20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Uppbygging félagslegra íbúða
Umræður um félagslegar íbúðir á Akureyri og stöðu þeirra mála skjóta af og til upp kollinum. Í liðinni viku var málið til umfjöllunar á RÚV og bent á úrræðaleysi bæjarins. Rætt var við einstakling sem ekki á í nein hús að venda og bíður eftir að komast inn í félagslega íbúð á vegum bæjarins.
Umræður eftir slíka umfjöllun vilja gjarnan snúast upp í úrræða- og aðgerðarleysi bæjarins og krafa gerð um að gripið verði strax til aðgerða. En hver er staðan og hvað hefur verið gert?
Margþættar aðgerðir í gangi
Í dag er Akureyrarbær með um 330 íbúðir í rekstri í félagslega íbúðakerfinu og hafa 12 íbúðir bæst við kerfið á síðustu 2 árum.
Á árunum 2017-2020 er gert ráð fyrir byggingu á allt 15 félagslegum íbúðum en líkt og undanfarin ár er aðaláherslan lögð á úrræði fyrir fatlað fólk og fólk með sérþarfir. Þá samþykkti bæjarráð í nóvember síðastliðnum stofnstyrki til Brynju hússjóðs öryrkjabandalagsins, vegna kaupa á 5 íbúðum á árinu 2017, en alls gerir félagið ráð fyrir að kaupa eða byggja 10 íbúðir á næstu tveimur árum.
Í kjölfar samþykktar húsnæðisáætlunar bæjarins, fyrr á þessu ári, funduðu bæjaryfirvöld með framkvæmdastjóra Bjarg íbúðafélags, sem er samstarfsverkefni ASÍ og BSRB um hagkvæma íbúðauppbyggingu og lýstu báðir aðilar yfir vilja til samvinnu. Horft er til þess að samstarf við Bjarg íbúðafélag geti verið með svipuðum hætti og nýlegt samkomulag sem Hafnarfjarðarbær hefur gert við félagið, þar sem hluti af byggðum íbúðum geti verið í félagslega íbúðakerfi bæjarins. Þá liggur fyrir bæjarráði að endurnýja viljayfirlýsingu við Búfesti um möguleika á því að byggja upp blandaðan íbúðakjarna sem byggi m.a. á reglum um stofnstyrki. Hefur verið sett í gang vinna á skipulagssviði og er unnið að skipulagi með það að markmiði að koma til móts við þessa uppbyggingu. Þess er vænst að niðurstöður um næstu skref liggi fyrir á næstu mánuðum og mun verða tekið tillit til þess við fjárhagsáætlunarvinnu strax í haust. Þessi uppbygging ætti að öllu jöfnu að bæta stöðuna á leigumarkaði og hafa jákvæð áhrif á félagslega íbúðakerfið til lengri tíma litið.
Hátt hlutfall félagslegra íbúða
Akureyrarbær hefur alla tíð lagt metnað sinn í að veita framúrskarandi velferðarþjónustu og verið fyrirmynd annarra sveitarfélag þegar horft er til þeirrar þjónustu sem bærinn er að veita. En ekkert er fullkomið, biðlistar eru langir og því miður hafa komið upp dæmi um að einstaklingar hafa lent á götunni en sem betur fer er slíkt sjaldgæft og oftast tímabundið. Í slíkum tilfellum er reynt að bregðast hratt við og leysa vandann miðað við aðstæður hvers og eins.
Eins og fram kom í upphafi greinarinnar eru félagslegar íbúðir bæjarins í dag 330 og þegar er búið að taka ákvörðun um að fjölga um allt að 25 íbúðir á næstu árum. Hlutfall félagslegra íbúða af heildaríbúðafjölda í bænum er nú í dag með því hæsta, ef ekki það hæsta sem þekkist, meðal íslenskra sveitarfélaga og hefur þá ekki verið tekið tillit til þeirrar viðbótar sem áætluð er á næstu árum.
Við höfum hér að ofan farið yfir stöðu mála í dag, rakið þær framkvæmdir sem eru framundan og þær aðgerðir sem við hyggjumst grípa til. Við teljum því að Akureyrarbær sé að standa sig nokkuð vel í þessum málum og allt tal um úrræða- og aðgerðarleysi eigi tæpast við rök að styðjast.
-Guðmundur Baldvin Guðmundsson oddviti Framsóknar
-Mathías Rögnvaldsson oddviti L-listans
-Sigríður Huld Jónsdóttir oddviti Samfylkingar