Um 70 bændur í Suður Þingeyjarsýslu óskuðu sameiginlega eftir tilboðum í áburð
Um 70 bændur í Suður Þingeyjarsýslu óskuðu sameiginlega eftir tilboði í áburðarkaup sín, en magnið sem þeir þurfa er um 1.400 tonn og verðmætið allt að 180 milljónir króna.
Ari Heiðmann Jósavinsson bóndi í Miðhvammi segir að óskað hafa verið tilboða hjá fimm áburðarsölum og bárust þrjú tilboð. Þeir sem buðu í pakkann voru Sprettur, í eigu Skeljungs og norðlensku fyrirtækin Bústólpi og Búvís. Yara bauð óbreytta og gildandi verðskrá og Lífland sendi ekki inn tilboð.
„Við erum frekar svekkt yfir að ekki hafi borist hagstæðari tilboð í svo stóran pakka,“ segir Ari en bændur hafa borið saman bækur sína á rafrænum fundi og um það bil helmingur þeirra metur boð Spretts hagstæðast.
Ari segir að það sé áfangi að hafa náð svo stórum hópi bænda saman, en áburður hafi hækkað gríðarlega sem og öll önnur aðföng sem þrengir stöðuna. Hann gerir ráð fyrir að bændur haldi áfram á sömu braut og óski tilboða í sameiningu í fleira sem viðkemur rekstri þeirra, rúlluplast, olíu, tryggingar og vexti sem dæmi. Eins horfi þeir til þess að ná fram betri verðum fyrir sauðfjárafurðir næsta haust með sameiginlegu átaki.
/MÞÞ