Um 500 umsóknir um aðstoð úr Velferðarsjóði Eyjafjarðarsvæðis
„Þetta verður mesta jólaúthlutun okkar frá upphafi,“ segir Herdís Helgadóttir formaður Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis. Rúmlega 500 umsóknir bárust um úthlutun í ár, heldur meira en var fyrir síðustu jól. Að auki verður sú upphæð sem hver og einn fær hækkuð sem þýðir að sjóðurinn þarf að safna meira fé en áður. Sjóðurinn er samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og nágrennis og Rauða krossins við Eyjafjörð.
„Það er í raun ekki hægt að segja að þetta sé meira en við bjuggumst við, því við höfðum búist við aukningu á milli ára. Við sjáum það í okkar reglulegu úthlutunum og öðru starfi að staðan er víða þung, svo 500 umsóknir koma kannski ekki á óvart,“ segir Herdís. Fyrir nokkrum árum voru umsóknir um aðstoð fyrir jól um 300 talsins að jafnaði þannig að aukningin hefur verið umtalsverð á síðustu árum.
Hún segir að umsækjendur séu bæði Íslendingar og útlendingar, fjölskyldufólk og einstaklingar. „Þetta er ekki einsleitur hópur heldur fjölbreyttur, það er margt sem getur haft áhrif á stöðu fólks og þegar efnahagsástandið er erfitt má oft lítið út af bregða. Það er of stór hópur sem nær ekki endum saman,“ segir hún og bætir við að vissulega væri gott ef ekki væri þörf á slíkri aðstoð og allir gætu séð fyrir sér og sínum. „En fyrst þörfin er til staðar er gott að við getum rétt hjálparhönd.“
Söfnun í fullum gangi
Herdís segir að söfnun sé í fullum gangi, þegar hafi félög og fyrirtæki lagt lið og fleiri eigi eftir að bætast í hópinn. „Við söfnum mestu fyrir jólin, það er okkar mikilvægasta söfnun. Í raun söfnum við fyrir öllu okkar starfi á þessum árstíma, bæði jólaaðstoðinni og reglubundnum úthlutunum yfir árið. Það hefur mikil ásókn verið í aðstoð í ár sem segir okkur að staðan er víða erfið,“ segir hún en um 500 úthlutanir hafa verið árið 2023 fram að jólaúthlutun. „Við munum þurfa talsvert fjármagn núna, því ákveðið var að hækka þá upphæð sem fólk fær, en hún hefur verið sú sama í nokkur ár og ljóst að það fæst mun minna núna fyrir hvern þúsundkall en fékkst fyrir ári eða tveimur.”
Njóta velvilja samfélagsins
Herdís segir að Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis hafi notið velvilja samfélagsins um árin og svo er einnig nú. „Við erum þakklát fyrir þann stuðning sem við fáum og velvilja í okkar garð,“ segir hún og bætir við að slíkt sé ekki síst mikilvægt nú þegar neyðin sé mikil. Verðbólga og háir vexti auðveldi þeim sem lítið hafa milli handanna ekki lífið. „Húsnæðiskostnaður er víða þungur baggi og verðlag t.d. á matvöru hefur rokið upp og hefur sín áhrif.“