Undirbúa hátíðarhöld á sjómannadegi
„Það er mikill hugur í okkur sjómönnum að halda áfram að endurvekja hátíðarhöld Sjómannadagsins, degi sem við í árafjöld börðumst fyrir að yrði lögboðin frídagur okkar. Það tókst vel til í fyrra með að færa þau út í Sandgerðisbót, sem er falin perla í bænum, stærsta smábátahöfn landsins þar sem hafnaryfirvöld og Akureyrarbær hafa skapað frábæra aðstöðu fyrir trillusjómenn,“ segir Sigfús Ólafur Helgason sem ásamt fleirum vinnur að undirbúningi dagskrár vegna Sjómannadagsins um aðra helgi.
Leikurinn frá í fyrra verður endurtekinn og heldur bætt í ef eitthvað er. Sjómenn og verðbúðareigendur bjóða gestum heim frá kl. 10 til 13 á laugar, 1. júní. Þar verður í boði sjávarfang af ýmsum gerðum og með alls kyns verkunum, eins og sigið, saltað og hert. Lúðrasveit Akureyrar blæs upp sjómannastemmningu og pylsur verða grillaðar svo eitthvað sé nefnt.
Sjómannamessa og sigling
Sjómannamessa verður í Akureyrarkirkju á sunnudag með þátttöku sjómanna og verða tveir aldraðir sjómenn heiðraðir. Stutt athöfn verður við minnismerki í Kirkjugörðum Akureyrar og blómsveigur lagður í minningu látinna sjómanna.
Trillusjómenn efna til hópsiglingar og fer Húni II fyrir hópnum, nýkomin úr slipp og glæsilegri en nokkru sinni. Sjómannafélag Eyjafjarðar býður bæjarbúum í siglingu með Húna líkt og undanfarin ár. Siglingarklúbburinn Nökkvi verður með opið hús í aðstöðu sinni á Höpfnersuppfyllingunni á sunnudeginum.