Um barna og unglingastarf í Akureyrarkirkju

Foreldramorgnar njóta vinsælda   Myndir:Aðsendar
Foreldramorgnar njóta vinsælda Myndir:Aðsendar

Í Akureyrarkirkju boðið er upp á fjölbreyttar samverur og starf fyrir yngri kynslóðina, allt frá Krílasálmum fyrir ungabörn til unglinga í æskulýðsfélaginu. Breiddinn í starfinu er nauðsynleg enda söfnuðurinn fjölmennur og að sama skapi fjölbreyttur. Í brúnni standa Sonja Kro, æskulýðsfulltrúi, og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti, og stýra þessi starfi af alúð og fagmennsku.

Undir hatt Sonju falla Sunnudagaskóli, Foreldramorgnar, Kirkjukrakkar (1-4. bekkur), TTT (5-7. bekkur) og ÆFAK (8-10. bekkur). Sigrún Magna stýrir yngri og eldri barnakór Akureyrarkirkju. Samtals eru sjö samverustundir í boði sem eru sniðnar að aldri, þörfum, getu og áhuga þátttakenda. 

Kirkjukrakkar, TTT og ÆFAK

Kirkjukrakkar, TTT og ÆFAK er vikulegt starf með fjölbreyttum verkefnum. Áhersla verkefnanna er að mynda traust vinabönd í hópnum, vekja gleði, fræða og skemmta sér saman í leik, í föndri, í leiklist, tilraunum, bakstri, bingó, að ógleymdum feluleiknum sem er sívinsæll. Undir, yfir og allt í kring er auðvitað trúin og hið kristna sjónarhorn á lífið og tilveruna. Með Sonju starfar stór hópur ungleiðtoga á aldrinum 14-22 ára:  María, Darri, Svanhvít, Felix, Anton, Hrafnhildur, Emilía og Ragnheiður sem sjá um að halda uppi stuðinu og fjörinu.

Barnakórar Akureyrarkirkju

Strákar og stelpur syngja saman á vikulegum barnakórsæfingum. Yngri barnakórinn er skipaður börnum úr 2-4. bekk og eldri barnakórinn er fyrir 5.bekk og upp úr. Stjórnendur eru Sigrún Magna, Erla Mist Magnúsdóttir og Guðný Alma Haraldsdóttir. Áhersla er lögð á að syngja skemmtilega tónlist, rétta raddbeitingu og að öllum líði vel. Afrakstur æfinganna er síðan sungin í fjölskylduguðsþjónustum í kirkjunni, á ýmsum uppákomum og tónleikum í bænum. Kórarnir sækja kóramót og fara í ferðalög. Að syngja saman er valdeflandi og alveg einstaklega gaman að ógleymdum þroskandi og nærandi áhrifum þess að stunda tónlistaiðkun.

Sunnudagaskólinn og foreldramorgnar

Sunnudagaskólinn er þekkt fyrirbæri með sönginn og bíblíusögu í forgrunni og með Sonju eru tónlistarkonurnar Hóffa og Guðný Alma til skiptis. Foreldramorgnar eru kannski ekki jafn þekktir en það er samstarfsverkefni Akureyrar- og Glerárkirkju, alltaf haldið í Glerárkirkju. Á foreldramorgnum býðst nýbökuðum foreldrum að hittast með ungabörnin sín í spjall og samveru og einstaka sinnum er í boði fræðsla um uppeldi og börn. Þar er nú um stundir er verið að bjóða upp á Krílasálma sem Sigrún Magna leiðir, söngstund með ungabörnum sem er alveg einstök upplifun fyrir barnið og foreldrið, algjör töfrastund sem er afar gefandi og nærandi.

Allskonar fyrir alla

Kirkjan keppir að því að vera öllum skjól og staður þar sem þú finnur góð og falleg tengsl. Fyrir fjölbreyttan söfnuð þarf starfið að vera fjölbreytt og allskonar en það er rammað inn af aga, gleði og faglegum vinnubrögðum til að vernda, styðja og þroska þátttakendurnar í þessu merkilega og góða starfi. Allt starf fyrir börn í Akureyrakirkju er þeim að kostnaðarlausu (lengri ferðir og mót undanskilin).

 

Barnastarfið í Akureyrarkirkju

Sunnudagaskóli í Safnaðarheimili alla sunnudaga kl. 11.00

Foreldramorgnar alla fimmtudaga kl. 10-12 í Glerárkirkju

Kirkjukrakkar 1-4. bekkur, kl. 15.00-16.00 í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.

TTT 5-7. bekkur, mið. kl. 16.30-17.30 í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.

ÆFAK 8-10. bekkur, mið. kl. 20.00 í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju

Yngri barnakór 2-4. bekk, fim. kl. 14.00-14.50 í Kapellu Akureyrarkirkju

Eldri barnakór 5. bekk og eldri, fim. kl. 15.00-16.00 í Kapellu Akureyrarkirkju.

Frekari upplýsingar má finna á akureyrarkirkja.is

Nýjast