Útbúa vinnuaðstöðu þar sem áður var leikskóli

Karen Nótt Halldórsdóttir formaður hverfisráðs Grímseyjar og félagsmaður í Kvenfélaginu Baugi í Grím…
Karen Nótt Halldórsdóttir formaður hverfisráðs Grímseyjar og félagsmaður í Kvenfélaginu Baugi í Grímsey er á innfelldu myndinnni.

mth@vikubladid.is

 „Áhuginn er greinilega mikill því von er á fyrstu gestunum síðar í mars en við höfum ekki auglýst neitt, þetta hefur bara spurst út,“ segir Karen Nótt Halldórsdóttir formaður hverfisráðs Grímseyjar og félagsmaður í Kvenfélaginu Baugi í Grímsey.

Kvenfélagið Baugur fékk 1,6 milljónir króna við úthlutun í verkefninu Glæðum Grímsey sem staðið hefur yfir undanfarin ár og er innan Brothættra byggða á vegum Byggðastofnunar. Karen Nótt segir að Baugskonur vinni við það þessa dagana að koma upp vinnuaðstöðu fyrir fólk sem vill dvelja tímabundið í Grímsey og starfa þar. Kvenfélagið hefur til umráða húsnæði í Félagsheimilinu Múla þar sem áður var starfrækt leikskóladeild, en ekkert skólahald hefur verið í Grímsey frá árinu 2019.

Pláss fyrir þrjá til að byrja með

„Við munum nýta þetta pláss og koma upp aðstöðu, til að byrja með fyrir þrjá. Við erum búnar að tæma húsnæði, þrífa það og mála og næsta skref er þá að laga aðeins betur til, innrétta, kaupa húsgögn og búnað og koma þessu formlega af stað,“ segir Karen Nótt.

Hún segir að Íslendingar hafi verið duglegir að heimsækja Grímsey undanfarin tvö sumur og þá hafi mikið verið spurt hvort til staðar væri einhver vinnuaðstaða fyrir fólk sem vildi draga sig úr skarkala þéttbýlisins og njóta næðis í eynni. „Við fórum að hugsa um þetta í kjölfarið og þegar við höfðum styrkinn í höndunum var okkur ekkert að vanbúnaði að hefjast handa.“

Hún segir að vissulega hafi fólk komið um árin til Grímseyjar og unnin þar, verið á gistiheimilinu t.d. en nú verði í fyrsta sinn hægt að bjóða upp á góða aðstöðu fyrir þá sem vilja vinna frá eynni, um lengri eða skemmri tíma.

Nýjast