Ungmennafélag Akureyrar leitar að þjálfurum í frjálsum

Sigurður Magnússon, formaður Ungmennafélags Akureyrar, segir vöxt í frjálsum íþróttum. Á sama tíma eru þjálfarar sem hafa verið lengi hjá félaginu að hætta og er félagið að leita að þjálfurum í frjálsum í fullt starf og hlutastörf.

„Þjálfarar í frjálsum hjá Ungmennafélagi Akureyrar eru búnir að vinna með okkur lengi jafnhliða fullri vinnu. En nú hittist svo óheppilega á að þjálfararnir hætta allir á sama tíma í haustpásunni. Þau hafa nóg að gera í öðru. Íþróttakennararnir Birgitta Guðjónsdóttir og Unnar Vilhjálmsson hafa þjálfað hjá UFA í mörg ár.  Unnar er að fara í nám í eitt ár til Danmerkur en Birgitta er í fullri vinnu og þjálfar þess utan,“ segir Sigurður Magnússon, formaður og stofnandi Ungmennafélags Akureyrar (UFA).

Þá mun einni hætta Guðmundur Daði Kristjánsson sjúkraþjálfari, sem þjálfað hefur meistaraflokk UFA í eitt ár ásamt að vera hjá Akureyri handboltafélagi. Hann ætlar að einbeita sér að sjúkraþjálfun og handboltafélaginu.

Draumurinn að fá þjálfara í fullt starf

Sigurður segir UFA hafa ráðið þjálfara fyrir 14 ára og yngri en þjálfara vanti fyrir eldri aldursflokka áður en æfingar hefjast um miðjan september. Frjálsar íþróttir hafa verið æfðar úti við á Akureyri á sumrin.

Nú er haustpása og hefjast æfingar að nýju 15. september. Boginn íþróttahús sem er æfingaaðstaða UFA innanhúss opnar ekki fyrr en í byrjun október þar sem verið er að skipta um gervigras og meðal annars unnið að bættri aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir.

„Draumurinn er að fá þjálfara í fullt starf. Við höfum leitað að þjálfurum í sumar og höfum nú sett allt á fullt fyrir veturinn,“ segir Sigurður og bendir á að þörf sé á tveimur aðalþjálfurum og tveimur meðþjálfurum og fleiri á sumrin.

 

Nýjast