20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Uppbygging fjölbýlishúsa í Tónatröð
„Ef það eru ekki lengur áform um uppbyggingu fjölbýlishúsa í Tónatröð í þeirri mynd sem samþykkt var að auglýsa í febrúar 2023, en ekki verið gert, þá tel ég hreinlegast að taka það verkefni af starfsáætlun og bóka niðurstöðuna svo bæði verktaki og íbúar á svæðinu verði upplýstir um stöðu mála,“ segir í bókun Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur fulltrúa B-lista í skipulagsráði Akureyrarbæjar. „Í framhaldinu verði sett á starfsáætlun að endurskoða skipulagið með uppbyggingu lítilla fjölbýlishúsa í huga.“
Fyrir fundinn var lögð uppfærð starfsáætlun skipulags- og byggingarmála 2024. Bókunin var gerð undir þeim lið. Umræður urðu á bæjarstjórnarfundi á dögunum um verkefni nefnda og ráða og skipulagsráð tekið fyrir. Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista spurði Höllu Björk Reynisdóttur formann skipulagsráðs um stöðu mála við Tónatröð og hver fyrirætlan meirihlutans væri með þann reit. Í svari Höllu Bjarkar kom fram að yfirvöld hefðu átt samtal við þann byggingarverktaka sem hafði reitinn um kostnaðarþátttöku í þeim verkefnum sem framundan væru, en niðurstaða ekki fengist í þeim efnum. „Viðræður hafa staðið yfir við verktakann um skiptingu kostnaðar, sem ekki hafa skilað árangri,“ segir Halla Björk.
Áhugaverð og eftirsótt uppbygging
Þórhallur Jónsson D-Lista bókaði í kjölfar bókunar Sunnu að hann teldi að leggja eigi áherslu á að ná samkomulagi við uppbyggingaraðila Tónatraðar sem fyrst.
„Uppbygging í þeim dúr sem hann hefur kynnt er að mínu mati mjög áhugaverð og verður eflaust mjög eftirsótt. Einnig er þétting byggðar í þeim dúr sem kynnt hefur verið mjög hagkvæm fyrir bæjarfélagið og umhverfið almennt."