Uppgangur í hjólreiðum með tilkomu rafhjóla
,,Akureyri hentar ekki til hjólreiða” var oft sagt og var þá verið að vísa til Gilsins og Þórunnarstrætis sem ekki voru á allra færi að hjóla upp. Svo sannfærðir voru menn um þessa ,,staðreynd” að þegar hjólreiðar fóru að aukast með tilkomu ,,hjólað í vinnuna” komst hjólalyfta upp Gilið í kosningaloforðalista stjórnmálaflokka, þetta var fyrir aðeins en 10 árum.
Sú var tíð að hjól voru til á flestum heimilum en voru þau helst brúkuð til að fara út að hjóla með börnunum. Síðan þá hefur margt breyst en með tilkomu rafmagnshjóla virðist sem slétt hafi verið úr brekkunum í bænum og sjást æ fleiri hjólarar á stígum og götum á leið til og frá vinnu eða sér til heilsubótar.
Nú virðist stærsta spurningin vera ,,hvaða hjól hentar mér” enda margir að leggja bílnum drúgan hluta úr ári og hjóla frekar eða fá sér rafhjól eftir að starfsaldri lýkur.
Yfir sumartímann virðist sem annað hvert hjólhýsi eða húsbíll sé búið 2 rafhjólum og á tjaldstæðum má sjá hjól í hleðslu fyrir utan ferðavagna. Svo virðist sem hjón á öllum aldri séu búin að finna sér sameiginleg áhugamál í hjólamennskunni og bera þeir sem við bárum það undir helst við að rafhjólin spyrji ekki um líkamlegt atgerfi og þol heldur geti fólk með ólíka getu hjólað saman sér til heilsubótar, ánægju og gagns.
Hér á Akureyri má sjá fjöldan allan af vinahópum sem sameinast í hjólaferðir um bæinn og svo er starfræktur Rafhjólaklúbbur sem nýtur æ meiri vinsælda en hátt í 70 hjólarar mættu þar í vikunni og hjóluðu saman. Með snjóléttari vetrum og bættum aðstæðum til hjólreiða mætti trúa því að þessarri þróun verði ekki snúið svo glatt.