Úthlutað úr Velferðarsjóði Þingeyinga
Velferðarsjóður Þingeyinga stendur fyrir jólaúthlutunum til Þingeyinga eins og undanfarin ár í formi inneignarkorta í Netto. Auk þess munu meðlimir í Kiwanisklúbbnum Skjálfanda deila út matarkössum í samstarfi við Norðlenska. Fiskeldið Haukamýri gefur fisk eins og undanfarin ár og ónefnt félag sér til þess að umsækjendur sjóðsins fái malt og appelsín með jólamatnum.
Sólveig Halla Kristjánsdóttir sóknarprestur á Húsavík segir að þörfin á aðstoð um jólin sé svipuð og undanfarin ár en alls bárust um 50 umsóknir. „Það hlýjar manni um hjartað að fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar að styrkja þá sem minna mega sín í gegnum sjóðinn. Það skiptir okkur öllu máli því jólamánuðurinn getur verið þungur hjá mörgu fólki,“ segir hún.
Sólveig Halla segir að allar umsóknir hafi verið samþykktar þrátt fyrir að enn vanti upp á að sjóðurinn nái upp í kostnaðinn. „Sjóðurinn stendur höllum fæti eins og er. Það þýðir að í raun og veru er ekki innistæða fyrir þeim úthlutunum sem samþykktar hafa verið í desember,“ segir Sólveig Halla en bætir við að allar umsóknir verði afgreiddar þó taka verði tímabundinn yfirdrátt fyrir úthlutunum.
Hún segir að án frjálsra framlaga frá einstaklingum fyrirtækjum og félagasamtökum væri ekki hægt að standa fyrir þessum úthlutunum sem svo sannarlega er þörf á. „Ég vil koma því á framfæri að ég þakka öllum sem hafa gefið í sjóðinn en án þeirra væri þetta ekki hægt.“
Fyrir rúmu ári síðan var ákveðið að úthluta úr sjóðnum fjórum sinnum á ári í stað tvisvar eins og áður var. „Sama manneskjan getur því sótt um og fengið úthlutað fjórum sinnum yfir árið auk jólaaðstoðar. Hugsanlega ef sjóðurinn stendur tæpt eftir áramót þá munum við endurskoða úthlutunarreglurnar,“ segir Sólveig Halla en bætir við að hún sé vongóð um að enn eigi eftir að berast framlög í sjóðinn áður en slíkar ákvarðanir verði teknar.
Hægt er að styrkja Velferðarsjóð Þingeyinga með því að leggja inn á eftirfarandi reikningsnúmer: 1110-05-402610
Kennitala: 600410-0670.