20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Um mannleg samskipti
Það er mikilvægt að raddir allra fái að heyrast og á alla sé hlustað. Það hefur líka aldrei verið auðveldara fyrir fólk að láta í sér heyra, koma skoðunum sínum á framfæri, taka þátt í umræðum og leggja til málanna. Þökk sé samfélagsmiðlum sem orðnir eru sjálfsagðir hluti af daglegu lífi okkar og flest okkar notum. Þar er líka auðvelt að slá um sig, kveða upp dóma yfir mönnum og málefnum og vera stóryrtari en við erum að jafnaði augliti til auglitis við samferðafólk okkar. Við viljum að á okkur sé hlustað og ef við náum ekki eyrum annarra, þá hrópum við bara hærra en aðrir í þeirri veiku von að á okkur verði loksins hlustað. Skiptir þá ekki öllu hvað er sagt eða hvaða dóma er verið að fella, svo framarlega sem rödd okkar fær að heyrast.
En jafnvel þó við fellum ekki dóma yfir öðru fólki eða látum andstöðu okkar í ljós gegn öllum málum sem upp koma, þýðir það ekki endilega að við samþykkjum eða göngumst við öllu sem sagt er og gert. Það er heldur ekki þar með sagt að við séum ekki þátttakendur í daglegri umræðu þó við látum skoðun okkar ekki í ljós með upphrópunum og stóryrðum. Það er oft eins og sannleikurinn sé það sem meirihlutinn kemur sér saman um hverju sinni að sé satt og rétt. Annað skipti í raun ekki máli. Allt verður annaðhvort svart eða hvítt og allar línur beinar og hornréttar. Það er ekkert sem er köflótt eða doppótt. Það má segja t.d. að með því að fella dóma um að eitthvað sé „gott eða vont“, „asnalegt eða frábært“, séum við að stytta okkur leið í að útskýra á nákvæmari hátt hvað það er sem við viljum segja eða erum að meina.
Öll ættum við að veita okkar eigin hegðun athygli og líta okkur nær áður en við hrópum skoðun okkar út oft með afleiðingum sem við vitum hreinlega ekki hverjar geta orðið. Það er meira að segja hægt að æfa sig í því og auka þannig líkurnar á að hafa stjórn á því hvað sagt er og gert. Það er meðal annars hægt að veita því athygli hversu oft á dag felli ég dóma yfir öðrum? Gæti ég hafa sagt hlutina með öðrum hætti, valið önnur orð og hugtök eða jafnvel bara sleppt því?
Á þessu ári fékk Akureyrarbær viðurkenningu sem fyrsta Barnvæna sveitarfélagið á Íslandi. Í þessari viðurkenningu felast tækifæri til að styðja við að rödd barna heyrist og að þeim sé búið gott samfélag. Það er mikilvægt að við tökum alvarlega það hlutverk og séum góð fyrirmynd í mannlegum samskiptum. Að við séum fær um að sína virka þátttöku þar sem rödd okkar heyrist og um leið borið virðingu fyrir öðrum.
Akureyri hefur sett fram Velferðarstefnu og birtast í henni markmið og tilgangur stefnunnar sem á þjóna íbúum sveitarfélagsins hverju sinni. Velferðarstefnan byggir á þremur gildum, fagmennsku, virðingu og gagnsæi. Í kaflanum virðing kemur m.a. fram að góð samskipti einkennast af tillitsemi, vinsemd, háttvísi og ábyrgð. Jafnframt er lögð áhersla á samvinnu og mikilvægi þess að tekist sé á við viðfangsefni með jákvæðu viðhorfi, sanngirni og heiðarleika. Áhersla er lögð á að börnum og ungmennum sé veitt öryggi og góðar uppeldisaðstæður og að allir í samfélaginu leggi að mörkum til þess að svo megi vera. Það er mikilvægt að hafa sýn og vita hvert maður stefnir en um leið er nauðsynlegt að átta sig á því að það er dagurinn í dag, hegðun okkar og framkoma sem hefur áhrif á framtíðina og hvernig okkur líður. Kennum börnum okkar að dómharka er ekki líkleg til árangurs í mannlegum samskiptum. Það er líka afar ólíklegt að upphrópanir og köll leiði til uppbyggilegra samskipta eða sé árangursríkt á nokkurn hátt. Það getur verið gott að temja sér að horfa á aðstæður frá fleiru enn einu sjónarhorni og viðurkenna að það sem virðist vera andstætt hvort öðru geti hvorutveggja innihaldið einhvern sannleika. Kannski mun okkur öllum líða betur ef við vöndum okkur við að láta skoðanir okkar í ljós svo rödd okkar heyrist þar sem hún skiptir virkilega einhverju máli.
„Þó einhver hafi sagt það þýðir það ekki að það sé satt“.
Ég skora á Arnfríði Aðalsteinsdóttur í að skrifa næsta pistil.
-Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir