13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Vanfjármögnun í málaflokki fatlaðra stærsti einstaki þátturinn
- Gert er ráð fyrir að halli á rekstri Akureyrarbæjar verði rúmar 600 milljónir króna samkvæmt fjárhagsáætlun sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í vikunni.
Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórar segir hallann í stórum dráttum skýrast af töluverðum launahækkunum, betri vinnutíma og vanfjármögnun í málaflokki fatlaðra, sem er stærsti einstaki þátturinn.
„Það er sérstakt áhyggjuefni að okkur sveitarfélögum og ríki skuli ekki takast betur að meta það hvernig skipting tekjustofna milli þessara tveggja stjórnsýslustiga þarf að vera til þess að þjónusta viðkvæmustu hópa samfélagsins sem best,“ segir Halla Björk.
Mikið vantar upp á vegna málaflokks fatlaðra
Mikla fjármuni vantar frá ríki til bæjarins vegna málaflokks fatlaðra á árinu 2022 og hleypur sú upphæð á hundruðum milljóna. Halla Björk segir að í raun sé ríkið því að setja fram niðurskurðarkröfu á sveitarfélagið sem því nemur. Þess utan séu oft sett ný lög sem auki kröfur í lögbundnum málaflokkum sveitarfélaga sem hækka rekstrarkostnað, án þess að lögin hafi verið kostnaðarmetin eða rætt um hvernig eigi að skipta fjármögnun á milli ríkis og sveitarfélag. Það segir hún að sé óviðunandi.
Halla Björk segir að þrátt fyrir að hart sé í ári séu ýmis jákvæð teikn á lofti eins og að „Akureyri eigi eftir að verða sú svæðis „borg“ sem okkur dreymir um og haldi áfram að laða til sín fólk og fyrirtæki. Það er sérstaklega ánægjulegt að skoða þær miklu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í sveitarfélaginu á næstu misserum sem og að fólksfjölgun hefur verið með allra mesta móti á árinu og ekkert sem bendir til þess að svo verði ekki áfram,“ segir hún.
/MÞÞ