Vegagerðin setur upp sterkara vegrið ofan við Þelamerkurskóla
Vegagerðin stefnir að því að skipta út núverandi vegriði ofan við Þelamerkurskóla fyrir sterkara vegrið með öryggisendum að sögn Rúnu Ásmundsdóttur deildarstjóra hjá Vegagerðinni á Akureyri. Öryggisendar eru eftirgefanlegar einingar sem settar eru á enda vegriða í stað þess að leiða þau ofan í jörð.
Umferðaröryggi við Þelamerkurskóla var talsvert í umræðu í fyrrasumar eftir að m.a. foreldrafélag vakti athygli á málinu. Fræðslunefnd Hörgársveitar mæltist á dögunum til þess að enn og aftur yrði skorað á Vegagerðina að sjá til þess að umferðarhraði við skólann verði lækkaður og að umferðaröryggi við hann yrði bætt nú þegar. Sveitarstjórn hefur tekið undir með fræðslunefnd.
„Við erum búin að panta vegriðið og ég vona að við fáum það sem fyrst svo hægt verði að setja það upp í sumar,“ segir Rúnar. Vegriðið verður um 300 metra langt, með öryggisenda sitt hvoru megin og er það hannað til að þola árekstur þyngri ökutækja en núverandi vegrið.
Meðalhraðinn um 88 kílómetrar yfir daginn
Rúna segir að í kjölfar ábendinga frá íbúum og sveitarfélagi hafi Vegagerðin gert umferðartalningu og hraðamælingu á Hringvegi við Þelamörk og fór hún fram dagana 5. - 17. maí 2023. Samkvæmt mælingunni var meðalhraði ökutækja á veginum 88 km/klukkustund. Um 85% ökumanna keyrðu undir 99 kílómetra hraða og helmingur þeirra sem óku veginn voru undir 90 kílómetra hraða á klukkustund.
Hæsta mæling á tímabilinu var 167 km/klst á föstudagskvöldi rétt fyrir miðnætti. Meðalhraði frá kl. 8 að morgni til 19 að kvöldi var 87,6 kílómetrar á klukkustund og hækkaði í 91,3 kílómetra á klukkustund frá 19 að kvöldi til 8 að morgni.
Hraði aðeins lækkaður við hættulegar aðstæður
Vegagerðin sá að sögn Rúnu ekki ástæðu til að lækka hámarkshraða á þessu vegakafla eftir hraðamælinguna, en nú ákveðið hefði verið að setja upp sterkara vegrið með öryggisendum á svæðinu ofan við skólann. Rúna bendir á að á við vegamót við Þelamörk sé ásættanleg vegsýn, lýsing og framhjáakstursbunga þannig að vegurinn og vegamótin uppfylli kröfur um 90 kílómetra hámarkshraða.
Rúna segir greiðar samgöngur og umferðaröryggi ávallt forgangsatriði í vinnu starfsmanna Vegagerðarinnar. Vegagerðin setji þó ekki upp hraðahindranir á Hringvegi utan þéttbýlis og hraði er aðeins lækkaður ef þörf er á því við hættulegar aðstæður t.d. vegna umferðar óvarinna vegfarenda sem þvera veg eða vegna hættulegra tenginga. „Reynslan hefur einnig sýnt að það að lækka hámarkshraða hefur takmörkuð áhrif á raunhraða ef ekkert annað er gert í umhverfi veganna sem minnir vegfarendur á að lækka hraðann,“ segir hún.
Nýja vegriðið sem áætlað er að setja upp upp í sumar þolir árekstur við þyngri ökutæki en núverandi vegrið.