20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Úthluta landi vegna skógræktar við Saltvík
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á dögunum tillögu Skipulags- og framkvæmdaráðs um að Yggdrasil Carbon verði úthlutað landi skv. fyrirliggjandi tillögu í stað þess lands sem Minjastofnun telur tilefni til að vernda. Nýr samningur um landafnot verði til samræmis við ákvæði fyrirliggjandi samnings, sem hins vegar úreldist með nýjum samningi.
Soffía Gísladóttir B-lista sagði málið eiga sér langan aðdraganda eða allt til haustsins 2022 þegar Kolviður óskaði eftir auknu landrými til skógræktar en Norðurþing hafði áður, árið 2019 úthlutað Kolviði 100 hektara lands til skógræktar við Ærvíkurhöfða, að undangenginni skoðun á landinu.
„Við afgreiðslu málsins í sveitarstjórn benti fulltrúi VG á þann möguleika að ræða við fleiri sambærilega aðila s.s. Yggdrasil og gera samanburð á mögulegum útfærslum. Það fór svo að Kolviður og Yggdrasil gerðu Norðurþingi tilboð og ákvað Norðurþing að taka tilboði Yggdrasils haustið 2022,“ sagði Soffía.
Í nóvember á síðasta ári barst sveitarstjórn hins vegar bréf frá Minjastofnun þar sem lagst var gegn skógrækt á því svæði sem úthlutað hafði verið vegna fornminja og lagði til skógræktar svæði ofan eða austan við forngarðinn.
Óskað eftir nýju landi
Því var óskað eftir nýju landsvæði sem nú hefur verið samþykkt að úthluta félaginu. Upphaflega átti að taka málið fyrir á síðasta fundi sveitarstjórnar fyrir áramót en því var frestað vegna erindis sem barst frá Náttúrustofu Norðausturlands þess efnis að Norðurþing félli frá skógrækt á þessu svæði vegna fuglaverndunarsjónarmiða.
Soffía tók það sérstaklega fram að ekki væri verið með afgreiðslunni verið að veita framkvæmdaleyfi heldur aðeins nýju landsvæði.
„Sú skógræktaráætlun sem lá fyrir á fyrra landssvæði sem Yggdrasil fékk úthlutað er mjög vel unnin en fjallaði þó ekki um áhrif á fuglalíf sem mun verða óskað eftir í nýrri áætlun,“ sagði Soffía og bætti við að verkefnið væri spennandi og að þessi leið að fá hlutdeild í tekjum vegna kolefnisbindingar væri jákvæð.
Vildu fresta málinu
Nokkrir fulltrúar V og M lista lögðust gegn tillögunni um að úthluta Yggdrasil landinu í ljósi umsagnar Náttúrustofu. Voru vinnubrögð við afgreiðslu meirihluta skipulags- og framkvæmdaráðs á umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Saltvíkur gagnrýnd í bókun fulltrúanna sem telja að sjónarmið Náttúrustofu hafi verið hunsuð.
„Náttúrustofan er rannsóknarstofnun með mikla sérþekkingu á náttúrufari svæðisins og ábendingar hennar ætti því að taka alvarlega og ekki hunsa nema að vel ígrunduðu máli. Svo virðist þó ekki hafa verið gert í þessu máli.
Í fyrstu ábendingunni var bent á að fyrirhuguð skógrækt yrði í vel grónu mólendi sem lítið er af við Húsavík. Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs fullyrðir hins vegar að mólendið sé rýrt án þess að geta heimilda eða hvernig komist er að þeirri niðurstöðu. Miðað við vistgerðakort Náttúrufræðistofnunar Íslands verður ekki annað séð en að meiri hluti svæðisins sé gróðurríkt mólendi,“ segir m.a. bókuninni.
Bókuninni fylgdi tillaga um að málinu verði frestað og það verði sent aftur til skipulags- og framkvæmdaráðs og það skoðað betur áður en ákvörðun verður tekin. Tillagan var felld.