Vaxandi ásókn í heitan læk í Vaðlaheiði

Á vefsíðunni wonderguide er að finna leiðbeiningar um hvernig komast má í heita lækinn handan Akure…
Á vefsíðunni wonderguide er að finna leiðbeiningar um hvernig komast má í heita lækinn handan Akureyrar og birtar myndir af fólki að baða sig þar.

„Það hefur stundum munað litlu að illa færi,“ segir Elísabet Inga Ásgrímsdóttir formaður umhverfis- og atvinnumálanefndar Svalbarðsstrandahrepps, en nefndin hefur fjallað um sívaxandi umferð fólks sem sækir í að baða sig í læk neðan Vaðlaheiðaganga. Heitt affallsvatn úr göngunum rennur út í lækinn sem er um 30°C heitur. Fólkið leggur bílum sínum á malarpúða í nágrenninu sem ekki eru til þess ætlaðir og hefur að sögn Elísabetar hurð skollið nærri hælum af og til þegar bílum er ekið fyrirvaralaust út í umferðina á Grenivíkurvegi.

„Við fórum að taka eftir þessu þegar leið á sumarið, umferðin jókst og mjög margir virtust sækja í þennan nýja og ókeypis „baðstað,“ segir hún. Í ljós kom að gestir höfðu póstað myndum og meðmælum á samfélagsmiðla, þar sem dásamað er hversu notalegt sé að baða sig í læknum undir berum himni undir stjörnubjörtum himni. Og herlegheitin kostuðu ekki krónu.

 Umhverfis- og atvinnumálanefndin vakti í kjölfar aukinnar umferðar athygli á því hættuástandi sem myndast hefur við Grenivíkurveg í námunda við Vaðlaheiðagöngin. „Við höfum miklar áhyggjur af þeim aðstæðum sem hafa skapast þarna og erum að auki að benda á að í læknum er mengað affallsvatn úr göngunum sem fólki er ef til vill ekki kunnugt um,“ segir Elísabet. Nefndin hefur hvatt þær stofnanir sem málið snerti að koma í veg fyrir hættu sem þarna er fyrir hendi og upplýsa að auki um hvers konar vatn  það er sem baðgestir sækja í. Í vatninu geti sem dæmi verið tjara úr dekkjum bíla og fleira sem blandast því inn í göngunum.

Elísabet bendir á að engin sérstök bílastæði séu fyrir hendi, en malarpúðar í námunda við lækinn séu notaðir sem stæði. „Við sem eigum heima í sveitinni og ökum oft um veginn erum farin að vara okkur á aukinni umferð á þessum slóðum en það gildir ekki um alla sem þarna aka. Það er hætta á að þarna verði óhapp í umferðinni,“ segir hún og bætir við að stígur niður með læknum sé heldur ekki upp á marga fiska.

Elísabet segir að ræddar hafi verið hugmyndir eins og að setja vatnið í stokk, þannig að ekki væri lengur í boði að skella sér út í lækinn. „En þá auðvitað kemur upp spurningin um hver eigi að borga, en til að byrja með viljum við benda á að þarna hefur skapast hættuástand sem þarf að taka á.“

Á eigin ábyrgð

„Við skiptum okkur í sjálfu sér ekki af því hvar fólk kýs að baða sig,“ segir  Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. „En bendum á að það er ekkert fylgst með efna- eða örverufræðilegu ástandi baðvatnsins og það er engin laugargæsla á svæðinu en krafa er um hvort tveggja á sund- og baðstöðum sem hafa starfsleyfi og lúta reglubundnu eftirliti heilbrigðiseftirlitsins. Þeir sem kjósa að baða sig þig þarna verða því að vera meðvitaðir um að þeir eru á eigin ábyrgð hvað varðar heilnæmi vatnsins og öryggismál að öðru leyti.“

Ekki óhollara en hver annar lækur

Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðaganga segir að ekki geti verið óhollara að baða sig í umræddum læk fremur eða öðrum lækjum á Íslandi. „Þetta er ekki ósvipað og við Reykjaá við Hveragerði sem er í raun bara volgur lækur sem nú er orðið vinsæla að ganga að og leggjast í,“ segir hann.

Valgeir segir að um sé að ræða „hreint“ jarðvatn úr göngunum, um 30°C þar sem það rennur í og sameinast læknum sem þegar var til fyrir framkvæmdir. Miklar rigningar auka magnið í bæjarlæknum og þá er það frekar kalt og aðsókn lítil, en einkum komi fólk í lækinn þegar veður er gott. Innkeyrslan sé að grjótlager sem sveitarfélagið eigi og ef það vilji ekki bíla þar gætu þeir lokað innkeyrslunni t.d. með steinum.

 

 Bílastæðið og ,,ytri-búningsklefinn"

Nýjast