðnum krossgötum, staðan er mjög alvarleg. Annars vegar er um skammtímavanda að ræða sem orðið hefur til á sl. tveimur árum, kostnaðarhækkanir í aðföngum hafa verið miklar. Það fór að bera á vandamálum í aðfangakeðjunum í heimsfaraldrinum og í beinu framhaldi af honum ráðast Rússar inn í Úkraínu og miklar hækkanir verða á áburði og kjarnfóðri. Í framhaldinu fara stýrivextir á fulla ferð fyrir rúmu ári og róðurinn hjá bændum fer að þyngjast mikið. Bændur víða og þá sérstaklega í kúabúskapnum lenda á vegg í fyrrahaust vegna hás fjármagnskostnaðar í beinu framhaldi af háum kostnaðarhækkunum í tilbúnum áburði sem hækkaði um tæp 130% á skömmum tíma og kjarnfóðrið hækkaði um tugi prósenta,“ segir Njáll Trausti.
Miklar kröfur gerðar um hagræðingu
Stöðugar kröfur um hagræðingu , auknar kröfur um betri aðbúnaði gripanna, stærra húsnæði og miklar fjárfestingar í mjaltaróbótum, mjólkurkvóta svo eitthvað sé nefnt gerir það að verkum að fjárbindingin í rekstrinum er mikil og margir bera há lán og því viðkvæmir fyrir háu vaxtastigi. „Það er gerðar miklar kröfur til bænda um að hagræða í sínum rekstri, þeir eru langflestir að reka heimili sitt og rekstur búanna á eigin kennitölu og því mikið álag á þeim þegar svona orrahríð gengur yfir,“ segir hann.
Njáll Trausti segir að til lengri tíma þurfi að skoða búvörusamninga sem reyndar eru til endurskoðunar núna. Núverandi búvörusamningur hefur gildistíma til ársins 2026.„Það er mikilvægt að horfa til framtíðar, lykilatriðið er að tryggja stöðu matvælaframleiðslu í landinu og fæðuöryggi sé tryggt til langrar framtíðar. Hér er kannski rétt að minnast á að í mínum störfum sem formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins er mikil áhersla lögð á í aðildaríkjum bandalagsins að tryggja fæðuöryggi enda líta þjóðir almennt á það sem hluta af sínum þjóðaröryggismálum.“
María Svanþrúður Jónsdóttir ráðunautur hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins flutti framsögu á fundinum og fór m.a. yfir rekstrarlega stöðu bænda og segir Njáll Trausti það hafa verið mjög fróðlega að heyra hvernig staðan hefur þróast síðastliðið ár.
Staða bænda liggur þungt á þeim